25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

132. mál, könnun á búrekstraraðstöðu

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Það er rétt að það er reynslan sem auðvitað verður dómarinn um það hvernig til tekst með framkvæmd þessara mála. Ég vil benda á það að búreikningar frá s.l. ári munu sýna að það ár hefur verið bændum hagstætt hvað launalið varðar. Ég er ekki með þær tölur hér en þær munu að sjálfsögðu birtast á prenti þegar þær verða tilbúnar. Og það sem skiptir auðvitað mestu máli er afkoma bænda. Ég held að erfitt sé að fá hæfari menn til að gera þá búrekstrarkönnun sem þessi þáltill. fjallar um en þá sem að henni hafa unnið og einstökum bændum hafa ekki verið sendir reikningar fyrir þeirri vinnu.

En vegna orða um stjórnlausa framleiðslu sumra búgreina vil ég aðeins benda á, ég býst við að okkur öllum sé það ljóst, að neyslu verður ekki stjórnað með því að láta vöru vanta á markað. Við getum ekki sagt við neytendur að þetta kjöt eða hitt eigi ekki að vera til af því að þeir eigi að borða annað frekar. Það held ég að fáum detti orðið í hug. Þar verður neytandinn að fá að velja. Hitt er annað mál að með sölumennsku og ýmsum fleiri aðferðum er að sjálfsögðu hægt að hafa áhrif á það hvað neytandinn velur. En stjórnun einnar búgreinar hefur þann tilgang fyrst og fremst að gera framleiðsluna sem hagkvæmasta, bæði fyrir neytandann og framleiðandann.

Mig furðar dálítið á hvað því er lítið haldið á lofti hversu mikils virði það er fyrir okkur að eiga svo ágætar framleiðsluvörur, matvörur sem framleiddar eru á innlendu fóðri, á sama tíma sem aðrar þjóðir eru orðnar hræddar við að neyta þeirrar fæðu sem þeir afla sjálfir, eins og kemur síðast fram núna frá Dönum. Þeir þora ekki lengur að borða fiskinn sem dreginn er úr hafinu þar í kring. Og nýlega kom það í fréttum að Brasilíumenn lokuðu fyrir innflutning á mjólkurvörum frá Evrópu, Efnahagsbandalaginu, vegna þess að þeir óttuðust að þar væri orðið um mengaða vöru að ræða, vegna þess hvernig jarðvegurinn er orðinn. Ég held að þeir sem vilja í raun styðja íslenskan landbúnað ættu að leggja áherslu á það hversu mikils virði það er fyrir neytendur að eiga kost á svona góðri vöru.

En að lokum aðeins í sambandi við birgðasöfnun: Miklu meiri birgðir af kindakjöti voru til í upphafi verðlagsárs þegar núv. ríkisstjórn tók við en var þó nú á s.l. hausti. Þó að vissulega sé við ærinn vanda að eiga hefur þó heldur þokast í rétta átt.