20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

156. mál, gjaldskrár þjónustustofnana

Flm. (Jón Magnússon):

Virðulegi forseti. Við Friðrik Sophusson höfum leyft okkur að flytja svohljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá um að þjónustustofnunum ríkis og sveitarfélaga verði skylt að senda allar tillögur um efnislegar breytingar á gjaldskrám til umsagnar Neytendasamtakanna og Verslunarráðs Íslands.“

Ég vil taka það fram að þegar talað er um efnislegar breytingar á gjaldskrám er ekki átt við þær breytingar sem verða vegna almennra verðhækkana. Þær breytingar, sem hér um ræðir, eru breytingar á reglugerðum og gjaldskrám sem varða einstaka kostnaðarliði þannig að hlutfallsbreytingar eigi sér stað innbyrðis í gjaldskránni eða nýir þættir eru teknir inn. Efnislegar breytingar á gjaldskrám taka því samkvæmt framansögðu til allra meiri háttar breytinga, svo og formbreytinga á gjaldskrám opinberra þjónustustofnana.

Að öðru leyti, þar sem þingsalir eru nú orðnir mjög svo þunnskipaðir og þar sem þáltill. sama efnis hefur verið flutt af sömu flm. fjórum sinnum áður, leyfi ég mér að vísa til umræðna sem urðu um þáltill. síðast þegar hún var flutt og birtust í 23. hefti Alþingistíðinda, dálki 4593 og 4594. Ég vísa til þeirra umræðna ásamt ágætri grg. sem fylgir þáltill. þessari.

Svo fer ég fram á að till. verði vísað til allshn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.