20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

160. mál, fræðsla um kynferðismál

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. á þskj. 170 um fræðslu meðal almennings um kynferðismál. Meðflm. mínir eru hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrrh. að efla verulega fræðslu um kynferðismál meðal almennings með það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir og hindra útbreiðslu sjúkdóma. Sérstök áhersla skal lögð á að upplýsa fólk á aldrinum 15-19 ára um kynlíf og getnaðarvarnir. Fræðslan verði á vegum landlæknisembættisins í samráði við menntmrn. og stofnanir þess, svo sem skólaþróunardeild, Námsgagnastofnun, Æskulýðsráð ríkisins og Ríkisútvarpið. Gerð skal áætlun um kostnað og miðað við að hefja fræðsluna af fullum krafti á næsta ári.“

Herra forseti. Hér er um mál að ræða sem við Kvennalistakonur höfum oftar en einu sinni reynt að ýta við hér á Alþingi og með tilliti til þess að hér er orðið áliðið og fáir viðstaddir er kannske ekki ástæða til að hafa um þetta langt mál.

Við höfum tvívegis reynt að ýta við yfirvöldum menntamála og heilbrigðismála með fsp. hér í þinginu, í nóvember 1983 og í nóvember 1985. Þá var á síðasta þingi lögð fram till. til þál. sams konar og sú sem hér er nú borin fram, en hún hlaut ekki afgreiðslu. Að þessu sinni er reyndar um svolitlar áherslubreytingar að ræða, eins og hv. þm. sjá ef þeir bera tillögurnar saman.

Í fyrsta lagi, að megintilgangur kynfræðslu sé ekki aðeins að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir heldur einnig og ekki síður til að hindra útbreiðslu sjúkdóma. Sá þáttur hefur vitanlega alltaf verið fyrir hendi, en hefur nú fengið aukið vægi þar eð sjúkdómurinn eyðni hefur nú haldið innreið sína í landið og helsta vörnin gegn þeim banvæna vágesti er fræðsla og aftur fræðsla sem leiðir til aukinnar notkunar getnaðarvarna og gætni í kynlífi.

Í öðru lagi viljum við leggja áherslu á að ekki verði um tímabundið átak að ræða heldur viðvarandi eflingu fræðslu og ráðgjafar um kynlíf og getnaðarvarnir. Til þess að svo megi verða þarf að gera áætlun um þessa starfsemi og tryggja til hennar fjármagn.

Nú hafa þau ánægjulegu tíðindi gerst að fengist hefur aukafjárveiting til fræðsluherferðar á vegum landlæknisembættisins til að efla varnir vegna eyðni. Sú herferð er nú að fara í gang og um það er allt gott að segja. En það er ekki nóg að gera tímabundið átak. Það þarf að tryggja fjármagn á fjárlögum til áframhaldandi aðgerða og mun ég gera mitt til þess að reyna að koma því í gegn. Ég get nefnt hér sem dæmi að í tillögum sem landlæknir hefur kynnt fyrir fjvn. er gert ráð fyrir að ekki dugi minna en 4 millj. kr. til þessa starfs á næsta ári. Við vitum að öll kynningarstarfsemi og fræðsla af þessu tagi, svo sem prentun bæklinga og annað því um líkt, er geysilega kostnaðarsamt. Í ár eða hvort það var á síðasta ári, ég man það ekki alveg, það var alla vega fyrir ekki löngu, kom út bæklingur um hættu á eitrunum vegna ýmissa efna sem notuð eru í heimahúsum. Slíkur bæklingur var prentaður og honum dreift í öll hús og hefur gert ómetanlegt gagn. Þessi bæklingur mátti liggja lengi hjá embætti landlæknis þar eð ekki fékkst fjármagn til að gefa hann út en eftir bið og bæn tókst að útvega fjármagn til þess. Það kostaði meira en 2 millj. kr. að prenta þann bækling og koma honum til landsmanna svo að það er ljóst að 2,5 millj., eins og fékkst til þessarar fræðsluherferðar núna á haustdögum, duga skammt. Enn fremur er mér kunnugt um að það eru til áætlanir um fræðslu og átak í þessum efnum sem mundi kosta a.m.k. 7,5 millj. kr. Við sjáum af þessu að það er mjög brýnt að tryggja fjármagn til þessara hluta.

Það er sannfæring flm. till. sem hér er til umræðu að með stóraukinni fræðslustarfsemi og aðgerðum til aukinnar notkunar getnaðarvarna megi koma í veg fyrir fjölda ótímabærra þungana og þar með fóstureyðingar og barnsfæðingar hjá kornungum stúlkum og enn fremur að slík fræðslustarfsemi sé algerlega óhjákvæmilegur liður í baráttunni gegn eyðni.

Herra forseti. Að lokinni umræðu um þetta mál legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og til hv. félmn.