25.11.1986
Sameinað þing: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

130. mál, íþróttaaðstaða í Menntaskólanum við Hamrahlíð

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sem svar, þótt magurt sé, við fsp. hv. 10. landsk. þm. á þskj. 136 vil ég taka þetta fram:

Undanfarin þrjú ár hefur Menntaskólinn við Hamrahlíð haft á leigu íþróttahús Vals og þar hefur íþróttakennsla farið fram. Áður en sú leiga tókst má segja að ástandið hafi með öllu verið óviðunandi í íþróttakennslu í Menntaskólanum við Hamrahlíð en þá hafði skólinn átt stopul innhlaup í íþróttahúsum hingað og þangað um bæinn og hafði engin tök á að halda uppi reglulegri fræðslu í líkamsrækt.

Íþróttahús Vals er komið nokkuð til ára sinna og aðstaða þar ekki eins og best verður á kosið en íþróttafélagið er nú langt komið með byggingu nýs og glæsilegs íþróttahúss. Gert er ráð fyrir að Menntaskólinn við Hamrahlíð fái þar inni með íþróttakennslu sína þar til fé fæst á fjárlögum til þess að byggja íþróttahús við skólann.

Það hefur svo sem verið gerð alvarleg tilraun til þess að hrinda af stað byggingu íþróttahúss við Menntaskólann við Hamrahlíð. Minni ég á þál. frá því á árinu 1972 sem hæstv. núv. heilbrrh. og hv. þm. Ellert B. Schram fluttu og samþykkt var þar sem Alþingi ályktaði að leitað yrði samstarfs við Reykjavíkurborg um að reisa sameiginlegt íþróttahús fyrir Hlíðaskóla og Menntaskólann við Hamrahlíð. Það munu hafa farið fram umræður í kjölfar þessarar samþykktar á sínum tíma en ekki náðst samkomulag um þessa hugmynd þar sem aðrar þarfir hlytu að vera til viðmiðunar fyrir grunnskólanemendur en fyrir framhaldsskólanemendur.

Ég tek því auðvitað vel að nemendur leiti sem ákafast eftir úrlausn á þessu brýna hagsmunamáli þeirra en ég minni um leið á þá augljósu staðreynd að ég framleiði ekki fjármuni og peninga sem til þess þarf. Þetta mál er ekki nýtt af nálinni en það verður að játast eins og það er að þarna er ófremdarástand ríkjandi sem ég vænti að menn taki höndum saman um hið fyrsta að bæta úr. Þetta hefur verið langæ óáran og þótt segja megi að standi aðeins betur á fyrir líkamsræktinni í skólanum eftir að tókst að fá inni í Valshúsinu, og kannske batnar það ef samkomulag næst um leigu á hinu nýja húsi, verða það ekki frambúðarlausnir sem í því felast heldur auðvitað að byggt verði íþróttahús við skólann sjálfan.