25.11.1986
Sameinað þing: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

149. mál, Þróunarsamvinnustofnun Íslands

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Hv. þm., fyrirspyrjandinn, lét að því liggja að sennilega væri ástæðan fyrir því hve Alþingi hefur veitt lág framlög til þróunaraðstoðar sú að verkefni lægju ekki fyrir undirbúin af hálfu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og þar hefði verið illa að verki staðið, án þess þó að hún fullyrti það beinlínis. Ég er nokkuð kunnugur starfsemi þessarar stofnunar þar sem ég hef að undanförnu átt sæti í stjórn hennar. Þess vegna koma þessi ummæli hv. þm. mér nokkuð spánskt fyrir sjónir. Hefði verið tiltölulega auðvelt fyrir þm. að hafa samband við framkvæmdastjóra stofnunarinnar eða stjórnarmenn og kynna sér málið af eigin raun.

Því fer fjarri að unnt sé að koma ábyrgð á því að Alþingi hefur verið naumt á fjárveitingar til þessarar stofnunar undanfarin ár yfir á herðar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Ég skal aðeins nefna eitt dæmi um það. Fyrir liggja tillögur sem hafa verið unnar í undirbúningsnefnd Þróunarsamvinnustofnunarinnar með yfirvöldum á Grænhöfðaeyjum. Það er ekki hægt að líta fram hjá því landi vegna þess að þar hefur meginþungi þróunaraðstoðar okkar verið á undanförnum árum. Þar liggja fyrir allmörg verkefni sem þegar eru vel undirbúin. Þróunarsamvinnustofnunin hefur farið fram á fjármagn til að hefja framkvæmdir við þessi verkefni. Aðeins á þessum eina stað er það fjármagn sem þarf til þeirra afmörkuðu og ákveðnu verkefna þrisvar sinnum hærri upphæð en stofnuninni er veitt skv. frv. að fjárlögum að þessu sinni. Eru þá ótalin undirbúin verkefni á öðrum stöðum.

Ég tek undir það að allt of litlu fjármagni hefur verið veitt til þróunarmála. Ástæðan er ekki skortur á undirbúningi.