20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Ólafur B. Óskarsson:

Herra forseti. Ég hlýt að þakka hæstv. landbrh. fyrir að fullvissa bændur um það hér að þeir þurfi í engu að kvíða uppgjöri í sauðfjárræktinni, hvorki á þessu hausti né heldur hinu næsta. En því miður er ég hræddur um að ýmsum muni þykja þessi fyrirheit létt í vasa þegar þeir standa frammi fyrir þeim úthlutunum sem þeir gera nú.

Það er ekki hægt að komast langt í umræðum um þessi mál á tveimur mínútum, en ég bendi aðeins á hlut Framleiðnisjóðs sem hefur verið töluvert mikið í umræðunni að undanförnu. Fulltrúar hans hafa verið á yfirreið vítt og breitt um landið og hvetja menn til að selja sitt búmark eða fullvirðisrétt. Þessa aðferð, að kaupa upp fullvirðisrétt bænda vítt og breitt um landið, leyfi ég mér nokkuð að gagnrýna vegna þeirrar grisjunar sem getur orðið á byggð og endanlega getur skipt sköpum um hvort tiltekin byggðarlög fara hreinlega í eyði eða ekki.

Markmið Framleiðnisjóðs, eitt af höfuðmarkmiðum hans eftir því sem ég veit best, átti að vera að styðja við og byggja upp aðra atvinnustarfsemi í sveitum en hina hefðbundnu landbúnaðarframleiðslu. Þarna sýnist mér vera nokkuð öfugt að farið að kaupa upp hin smærri bú og reyna að stækka búin og fækka þeim. Flestallt það sem getur komið til viðbótar annarri atvinnuuppbyggingu í sveitum er tímabundið við ákveðna árstíma og sé fótunum kippt undan hinni hefðbundnu framleiðslu er horfin sú hvatning til fólks ef það vill hafa búsetu á þessum svæðum.

Það er mergurinn málsins, sem hv. þm. Páll Pétursson nefndi áðan, að sé hin hefðbundna landbúnaðarframleiðsla ekki til staðar hrynur byggðin.

Það sem þm. þurfa að athuga, ekki bara þeir sem eru tengdir landbúnaði heldur bæði þm. dreifbýlis og þéttbýlis, er að gera upp við sig hvort það eigi að halda við byggðinni vítt og breitt um landið eða ekki. Þeir þurfa líka að móta raunhæfar tillögur um hvernig það skuli gert. Ef á að draga saman hina hefðbundnu landbúnaðarframleiðslu viljum við vita nákvæmlega hvernig á að viðhalda byggðinni og hvað eigi að koma í staðinn. Við sem stöndum í því úti um land að efla eða halda við okkar byggðum þurfum að vita hver stefnan er og hvort við raunverulega stöndum frammi fyrir möguleikum, eða hvort við erum að berjast við vonlaust verkefni.