20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég hef áður tekið til máls í þessari umræðu og ætla ekki að lengja hana að mun. Ég tel mig knúinn til þess, af því að umræðan hefur beinst út í málefni Ríkisútvarpsins, að láta koma fram þá staðreynd að Rás 2 nær ekki til alls landsins eins og útvarpslög gera ráð fyrir. Það er brýnt að Ríkisútvarpið snúi sér að því verkefni og fái fjármagn til þess að koma dreifikerfi Rásar 2 til allra landsmanna. Mér er fullkunnugt um að það eru stór svæði, t.d. á Austurlandi, sem njóta ekki Rásar 2 og það er verkefni, sem við þurfum að snúa okkur að hið fyrsta, að ráða bót á því. Ég veit að forráðamenn Ríkisútvarpsins hafa fullan hug á að svo verði. Ég hef ekki heyrt að þetta hafi komið fram í umræð unni, þannig að ég get ekki látið hjá líða að geta um þetta.

Ég er þeirrar skoðunar að Rás 2 sé nauðsynleg fyrir Ríkisútvarpið, hún sé nauðsynleg til þess að Ríkisútvarpið geti haldið uppi fjölbreyttri dagskrá, í samræmi við nútímakröfur, fyrir alla landsmenn eins og útvarpslög gera ráð fyrir. Ríkisútvarpið hefur notað Rás 2 til þess að útvarpa þar léttri dagskrá fyrst og fremst, og einnig hefur verið mikið um að þar hafi verið útvarpað beinum lýsingum á íþróttaviðburðum og öðru sem óviðunandi er að nái ekki til allra landsmanna. Nóg er mismununin samt í þessum útvarpssendingum því einkaaðilar hafa ekki áhuga á að ná til alls landsins með sínar sendingar.

Ég vildi ekki láta hjá líða að þetta kæmi fram í umræðunni af því að hún snerist inn á þessar brautir. Ég trúi því ekki að fjmrh. hafi tillögur um að selja þessa rás. Ég tók það þannig að þetta væru hans hugleiðingar og að það væri ekki á dagskrá á næstu vikum eða mánuðum að selja Rás 2. Og ég mun a.m.k. ekki greiða þeirri ákvörðun atkvæði.