20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

151. mál, afstaða Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er margt vel um þá till. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flytur hér og að ýmsu leyti svipar henni til þeirrar till. sem við þm. Framsfl. fluttum á síðasta þingi og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vitnaði réttilega til í ræðu sinni.

Það vakti mér hryggð að svo ágætur maður sem hæstv. utanrrh. er skyldi ekki fagna þeirri till. sem við þm. Framsfl. fluttum í fyrra, sérstaklega með tilliti til þess að hæstv. utanrrh. er þaulkunnugur norrænu samstarfi, hefur í tvígang verið forseti Norðurlandaráðs og formaður í norrænu ráðherranefndinni. Auðvitað eigum við að hafa samstöðu með öðrum Norðurlöndum um þessi efni. Sérstaklega þegar ályktun Alþingis frá 23. maí 1985 kveður svo á, með leyfi forseta:

„Alþingi fagnar hverju því frumkvæði sem fram kemur og stuðlað getur að því að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins. Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti, svo og stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarskyni jafnframt því að hvetja til alþjóðlegra samninga um að árlega verði reglubundið dregið úr birgðum kjarnavopna. Þessu banni og samningum um niðurskurð kjarnorkuvopna verði framfylgt á gagnkvæman hátt þannig að málsaðilar uni því og treysti, enda verði það gert í samvinnu við alþjóðlega eftirlitsstofnun. Leita verður allra leiða til þess að draga úr spennu og tortryggni á milli þjóða heims og þá einkum stórveldanna. Telur Alþingi að Íslendingar hljóti ætíð og hvarvetna að leggja slíkri viðleitni lið.“

Ég hef verið að vitna til ályktunar Alþingis frá 23. maí 1985. Ég fellst ekki á þann skilning hæstv. utanrrh. að það sé ósamræmi á milli þessarar ályktunar og tillögu Svíþjóðar og Mexíkó þannig að okkur sé ófært að styðja tillögu Svíþjóðar og Mexíkó. Mér finnst það rökrétt framhald af þeirri ályktun sem samþykkt var á Alþingi.

Mér finnst það líka óþarfa feimni hjá hæstv. utanrrh. að vilja ekki tala um frystingu, jafnvel þó að menn hafi í bjartsýni sinni talað um stærri skref en frystingu. Frysting væri mikilvægt skref í sjálfu sér. Þm. Framsfl. hafa í undirbúningi tillöguflutning um afvopnunarmál og ég vonast eftir því að innan skamms leggjum við hér fram till. um það efni.

Að endingu vil ég láta í ljós þá skoðun mína að ég tel að stjörnustríðsáætlunin sé forkastanleg og við eigum að leggjast gegn henni þar og þegar við getum.