24.11.1986
Neðri deild: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. ræddi nokkuð um fortíðina hér í máli sínu áðan, m.a. um þá hagstæðu uppákomu fyrir ríkissjóð að fá litlar 600 millj. kr. á þessu ári umfram það sem reiknað hafði verið með, en sá happdrættisvinningur fékkst náttúrlega út á aukna vinnu skattgreiðenda og miklu meira launaskrið en reiknað hafði verið með.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma. Það hafa aðrir gert á undan mér og eiga eflaust eftir að gera. En þar eð hann minntist á tilfærsluna milli hjóna, sem meiri hluti Alþingis er svo hrifinn af, sé ég mig knúna til að minna á ákveðin atriði í því sambandi. Það munu líklega ekki aðrir gera.

Við skulum fyrst minnast þess að hér er aðeins verið að tala um tilfærslu milli hjóna. Það er ekki tekið tillit til annarra sambúðarforma sem geta vitanlega verið með ýmsu móti.

Þá skulum við athuga hvað liggur að baki því að tekjur hjóna eru svo misháar. Í fyrsta lagi er um að ræða kynbundið misrétti í launamálum sem er mikið og raunar hrikalegt eins og allir þekkja. Slíkt misrétti er að sjálfsögðu óþolandi en það á og verður að lagfæra í samningum aðila vinnumarkaðarins, ekki í skattalögum.

Í öðru lagi geta tekjur verið misháar vegna þess að annað foreldrið, konan í 99,9% tilfella, verður að vera heima vegna barna og til þess að tekjurnar dugi til framfærslu fjölskyldunnar eykur hitt foreldrið vinnuna og tekjurnar og fer við það hugsanlega upp í efsta skattþrep. Að mati Kvennalistans á að létta undir með barnafjölskyldum með myndarlegum barnabótum eins og ég mun koma betur að síðar en ekki með tilfærslu persónuafsláttar.

Auk þess er rétt að minna á að tekjuauki fjölskyldunnar, sem fæst með því að tveir afla teknanna, er síður en svo hreinn tekjuauki. Kostnaður vegna heimilishaldsins er umtalsvert þyngri við þær aðstæður og sparnaður að sama skapi töluverður þegar annað hjónanna er heimavinnandi. Ef við tökum ekki tillit til þessa þá erum við að gera lítið úr störfum heimavinnandi húsmæðra hvort sem þar er um karla eða konur að ræða. Ég hlýt að leggja áherslu á þetta atriði.

Í þriðja lagi kann ástæðan fyrir tekjuleysi annars hjónanna að stafa af því að annað þeirra er svo tekjuhátt að hitt þarf ekki að vinna fyrir tekjum eða þá að vilji þeirra annars hvors eða beggja er einfaldlega sá að hafa þetta svo, þótt þau þyrftu þess ekki aðstæðnanna vegna. Það er þá þeirra mál. Skattakerfið þarf að vera eins hlutlaust og frekast er unnt að þessu leyti sem öðru.

Ég veit ekki hvort ástæða er eða grundvöllur til að taka þetta frekar upp í tengslum við þetta frv. sem er til umræðu en læt við svo búið sitja að sinni. Ég vildi aðeins að gefnu tilefni minna á þessi atriði.

Við yfirlestur þessa frv. sem er vitanlega mikið mál, þ.e. bæði stórt og þýðingarmikið fyrir einstaklinga og fyrir ríkissjóð, vakna mjög margar spurningar, sem svör verða að fást við í nefndarstörfum, svo sem um peningalegt vægi einstakra liða. Við fljótlega yfirsýn gæti svo virst sem hér væri nánast um rútínufrumvarp að ræða, þ.e. lagfæringu liða í samræmi við tekjubreytingar fyrir utan náttúrlega hækkun skattþrepa umfram það. Við nánari athugun er þó ljóst að hér er um nokkra stefnubreytingu að ræða. Í stórum dráttum má segja að verið sé að færast í þá átt að fletja skattstigann að bandarískri fyrirmynd, en hins vegar er því sleppt sem þar er forsendan fyrir jöfnun skattprósentunnar, að undanþágum sé fækkað. Mér sýnist í sem allra stystu máli sem hér sé nokkuð myndarlega gert við þá sem eru yfir meðallagi í tekjum en fyrir láglaunafólk hafi þessar breytingar lítið sem ekkert gildi. Við erum hér með það í höndunum hvernig 300 millj. kr. tekjuminnkun ríkissjóðs skuli nýtast skattgreiðendum, hverjum hún skuli nýtast og hvernig.

Ég held að ljóst sé að við Kvennalistakonur hefðum dreift þessu á allt annan hátt og við munum að sjálfsögðu reyna af fremsta megni að fá fram breytingar á þessu frv. í samræmi við stefnu okkar. Ég mun skýra það aðeins síðar. Við þurfum ekki að fara í grafgötur með það hverjir eru verst staddir í þessu landi og það er reyndar að örlitlum hluta viðurkennt í þessu frv. En hér er ekki nándar nærri að gert.

Láglaunastefna þessarar ríkisstjórnar hefur leikið almennt launafólk grátt og grafið undan afkomuöryggi heimilanna og hrakið töluverðan fjölda fólks út í sífellt lengri vinnudag og sífellt meiri þrældóm. Nokkrar krónur sem snuð handa þessu fólki sem svo illa er statt, er til vansæmdar.

Ég held menn þurfi að fara að átta sig á því hvert stefnir í þjóðfélaginu ef ekki verður snúið af þessari braut. Menn skilja það yfirleitt ákaflega vel að burðarþol húsa verður að vera í lagi en það gildir hið sama um grunneiningu þjóðfélagsins, heimilið og fjölskylduna, og við erum virkilega illa á vegi stödd í þeim efnum. Börnin okkar eiga annað og betra skilið.

Þeim sem starfa við að sinna bágstöddum einstaklingum og fjölskyldum berast sífellt fleiri og alvarlegri skilaboð um þau vandræði sem að steðja. Félagsmálastofnanir og aðrar hjálparstofnanir þurfa í æ fleiri horn að líta og sjá ekki fram úr því sem að þeim berst. Aldrað fólk og sjúklingar eiga í miklum erfiðleikum en langsamlega verst stödd eru einstæð foreldri. Þeim tilheyra um 20% allra barnafjölskyldna í landinu og eru einstæðar mæður þar í miklum meiri hluta. Flest heimili þurfa tvær fyrirvinnur til framfærslu og lengri vinnutími og mikið vinnuálag leiða til fjarvista foreldra frá heimili og til aukinnar streitu þeirra. Hvort tveggja gerir þeim erfiðara að gegna foreldrahlutverkinu sem skyldi og þau vildu og allir í fjölskyldunni líða fyrir þetta, börnin mest. Einstæð foreldri bera svo tvöfalda foreldraábyrgð að auki. Við eigum ekki að líða þetta ástand, við verðum að breyta því.

Það væri alveg ástæða til að halda langa ræðu um þessi efni því að þetta er stóra málið og við getum tekið á þessu með myndarlegri hætti en gert er í þessu frv. Við getum dreift þessu fé á annan hátt og þá fyrst og fremst með aukningu barnabóta. Barnabætur eru skv. frv. hækkaðar meira en sem svarar tekjubreytingum milli ára. En ef menn líta á þá krónutölu sem felst í þessari prósentuhækkun barnabóta veit ég ekki hvort hæstv. ríkisstjórn hefur ástæðu til að berja sér á brjóst. Ef barnabætur með einu barni, þ.e. með fyrsta barni, hefðu hækkað hlutfallslega í hátt við tekjubreytingar eins og annað, hefðu þær átt að verða 11 730 kr., en verða skv. frv. 12 250 kr. Þarna munar rúmlega 500 kr. á ári og um það bil 800 kr. með hverju barni umfram eitt.

Það er stefna og markmið Kvennalistans að hækka barnabætur svo myndarlega að foreldra muni um þær. Þær eiga að vera svo háar að foreldrar geti í raun og veru valið um það hvort þeir annast börn sín sjálfir eða fela þau öðrum. Örlítið skref í þá átt væri hægt að stíga nú.

Ég hafði vonast til þess að geta lagt fram brtt. fyrir þessa umræðu svo að hv. þm. hefðu þær fyrir framan sig um leið og ég skýrði þær. Af því gat ekki orðið en þær munu birtast hér á borðum okkar fljótlega. Ég get þó lýst því í stórum dráttum í hverju þær verða fólgnar.

Við munum leggja það til að skattprósentan í efsta þrepi verði óbreytt en barnabætur hækkaðar sem því nemur. Skv. lauslegum útreikningum gætu þær við það hækkað um 11-12% umfram það sem gert er ráð fyrir í frv. Hins vegar er hægt að hækka þær enn meira ef við lækkum efsta skattþrepið eða öllu heldur hækkum það aðeins um 31% í samræmi við meðaltekjubreytingu milli ára, og ef við gerum þetta tvennt, þ.e. látum efsta skattþrepið halda sér óbreytt og prósentuna líka fengjust við það um 130 millj. kr. og þá gætum við hækkað barnabæturnar sæmilega eða um 40-45%. Þá gætum við væntanlega hækkað töluna í 5. gr. frv., þ.e. barnabætur með einu barni, í 15 þús. kr. og með hverju barni umfram eitt í 22 þús. Barnabætur með börnum einstæðra foreldra færu þá upp í um 30 þús. kr. á ári og barnabótaaukinn yrði um 30 þús.

Ég nefni þessar tölur þótt ég geti ekki tekið ábyrgð á þeim vegna þess að það er enn verið að reikna þetta út og reyna að fá þetta sem nákvæmast. Þetta gefur þó fyllilega hugmynd um okkar vilja og ég bið hv. þm. að íhuga þetta gaumgæfilega og skoða tillögur okkar vel þegar þær birtast hér á borðum. Ég á afar erfitt með að skilja það og trúa því að menn vilji ekki heldur láta þessar skattalagabreytingar nýtast fyrst og fremst þeim sem svo sárlega þurfa þess með. Og mér þykir miður að hér eru fáir inni af þeim sem sæti eiga í hv. fjh.- og viðskn. en Kvennalistinn hefur haft áheyrnaraðild að nefndinni og mun fylgja þessu eftir þar því að það er vitanlega fyrst og fremst þar sem þessi mál þarf að ræða og skoða.

Við gætum vitanlega gert svo miklu, miklu meira til að skipta kökunni réttlátlegar eins og nefnt hefur verið af þeim sem hér hafa talað á undan mér.

Hér var áðan minnst á ferðamannagjaldeyrinn og þá ráðstöfun að fella niður skatt af honum en sá skattur hefði líklega numið a.m.k. 200 millj. kr. á næsta ári. Einnig má benda á lið 2 og 3 í 1. gr. frv. þar sem menn fá ívilnanir vegna hlutabréfaeignar og vegna fjárfestingar í atvinnurekstri en allt þetta þrennt kemur auðvitað tekjuháu fólki fyrst og fremst til góða. Þær eru reyndar ýmsar, holurnar. Ég vil taka undir það sem hefur komið fram að við verðum að fara að taka þetta kerfi allt saman til gagngerðrar endurskoðunar.

En ég læt hér staðar numið. Ég vil aðeins að lokum spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað líður undirbúningi þess að tekin verði upp staðgreiðsla opinberra gjalda?