25.11.1986
Sameinað þing: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

149. mál, Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin. Það er aðeins eitt atriði sem ég sé ástæðu til að fagna í svari hans og það er að uppi eru einhver áform um að standa öðruvísi að undirbúningi þróunarverkefna en verið hefur á undanförnum árum. Það er af hinu góða.

Hins vegar er ljóst af svari ráðherra að engin ný þróunarsamvinnuverkefni eru tilbúin hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Samt hefur stofnunin mátt búast við því í meira en eitt og hálft ár að fá stóraukið framlag til starfsemi sinnar, framlag sem henni ber vitaskuld að nýta. Henni ber því skylda til að hafa ný, vandlega undirbúin verkefni tilbúin til að taka við þeim fjármunum sem hún ætti að fá samkvæmt ályktun Alþingis.

Af svari ráðherra má ráða að almennt undirbúningsstarf sé í gangi hjá stofnuninni. Það er „stefnt að“ ýmsum nýjum verkefnum. Ég vil taka það fram að Grænhöfðaeyjaverkefnið getur ekki á nokkurn hátt talist nýtt verkefni þótt verið sé að færa út kvíarnar þar sem er ágætt. Grænhöfðaeyjaverkefnið er eldra verkefni og það sem mun gerast á næsta ári í þeim efnum er eingöngu framhald af því sem verið hefur.

Hvað varðar Costa Rica-verkefnið sem hæstv. utanrrh. minntist á er það á athugunarstigi eins og hann sagði. Ég er hérna með skýrslu frá því í október 1984, tveggja ára gamla skýrslu sem gerð er af Rekstrarstofunni og fjallar um möguleika á þróunarsamvinnu á Costa Rica, þannig að þetta verkefni er búið að vera í athugun í a.m.k. tvö ár. Þetta kalla ég ekki vel að verki staðið.

Um þróunarverkefni sem aðrar stofnanir undirbúa spurði ég ekki. Ég spurði aðeins um þau verkefni sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur frumkvæði að og ber ábyrgð á að undirbúa og hrinda í framkvæmd. Það er enginn vafi á því að slíkt er hlutverk Þróunarsamvinnustofnunar skv. þeim lögum sem um hana gilda. Ég tel það ákaflega alvarlegt mál ef stofnunin sinnir ekki þessu hlutverki sínu, ekki síst vegna þess að hún hefur mátt eiga von á stórauknum framlögum til starfsemi sinnar. Í meira en ár hefur hún mátt eiga von á því að Alþingi veitti henni öllu meira fé en hún hefur áður haft og þess vegna er ljóst að hún hefur ekki staðið sig sem skyldi.

Ég vil varpa þeim spurningum fram til hv. þm. hvort það geti verið að einhver tengsl séu milli hinna lágu framlaga sem á fjarlögum ár hvert er veitt til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og þess hvernig Þróunarsamvinnustofnun hefur staðið sig í að undirbúa ný þróunarverkefni. Getur það hugsanlega verið að það þurfi að afsaka hin lágu framlög ríkisins til þróunarsamvinnu með því að engin verkefni séu tilbúin hjá Þróunarsamvinnustofnun? Og getur það einnig verið að verið sé að leita leiða til að gera Þróunarsamvinnustofnun óvirka og finna rök fyrir því að þróunarsamvinna sé betur komin í höndum einkaaðila heldur en í höndum ríkisins? Þetta vil ég, herra forseti, biðja hv. þm. að athuga. (Forseti: Hv. þm. er búinn að fara langt út fyrir eðlileg mörk.) Ég skal stytta mál mitt, en það sem ég nefndi síðast vil ég biðja hv. þm. um að athuga vandlega og hverjar afleiðingar þess kynnu að vera.