25.11.1986
Sameinað þing: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

130. mál, íþróttaaðstaða í Menntaskólanum við Hamrahlíð

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Í 10. gr. reglugerðar um menntaskóla nr. 270 frá 1974, en þar er m.a. fjallað um kjarnanám, þ.e. hverjar námsgreinar skuli vera sameiginlegar í menntaskólum landsins, segir svo með leyfi forseta:

„Auk þess skal nemendum séð fyrir líkamsæfingum og íþróttaiðkun við hæfi og skal ætla til þess allt að 12 einingum.“

Allt frá því að Menntaskólinn við Hamrahlíð tók til starfa hefur verið örðugt að fullnægja þessu ákvæði einfaldlega vegna þess að íþróttahús hefur aldrei verið byggt við skólann. Fyrsta áfanga skólabyggingarinnar var lokið árið 1966 og árið 1973 var byggingu hans lokið að öðru leyti en því að ekkert húsrými er fyrir íþróttaiðkanir við skólann. Er ekki annað sýnt en að yfirvöld menntamála hafi ákveðið að gleyma fyrirhugaðri byggingu íþróttahúss því að engar fjárveitingar hefur verið að finna til þess verkefnis á fjárlögum.

Hér er raunar ekki tími til þess að rekja þá sögu alla en allan þann tíma sem skólinn hefur starfað hafa nemendur orðið að búa við flæking um bæinn til að stunda íþróttir og nú er Valsheimilið griðastaður nemenda til líkamsræktar en það hús telst vart sæmandi lengur. Nemendur hafa þrásinnis reynt að vekja athygli á þessu ástandi og efndu m.a. eitt sinn til samkeppni meðal nemenda um teikningu að íþróttahúsi við skólann. Ótal ályktanir hafa verið samþykktar en allt kemur fyrir ekki.

Hinn 24. okt. 1986 eða nú í haust var haldinn skólafundur Nemendafélags Menntaskólans við Hamrahlíð þar sem nemendur mótmæltu harðlega því ófremdarástandi sem ríkir í íþróttakennslu við skólann. Í ályktun fundarins segir m.a., með leyfi forseta:

„Það er algjör óhæfa og virðingarleysi við nemendur að kennsla í íþróttum skuli fara fram í hripleku og hálfónýtu íþróttahúsi Vals vestur í Hlíðarenda. Fundurinn skorar á skólayfirvöld og forsvarsmenn menntamála í landinu að hefja nú þegar byggingu íþróttahúss sem verði einangrað og vatnsvarið í nágrenni skólans.“

Þann sama dag samþykktu nemendur einnig að hætta þá þegar að mæta í kennslustundir í líkamsrækt og hótuðu að hefja nám ekki aftur fyrr en íþróttahús væri risið sem eins og þar segir „stenst kröfur byggingarreglugerðar og Heilbrigðiseftirlits ríkisins“.

Síðan þinguðu nemendur enn 30. okt. s.l. þar sem þeir samþykktu m.a., með leyfi forseta, eins og í ályktun þeirra segir:

„Nemendur skipa sér nefnd sem vinna skal að lausn þessa máls hjá yfirvöldum og skal sú nefnd vinna að því að þrýsta á menntmrh. með tilhlýðilegum aðgerðum, svo sem mótmælagöngu niður í menntmrn., undirskriftasöfnunum og heimsóknum í viðtalstíma menntmrh. á einhverjum ákveðnum fresti. Þangað til boðið verður upp á líkamsrækt í vali munu nemendur ekki velja líkamsrækt úr kjarna á valdegi.“ Svo að hæstv. menntmrh. má greinilega búast við auknum þrýstingi.

Ég hef þess vegna, herra forseti, leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 136 sem er 130. mál þingsins og hljóðar svo:

„1. Hvaða fyrirætlanir hefur hæstv. menntmrh. til að leysa óviðunandi ástand íþróttakennslu í Menntaskólanum við Hamrahlíð?

2. Hefur einhver undirbúningur farið fram að byggingu íþróttahúss við skólann?"