20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Mér þætti vænna um ef hægt væri að fá hæstv. fjmrh. í salinn. (Forseti: Það er verið að ná í hæstv. fjmrh. eða láta hann vita að umræða sé hafin hér.) Já. Það var vegna beinnar fsp. eða ítrekunar á fsp. til hans. Ég hef engu öðru við það að bæta. Ég mundi þá bíða þangað til hann er kominn í salinn.

Frú forseti. Ég kvaddi mér hljóðs eingöngu vegna þess að það hefur annaðhvort farið fram hjá mér eða þá ekki verið um nein bein svör að ræða hjá hæstv. fjmrh. vegna sölu spariskírteina á komandi fjárlagaári þar sem talað er um í lánsfjárlögum að afla 500 millj. kr. tekna með sölu spariskírteinanna. Það sem maður veit um sölu þessara skírteina er það að ávöxtun þeirra þarf að skila ákveðnum arði til þeirra sem þau hafa í höndum. Maður veit að sala þeirra og umsýsla öll kostar ákveðið fé. Það var t.d., að mig minnir, í umræðu á seinasta ári upplýst að Landsbankinn hafði eytt um það bil 12 millj. þá í auglýsingar sem mestan part voru til komnar vegna sölu spariskírteina. Maður spyr þá hvaða tekna ríkið vænti af þessari spariskírteinasölu. Og maður spyr: Kann það að vera að sölu þessara spariskírteina sé þannig komið í dag að þetta sé orðin umsýsla sem snýst mestan part um sjálfa sig, þ.e. aflar engra raunverulegra tekna til ríkissjóðs? Eins og ég sagði í upphafi máls míns hefur það farið fram hjá mér ef ráðherrann hefur svarað þessu. Hafi hann gert það verð ég að leita í þingtíðindi, en hafi hann ekki gert það væri mér hugarhægra ef hann vildi gera svo vel og svara því í umræðunni.