20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

155. mál, almannatryggingar

Flm. (Þórdís Bergsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér hér með að flytja till. til þál. um endurskoðun laga um almannatryggingar á þskj. 165. Till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbr.- og trmrh. að skipa nú þegar nefnd sérfræðinga og fulltrúa þingflokkanna til þess að endurskoða lög um almannatryggingar nr. 67/1971, með síðari breytingum, þar sem höfð yrði hliðsjón af breyttum viðhorfum, t.d. fyrirbyggjandi heilsuvernd og því að samræma og einfalda löggjöfina. Skal nefndin skila tillögum til ráðherra fyrir árslok 1987.“

Tilgangurinn með flutningi þessarar till. er eins og kemur fram í grg.:

1. Með því að einfalda lögin og samræma verða þau auðveldari bæði fyrir þá sem eiga að vinna eftir þeim og þá sem eiga að njóta þeirra.

2. Að kanna hvort ekki megi draga úr kostnaði ríkisins með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Við framsóknarkonur höfum fjallað um þessi mál, m.a. á ráðstefnu sem Landssamband framsóknarkvenna gekkst fyrir í september s.l. sem nefndist Nýr lífsstíll - betra þjóðfélag. Í umræðuhópi um heilbrigðismál, þar sem m.a. var fjallað um endurskoðun þessara laga, komumst við að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að bæta verðskyn bæði þeirra sem vinna við heilbrigðisþjónustu og þeirra sem njóta hennar og mikilvægt sé að fólk geri sér grein fyrir því hvað tæki, þjónusta, lyf, umbúðir o.s.frv. raunverulega kosta.

Það eru ótal mörg dæmi um að fólk nýtur ekki þeirra réttinda sem því ber samkvæmt lögunum eða hreinlega gefst upp við að leita réttar síns vegna þess hve lögin eru flókin. Þetta skal rökstutt, með leyfi hæstv. forseta. Ég hafði nokkuð ítarlega grg. með þessu vegna þess að ég á ekki von á því að geta fylgt þessu eftir til síðari umr. Með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa grg.:

„Frá því að fyrsti vísir að almannatryggingalögunum var settur með lögum um alþýðutryggingar 1936 hefur aldrei liðið eins langur tími og nú milli heildarendurskoðunar laganna. Fyrstu heildarlög um almannatryggingar voru sett 1946 og endurskoðuð 1956, 1963 og 1971. Á undanförnum árum hafa verið skipaðar nefndir til að endurskoða lögin, nú síðast 1984, en lítið hefur komið út úr vinnu þeirra ef frá eru taldar tillögur nefndar frá 1978 um nokkra þætti almannatrygginga sem lögfestir voru það sama ár.

Liðinn er hálfur annar áratugur frá síðustu heildarendurskoðun. Á þessum tíma hafa milli 40 og 50 breytingar verið gerðar á lögunum, enda hafa viðhorf breyst verulega á þessum tíma og má þar sem dæmi nefna ákvæði um fæðingarorlof og heimilisuppbót. Gefur auga leið að lög, sem svo oft þurfa breytinga við, úreldast og verða almenningi lítt eða ekki skiljanleg. Er nú svo komið að aðeins örfáir sérfróðir menn í ríkiskerfinu þekkja lögin til hlítar. Lög sem almenningur ekki skilur eru ólög. Fyrir því er mjög brýnt að lögin verði felld saman í eina samstæða heild og einfölduð eins og mögulegt er.

Frá því að almannatryggingalög voru endurskoðuð síðast 1971 hafa orðið miklar breytingar í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Sést þetta best á lögum um heilbrigðisþjónustu sem upphaflega voru sett 1973 með gildistöku 1. jan. 1974, nú lög nr. 59 1983. Þar er m.a. kveðið á um starfsemi heilsugæslustöðva og rekstur heilsuverndargreina. Er þar lögð áhersla á fyrirbyggjandi heilsuvernd. Í lögum um almannatryggingar er hins vegar ekki gert ráð fyrir þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við slíka heilbrigðisþjónustu heldur eingöngu þegar skaðinn er skeður, þ.e. þegar sjúkdómurinn þarfnast lækningar. Má segja að almannatryggingalög vinni óbeint gegn því að landsmenn sinni fyrirbyggjandi heilsuvernd, sem þegar öllu er á botninn hvolft gæti í mörgum tilfellum leitt til sparnaðar, þar sem sjúkdómur næði ekki fótfestu með tilheyrandi kostnaði fyrir sjúkratryggingakerfið. Er mjög brýnt að mörkuð verði stefna í þessu máli þannig að hið opinbera greiði ekki síður fyrir fyrirbyggjandi heilsuvernd en fyrir sjúkraþjónustu á sjúkrahúsum sem er mönnum að kostnaðarlausu.

Til þess að vinna þetta verk er nauðsynlegt að skipa nefnd sérfróðra manna a vegum heilbr.- og trmrn., Tryggingastofnunar ríkisins, Sambands ísl. sveitarfélaga og þingflokkanna og þarf að hraða verkinu svo að frv. til nýrra almannatryggingalaga verði lagt fyrir næsta Alþingi.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að till. verði vísað til félmn. og síðari umr. að þessari umræðu lokinni.