25.11.1986
Sameinað þing: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

149. mál, Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Þann 23. maí 1985, eða fyrir rétt rúmu ári síðan, samþykkti Alþingi þál. þess efnis að stefna skuli að því á næstu sjö árum að framlög ríkisins til þróunarsamvinnu nái 0,7% af þjóðarframleiðslu. Skv. tillögugreininni eiga framlögin að aukast reglubundið frá ári til árs þar til 0,7% markinu væri náð árið 1992. Síðan þessi tillaga var samþykkt hafa framlög ríkisins til þróunarsamvinnu hins vegar farið hríðlækkandi. Á árinu 1985, þ.e. árið sem tillagan var samþykkt, voru þau 0,087% af þjóðarframleiðslu, lækkuðu niður í 0,063% í ár og skv. því fjárlagafrv. fyrir 1987 sem nú liggur fyrir munu þau lækka niður í 0,05% af þjóðarframleiðslu. Gengur þetta þvert á samþykkt og vilja Alþingis sem tók skýrt fram í ályktun sinni að framlögin skyldu aukast reglubundið á þeim árum sem um ræðir. Þar við bætist að hæstv. forsrh. lýsti því yfir þann 11. nóv. s.l. á fundi í félaginu Brú, sem er félag áhugafólks um þróunarsamvinnu, að aldrei hefði komið til greina af sinni hálfu að standa við þessa ályktun Alþingis.

Þessi þróun mála vekur ýmsar spurningar. Hún vekur t.d. þá spurningu hvort það geti verið að stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sem er pólitískt kjörin af Alþingi og hefur sama meiri hluta og hér er, hafi ekki sinnt því hlutverki sínu að hafa ný og vandlega undirbúin þróunarsamvinnuverkefni tilbúin til að nýta það stóraukna fjármagn sem stofnunin mátti eiga von á til starfsemi sinnar skv. ályktun Alþingis. Og þegar ég segi vandlega undirbúin verkefni á ég ekki við lauslegar athuganir á því hvað gæti eða gæti ekki komið til greina sem verkefni, heldur mótuð verkefni sem byggjast á sjálfstæðum forkönnunum á aðstæðum í viðtökulandinu og samráði við stjórnvöld þar.

Spurningin er: Er eitthvert samhengi á milli þess hvernig stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hefur haldið á málum og þeirrar þróunar sem hefur orðið á framlögum ríkisins til þróunarsamvinnu? Því spyr ég hæstv. utanrrh. á þskj. 159:

„1. Eru ný tvíhliða þróunarsamvinnuverkefni í undirbúningi hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands?

2. Ef svo er, hver eru þau og hvernig er staðið að undirbúningi þeirra?"