20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

151. mál, afstaða Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér þætti vænt um ef virðulegum varaformanni utanrmn., sem gegnir þar störfum í fjarveru formanns nefndarinnar, hv. 9. þin. Reykv., yrði gert viðvart um að umræða fari fram um þetta mál og eins held ég að væri æskilegt ef hv. 2. þm. Norðurl. v., Páll Pétursson, væri viðstaddur umræðuna þar sem ég ætla aðeins að víkja að afstöðu hans til þessa máls á fyrri stigum.

Ég fagna því hins vegar að hæstv. utanrrh. hefur tekið sér tíma til að vera viðstaddur umræðu hér um þá till. sem ég mæli fyrir en það er till. til þál. á þskj. 161 um afstöðu Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi lýsir yfir stuðningi við ályktunartillögu Svíþjóðar, Mexíkó og fleiri ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar risaveldanna („frystingu“) og felur ríkisstjórninni að styðja þá tillögu á allsherjarþinginu eins og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa þegar gert.“

Þetta er tillögutextinn og í grg. er vikið að flutningi þessarar tillögu og afgreiðslu á fyrri þingum Sameinuðu þjóðanna en þar hefur hún verið flutt um árabil og hlotið stuðning vaxandi fjölda ríkja, yfirgnæfandi stuðning, og er raunar sú tillaga um stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins sem hefur notið mests fylgis á þessum vettvangi, og þar sem vestræn ríki, þar á meðal bandalagsríki Atlantshafsbandalagsins, hafa staðið að samþykkt tillögunnar og einnig það gerðist á síðasta allsherjarþingi. Þar hlaut tillagan 131 atkvæði í fyrra. Það voru 10 ríki, fyrst og fremst vestræn stórveldi, sem greiddu atkvæði gegn tillögunni, en þá sátu 8 ríki hjá, þar á meðal Ísland. Þá greiddu hins vegar aðrar Norðurlandaþjóðir, allar með tölu, Danir, Norðmenn, Svíar og Finnar, þ.e. þær Norðurlandaþjóðir sem eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum, tillögunni atkvæði sitt.

Nú liggur sams konar tillaga fyrir allsherjarþinginu, hún kom fram 30. október s.l., um stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar, flutt af sama hópi ríkja, eða fimm ríkjum, og er gjarnan kennd við Mexíkó og Svíþjóð sem forustuaðila í þessum tillöguflutningi á undanförnum allsherjarþingum. Hún fékk skjóta meðferð í fyrstu nefnd allsherjarþingsins sem fjallar um afvopnunarmál og öryggi. Þar var hún samþykkt með 118 atkvæðum þann 11. nóv. s.l., 12 ríki greiddu atkvæði á móti, aðallega Nató-ríki, en fjögur ríki sátu hjá, þ.e. Ísland, Holland, Spánn og Kína. Niðurstöður þessarar atkvæðagreiðslu í fyrstu nefnd allsherjarþingsins er að finna á fskj. II með þessari þáltill. þar sem menn sjá svart á hvítu í hvaða ljós Ísland setur sig á þessum vettvangi þjóðanna í sambandi við þetta mál mála, stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins sem lágmarksskref til afvopnunar. Ísland er hér eitt Norðurlanda sem ekki styður málið.

Alþingi hefur enn aðstöðu til að lýsa vilja sínum til þessa máls áður en tillagan gengur til atkvæða á allsherjarþinginu innan fárra vikna.

Alþingi samþykkti ályktun um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum 23. maí 1985 þar sem m.a. kemur fram eindreginn stuðningur við stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar. Þessi till. er birt sem þriðja fskj. með þessari þáltill. og það þarf alveg sérstök gleraugu til að finna út rökstuðning fyrir afstöðu Íslands, eins og hæstv. utanrrh. þó telur sig finna, til að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.

Þetta mál kom til umræðu í fyrradag hér í Sþ. af tilefni fsp. frá hv. 3. landsk. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, sem bar fram fsp. til ráðherra um afstöðu til málsins, og ráðherrann greindi þá frá sjónarmiðum sínum og á eftir vafalaust í umræðunni að fylgja þeim frekar eftir. Ég hef farið yfir ræðu hæstv. ráðh. við þetta tækifæri og ég sé ekki hvernig í ósköpunum ráðherrann ætlar að verja afstöðu sína og rökstyðja þetta mál því að það er ekki að finna rök í því svari sem kom fram s.l. þriðjudag, eins og ég hef það fyrir framan mig og gæti vitnað til en ætla ekki að sinni að taka tíma í það.

En ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, vegna málsins að við lítum aðeins í fskj. I og þá í sjálfan tillögutextann sem er það sem liggur fyrir til ályktunar. Þar segir:

„Allsherjarþingið“, og síðan fer ég yfir í ályktunartextann sjálfan, tölul. 1, „hvetur enn einu sinni Sovétríkin og Bandaríkin sem tvö fremstu kjarnorkuveldin til að lýsa yfir, annaðhvort með einhliða yfirlýsingu samtímis eða með sameiginlegri yfirlýsingu, tafarlausri frystingu kjarnavopna sem verða mundi fyrsta skref í átt til allsherjaráætlunar um afvopnun er að formi og umfangi yrði sem hér greinir:

(a) hún mundi fela í sér

i allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn og skotbúnað þeirra,

ii algera stöðvun framleiðslu kjarnavopna og skotbúnaðar þeirra,

iii bann við allri frekari uppsetningu kjarnavopna og skotbúnaðar þeirra,

iv algera stöðvun framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarlegum tilgangi.

(b) Hún yrði háð viðeigandi eftirlitsráðstöfunum og reglum, svo sem þeim sem þegar hefur orðið samkomulag um í SALT-I og SALT-II samningunum, svo og þeim sem grundvallarsamstaða hefur náðst um í undirbúningsviðræðum þríhliða samninganna um allsherjarbann við tilraunum sem haldnar eru í Genf.

(c) hún yrði í fyrstu miðuð við fimm ára tímabil með fyrirvara um framlengingu eftir að önnur kjarnavopnaríki gerast þátttakendur í slíkri frystingu eins og allsherjarþingið hvetur þau til.

2. Óskar eftir því [þ.e. allsherjarþingið] við fyrrnefndu tvö mestu kjarnavopnaveldin að þau leggi fram sameiginlega skýrslu eða tvær aðskildar skýrslur til allsherjarþingsins áður en 42. þing þess hefst um framkvæmd þessarar ályktunar.

3. Ákveður að setja á bráðabirgðadagskrá 42. þingsins dagskrárlið er beri heitið: Framkvæmd ályktunar allsherjarþingsins nr. 41/um frystingu kjarnavopna.“

Þetta er sjálfur ályktunartextinn, en á undan honum fylgja aðfaraorð sem menn geta kynnt sér í fskj. I og hæstv. ráðh. vék að í svari sínu s.l. þriðjudag nokkrum orðum, benti m.a. á að þar hafi orðið breyting sem hafði verið honum áður þyrnir í auga, en þeir eru fleiri þyrnarnir sem hæstv. ráðh. sér í þessari till. og valda væntanlega þeirri niðurstöðu hans að láta fulltrúa Íslands á allsherjarþinginu í fyrstu nefnd greiða atkvæði gegn till. Hæstv. ráðh. hefur lýst þeim ásetningi sínum að staðið verði við þá ákvörðun við atkvæðagreiðslu á allsherjarþinginu sjálfu, en gert er ráð fyrir því að þingið standi skemur en oft hefur verið, ljúki e.t.v. störfum viku af desember.

Þetta mál kom upp í fyrra með nokkuð sérstökum hætti. Þá fréttum við af því, fulltrúar í utanrmn., í byrjun desember, eða um svipað leyti árs og nú, að þegar væri búið að taka afstöðu til þessarar till. af hálfu Íslands í fyrstu nefnd þingsins með hjásetu. Þegar vitneskja barst um þetta, og það var reyndar um viku af desember sem málið var tekið upp í Sþ. utan dagskrár, vakti ég sérstaklega athygli á þessari niðurstöðu og óskaði eftir því að þingið hefði aðstöðu til að ræða málið og taka sínar ákvarðanir þar að lútandi.

Í umræðum vegna þessa máls utan dagskrár kom m.a. fram að nokkrir hv. þm. Framsfl., þar á meðal formaður þingflokksins Páll Pétursson, væru ósammála hæstv. þáv. utanrrh. og teldu engin rök að finna í ályktun Íslands fra 23. maí 1985 til stuðnings þeirri afstöðu ráðherrans og í raun ríkisstjórnarinnar sem er þarna að lýsa afstöðu sinni. Þetta leiddi til þess að miklir brestir urðu á 1. hæð þinghússins og síðan í fjölmiðlum, þar sem formaður Sjálfstfl. bar þau skilaboð til hæstv. forsrh. síðdegis sama dag, að ef samþykkt yrði ályktunartillaga sem fæli í sér að Alþingi ályktaði sem svo að Ísland skyldi greiða atkvæði með þessari till. á allsherjarþinginu, væri stjórnarsamstarfinu lokið. Þetta fékk þingflokkur framsóknarmanna reyndar fyrst að heyra í gegnum morgunútvarpið líklega að morgni 7. des., því að forsrh. hafði ekki haft fyrir því að upplýsa þingflokkinn um þennan stól, sem formaður Sjálfstfl. var að setja fyrir dyrnar í stjórnarsamstarfi, ef Framsfl. ekki beygði sig fyrir þessari afstöðu í heild sinni og einhverjir slæddust inn til stuðnings þeirri afstöðu sem ég túlkaði í umræðu um þetta mál með tilvísun í samþykkt Alþingis frá því í maí 1985.

Í framhaldi af þessu komu síðan fram í Sþ. tillögur um málið, till. efnislega eins og sú sem ég mæli hér fyrir um að Alþingi lýsi stuðningi við ályktunartillöguna, en einnig till. frá þm. Framsfl., ég hygg meiri hluta þingsflokksins eða helmingi a.m.k., um frystingu kjarnorkuvopna, á þskj. 223 á síðasta þingi, og flm. voru, með leyfi forseta, hv. þm. Páll Pétursson, Ingvar Gíslason, Stefán Valgeirsson, Haraldur Ólafsson, Þórarinn Sigurjónsson, Guðmundur Bjarnason, Jón Kristjánsson og Davíð Aðalsteinsson. Till. hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að lýsa þeirri skoðun sinni að Ísland eigi að leitast við að ná samstöðu með öðrum ríkjum Norðurlanda um frystingu á framleiðslu kjarnavopna og bann við tilraunum með kjarnavopn. Ísland skal hafa frumkvæði um tillöguflutning á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um þau mál a grundvelli ályktunar Alþingis 23. maí 1985.“

Þetta var till. þeirra framsóknarmanna eftir mjög hörð átök í þingflokki um hvort þingflokkurinn ætti að styðja þá till. sem ég hafði þá undirbúið að flutt yrði. Efnislega er þó niðurstaðan hjá þeim hv. þm. framsóknarmanna, sem þarna töluðu og fluttu till., að Íslandi beri að fylgja öðrum Norðurlöndum varðandi afstöðu til frystingar á framleiðslu kjarnorkuvopna og bann við tilraunum með kjarnavopn, meira að segja að Ísland skuli hafa frumkvæði þar að lútandi að efnislega væri fylgt eftir ályktun Alþingis um þetta efni. Í rauninni voru því hv. þm. Framsfl. að lýsa yfir stuðningi, þó að það væri með svolitlum dulmálsstíl, við tillögu Svíþjóðar og Mexíkó á allsherjarþinginu. Nú reynir á afstöðu þessara hv. þm. á Alþingi því að ég treysti því að þessi till. fái þinglega meðferð í utanrmn., sú till. sem ég mæli hér fyrir, og komi til þingsins þannig að þingviljinn komi í ljós í þessu máli.

Hér er ekki um neitt smámál að ræða heldur eitt afdrifaríkasta mál mannkyns. Og ég tel það, herra forseti, með öllu óþolandi að hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin túlki afstöðu Alþingis frá 23. maí 1985 með þeim hætti sem ráðherrann leyfir sér að gera í sambandi við afstöðu Íslands til þessa máls á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er ekki viðunandi fyrir utan rökleysuna og það ljós sem fellur á Ísland, sem var nýlega gestgjafi fyrir forustumenn risaveldanna, það ljós sem á Ísland fellur með þeirri afstöðu sem hæstv. ráðh. hefur látið fulltrúa sína túlka á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Það er sannarlega orðið áberandi hvernig íslenska ríkisstjórnin hengir sig aftan í afstöðu Reaganstjórnarinnar í hinum afdrifaríkustu málum. Þetta hefur komið fram hér á undanförnum misserum trekk í trekk. Þetta hefur birst í þeirri furðulegu staðreynd að hæstv. utanrrh. lýsir yfir stuðningi við stjörnustríðsáætlun, geimvopnaáætlun Bandaríkjastjórnar og telur fýsilega samvinnu af Íslands hálfu um stjörnustríðsáætlunina. Þetta kemur fram í því að utanrrh. f.h. ríkisstjórnar neitar að lýsa andúð á áframhaldandi tilraunasprengingum Bandaríkjanna í stað þess að leggjast á sveif og nota tækifærið meðan Sovétríkin enn halda að sér höndum til þess að læsa því máli að risaveldin hætti þessum glæfraleik og önnur ríki, sem stunda tilraunir með kjarnorkusprengingar, fái enn meiri þunga almenningsálitsins í heiminum þar að lútandi.

Það má minna á afstöðu til margra fleiri mála eins og í sambandi við þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að hefja framleiðslu nýrra efnavopna, afstöðu sem tekin var um miðjan maímánuð. Hæstv. utanrrh. frétti ekki af því fyrr en við þm. Alþb. hringdum upp í ráðuneyti til að vekja athygli á því hvað þar væri á seyði. Menn muna eftir afstöðu ríkisstjórnarinnar varðandi árásina á Líbýu sem rædd var hér í Sþ. og svo má lengi telja.

Hæstv. ráðh., sem er að rökstyðja afstöðu sína, segir sem svo: Ja, frysting er bara tímaskekkja þegar stórveldin eru að ræða um eitthvað miklu, miklu meira. En hafa þau samið um eitthvað mikið meira? Hver var niðurstaðan á Reykjavíkurfundinum? Ætti stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins væri ekki stórt skref sem mannkyn mundi fagna með ályktun af þessu tagi og þunga sem á bak við hana liggur um áætlun um afvopnun að því marki sem hér var talað um í Reykjavík en ekki fallist á og síðan framhald hennar með eyðingu kjarnorkuvopna fyrir miðjan næsta áratug?

Ég minni á það, herra forseti, hvernig Bandaríkjastjórn, sem hæstv. utanrrh. er að hengja sig aftan í með hjásetu á allsherjarþinginu, túlkar ABM-sáttmálann með þeim hætti sem menn þekkja eftir Reykjavíkurfundinn, ABM-sáttmálann um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar í sambandi við gagneldflaugakerfi í víðum skilningi. Hún telur sig geta framkvæmt tilraunir með geimvopn innan ABM-sáttmálans, skilningur sem mótmælt er af öllum Vestur-Evrópuríkjum og Bandaríkjastjórn vöruð við. Þessi sáttmáli tengist SALT-I samningnum. Og í sambandi við SALT-II samninginn um þak á langdrægar kjarnorkueldflaugar. Hvað er að gerast þar? Bandaríkin hafa lýst sig óskuldbundin SALT-II samningnum sem fyrrv. forseti Bandaríkjanna stóð að á sínum tíma en Bandaríkjaþing ekki að forminu til staðfesti. Forsetinn lýsti þó yfir 1980, Reagan Bandaríkjaforseti, að hann mundi halda sig innan samkomulagsins, en nú hefur hann nýverið, á þessu ári, tilkynnt að Bandaríkin séu óbundin af þessum samningi. Þessa dagana eru Bandaríkin að sprengja þennan samning í reynd, SALT-II samninginn, en utanrrh. Íslands segir: Það er engin ástæða til þess að standa að tillögu um frystingu þegar verið er að tala um eitthvað allt, allt annað. Það er ekki spurningin um hvað er talað á meðan ekki næst samkomulag. Frysting væri stór áfangi ef hún lægi fyrir í dag og mundi vera fagnað af þjóðum heims, sem auðvitað reisa kröfuna um afvopnun kjarnorkuvígbúnaðarins. Og ég endurtek það sem ég sagði hér um daginn varðandi afstöðu íslenska utanríkisráðherrans til stöðvunar með kjarnorkusprengingar. Á sama hátt er það hneyksli að Ísland skuli ekki skipa sér á bekk með öðrum Norðurlandaþjóðum í afstöðu til þessa máls. Kannske sér hæstv. utanrrh. að sér. En ég er því miður ekki mjög trúaður á það eftir orð hans hér á þriðjudaginn var, en það er skýlaus skylda þingsins að taka afstöðu í máli sem þessu og ég treysti því að þessi tillaga, eftir meðferð í utanríkismálanefnd, komi til afgreiðslu hér áður en afstaða verður tekin á allsherjarþinginu til málsins.