25.11.1986
Sameinað þing: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

130. mál, íþróttaaðstaða í Menntaskólanum við Hamrahlíð

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svar hans og gleður það mig að hann lýsir sig hlynntan því að nemendur fái íþróttahús. Það er auðvitað töluvert í það að nemendur fái aðstöðu í hinu nýja Valsheimili svo að ljóst er að um árabil verður þetta mesta vandræðaástand. Það er sorglegt að þingsályktanir sem samþykktar eru hér á hinu háa Alþingi skuli ekki vera virkara afl en svo að þær séu hafðar að engu og við sama sitji og áður en þær voru fluttar.

Hér í síðasta spurningatíma varð mönnum tíðrætt um forvarnarstarfsemi og heilsurækt sem annan kost en óhóflegt lyfjaát Íslendinga en þó er ekki séð fyrir eðlilegri líkamsrækt og þjálfun ungs fólks í menntaskóla hér í Reykjavík og er víða pottur brotinn í því efni.

Menntaskólinn við Sund er sæmilega settur hvað varðar aðstöðu til líkamsræktar og jafnvel gamli Menntaskólinn í Reykjavík leysir þau mál á sómasamlegan hátt. Það verður því að undrast að nýr skóli skuli vera byggður án þess að fyrir þessari aðstöðu sé séð. En við núv. hæstv. menntmrh. er varla að sakast um þetta efni, miklu frekar okkur öll hér á hinu háa Alþingi að hafa ekki sinnt þessu máli sem skyldi.

En almennt vil ég benda á, og ekki síst nú þegar verið er að vinna að fjárlögum, að menn taki upp nýja siði við fjárfestingu í landinu almennt, að menn ljúki við þær byggingar sem byrjað er á áður en byrjað er á ótal öðrum. Það minnir mig á, ef leyfilegt er að segja eina litla sögu, að lítil nágrannakona mín var ævinlega, frá því hún var tveggja ára og þangað til hún var fimm ára, um allar helgar með foreldrum sínum uppi í grunni að húsi, þau voru að byggja. Svo kom loks að því að hún sagði mér að þau væru að flytja og barnið sagði: Nú erum við að flytja upp í grunn. Þessi saga minnir mig dálítið á fjárfestingar Íslendinga. Menn eru alltaf með grunna út um allt í stað þess að ljúka einu húsi og byrja þá á öðru. Ég vil minna hv. þm. á að reyna að gæta þess að svona slys gerist ekki að uppeldisstofnanir og menntasetur séu án aðstöðu til líkamsræktar og íþróttakennslu.