20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Haraldur Ólafsson:

Hæstv. forseti. Í sambandi við frv. til lánsfjárlaga hefur komið fram hjá hæstv. fjmrh. að a.m.k. sé til athugunar, svo að ekki sé sterkar til orða tekið, að selja Rás 2, Ríkisútvarpið. Í því sambandi vil ég fá ákveðin svör við því hvort þetta er annað og meira en hugdetta ráðherrans í ræðustól eða hvort hér er raunverulega um ákveðna áætlun að ræða og hvort þá má vænta frv. til l. um þetta efni. Skv. útvarpslögunum, sem samþykkt voru í fyrravor, er kveðið svo á að Ríkisútvarpinu skuli skylt að hafa tvær hljóðvarpsdagskrár sem nái til landsins alls þannig að það þarf lagabreytingu til ef hér á að verða breyting á.

Þá vil ég einnig beina því til hæstv. ráðh. hvort í þessu felist að einungis stúdíóaðstaða verði seld eða hvort einnig eigi að selja dreifikerfið. Það held ég að sé meginatriði þessa máls. Dreifikerfi Ríkisútvarpsins nær nú um allt land, hinar tvær rásir. Það hefur kostað mikið. Það hefur verið mikið átak hjá Ríkisútvarpinu að koma þessu upp. Ég mundi telja mjög miður að ofan í mjög ákveðnar yfirlýsingar hæstv. fyrrv. menntmrh. á s.l. vori um að efla beri Ríkisútvarpið skuli þessi hugmynd koma upp einungis örfáum mánuðum síðar og hljóta mjög ákveðinn stuðning í stærsta stuðningsblaði hæstv. fjmrh.

Ég held að þetta mál sé þess eðlis að við hljótum að taka það mjög alvarlega. 1 því sambandi vil ég einnig óska eftir upplýsingum um hvað á að gera af hálfu ríkisins til eflingar Ríkisútvarpinu þegar felldur er niður tekjuliður þess af innflutningsgjöldum sjónvarpstækja þannig að það liggi ljóst fyrir hvaða stefnu hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn hafa í þessu máli.

Ef ekki fást ákveðin svör við þessu hlýt ég að taka til athugunar hvort mér er fært að samþykkja þá grein í lánsfjárlögum sem kveður á um niðurfellingu þessa fjárlagaliðar til Ríkisútvarpsins.