20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

169. mál, tannlæknaþjónusta í héraði

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er ástæðulaust að bæta mörgu við glögga og greinargóða framsögu hv. 4. þm. Austurl., en eins og hún tók fram er í lok grg. greint frá samþykkt þáltill. fyrir hálfu öðru ári. Þá flutti ég till. um aukna skipulega þjónustu í tannréttingum úti á landsbyggðinni. Því miður lögðust tannlæknar þeir sem við tannréttingar fást gegn till. Ég tel þá hafa gert það á ákveðnum þröngum markaðsforsendum, töldu ekki kleift að koma til móts við landsbyggðarfólk svo viðunandi væri, a.m.k. ekki fyrir þá greinilega. Mér þótti sú nefnd sem fjallaði um þetta mál taka heldur mikið tillit til þessa álits sem byggðist of mikið á sérhagsmunum þeirra að mínu viti. Engu að síður endaði það þó með því eftir mikla baráttu að tillagan var afgreidd úr nefnd.

Það var svo hins vegar verra að þegar þetta gerðist loksins skyldi koma brtt. á lokastigi um að fella orðin „á landsbyggðinni“ brott. Hvernig í ósköpunum, þó að hann sjáist ekki oft hér í þingsal, hv. 6. þm. Reykv. Ellert B. Schram gat dottið í hug að það þyrfti nauðsynlega að fella orðin „á landsbyggðinni“ brott veit ég ekki, en það gerði hann. Við vorum þá á síðustu dögum þingsins og annaðhvort var að láta till. svo breytta ná fram að ganga eins og hún er prentuð á þskj. eða hreinlega fá ekkert afgreitt. Ég valdi þennan skárri kost að fá till. afgreidda með þessu orðalagi.

Nú hefðum við flm. við þessa umræðu þurft að fá upplýst hversu eða hvort unnið hefði verið í anda þessarar umræddu þál. En auðvitað er ekki hæstv. ráðh. hér til staðar svo síðla dags til að svara því. Ég veit nefnilega ekki til þess að neitt sérstakt hafi verið aðhafst í þessum efnum. Ég viðurkenni að þetta er ekkert auðvelt verk, sérstaklega ef andstaða er við það hjá þeim sem málið snertir sérstaklega. En þá þarf þeim mun betur að huga að öllum tiltækum lausnum til að koma til móts við fólk á landsbyggðinni sem hefur af þessu þann gífurlega kostnað sem hv. 4. þm. Austurl. rakti áðan.

Ég get ekki stillt mig um að rifja upp úr framsögu minni fyrir þessari till. staðreyndir sem fengnar voru beint frá deildarstjóra tannlækninga í heilbrrn., sem sjálfur er fyrrum formaður Tannlæknafélagsins, um hversu miklu meira er um aðgerðir vegna tannréttinga hér á landi en í nágrannalöndum okkar svo að munar verulega miklu, mörgum tugum prósenta. Sú spurning vaknar óneitanlega hvort menn hafi farið hér offari, hvort hérna sé um tískufyrirbæri að ræða og hvort raunveruleg þörf sé á öllum þessum tannréttingum í öllum tilfellum. Ég held að í tengslum við þetta þyrfti vissulega að athuga þetta vel einnig. Þessi ágæti fyrrv. formaður Tannlæknafélagsins dregur ekkert úr því að menn hafi gengið allt of langt í þessum efnum þó að ég sé ekki að mæla því mót að okkar ágætu þjóð veitir auðvitað ekki af því að fríkka til munnsins enn frekar en hún hefur gert því að allt er þetta víst gert í þeim tilgangi fyrir utan hinar heilsufarslegu ástæður sem eru jafnsjálfsagðar.

En án þess að lengja þetta mál meira vil ég ítreka það, sem kom fram í máli hv. fyrri flm., að hér er um svimháar upphæðir að ræða sem tryggingarnar greiða fyrir tannréttingar. Það er um miklar upphæðir að ræða fyrir einstaklinga og aðstandendur, yfirleitt börn og unglinga sem hér eiga hlut að máli. Hér er um að ræða erfið ferðalög eins og hv. 1. flm. gat um. Þarna hlýst af tap skóla- og vinnudaga, þrír dagar, fjórir dagar geta þeir orðið á vetri með nokkuð reglubundnu millibili. Hér er svo auðvitað, og það er kannske meginmálið, um dæmigert mismununarmál milli landsbyggðar að ræða og suðvesturhornsins, og Akureyrarsvæðisins reyndar, því þar mun vera tannréttingalæknir einnig, mismununarmál sem brýn þörf og knýjandi er að leiðrétta.

En um leið held ég að þurfi heildarathugun allra þessara mála. Við komum enn og aftur líklega að því sama sem við höfum verið að tala um í síðustu tillögum öllum og var orðað hér einu sinni á þann snjalla hátt í ræðustól að betra væri að byrgja brunninn áður en barnið væri dottið ofan í og er í tengslum við þá löggjöf sem ég ræddi hér áðan, það forvarnarstarf sem við þurfum að beina öllu okkar atfylgi að í sambandi við tannvernd og tannheilsu.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.