20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Haraldur Ólafsson:

Hæstvirtur forseti. Þessi umræða er farin að verða dálítið merkileg svo ekki sé meira sagt. Það er vissulega rétt hjá hæstv. fjmrh. að þetta er hápólitískt mál og um það hljóta að vera skiptar skoðanir. Og það er einmitt mjög gott að það skuli koma fram nú þegar hvað Sjálfstfl. raunverulega ætlar sér í þessum málum. Ég held að það hljóti öllum að vera augljóst eftir síðustu ræðu hæstv. fjmrh.

Ég fékk ekki svör við spurningu minni. Ég fékk ekki svör um það hvað ríkisstjórnin hyggst gera til þess að efla Ríkisútvarpið. Eina svarið sem ég fékk var að það ætti að spara, og það ætti að draga úr kostnaði og það væri eitthvert hófleysi í fjárveitingum. Hvað er hófleysi hjá Ríkisútvarpinu? Er hægt að nefna einhver dæmi um það að illa hafi verið farið þar með fé? Að því fé sem Ríkisútvarpið hefur haft til umráða af auglýsingum og afnotagjöldum hafi verið illa varið? Hefur því fé sem varið hefur verið til uppbyggingar útvarpsins verið illa varið? Skv. þeim upplýsingum sem ég fékk og ég taldi öruggar ætti dreifikerfi Rásar 2 að ná um allt landið en nú er upplýst að svo er ekki. Er það hófleysi, þegar skv. lögum er kveðið svo á að Ríkisútvarpið skuli senda út tvær dagskrár sem nái til alls landsins, að koma ekki þessari dagskrá til landsmanna? Mín skoðun er sú að áður en farið er að ræða um breytingar á þeim útvarpslögum sem samþykkt voru í fyrravor eigi að framfylgja þeim lögum, það eigi að ganga þannig frá að það standist sem þá var samþykkt.

Ég er alveg undrandi á þeim málflutningi sjálfstæðismanna að hér hafi verið mikil andstaða gegn útvarpslögunum. Sú andstaða var áreiðanlega ekki frá mér eða hv. 5. landsk. þm. Hann er að vísu fullfær um að bera af sér sakir, en ég held að við höfum átt ekki lítinn þátt í að þetta frv. komst fram. Ég held að ég geti fullyrt að við unnum að því að frv. næði samþykki hér á þingi. Hitt er annað mál að þar voru atriði sem við vildum hafa öðruvísi en ekki náðist samkomulag um. Það náðist ekki samkomulag um ýmis þau efni sem við töldum að væri nauðsynlegt að fjallað væri um í frv. Það var t.d. ekki nokkur lifandi leið að fá inn ákvæði um ráðningartíma útvarpsstjóra. Það var að vísu ekki gert að neinu stórmáli, en ég talaði fyrir daufum eyrum hjá sjálfstæðismönnum og þeim sem höfðu með það mál að gera á sama tíma og unnið er að því að í sem flest störf, meiri háttar störf hjá ríkinu, sé ráðið til ákveðins tíma. Ég nefni þetta bara svona sem dæmi, en það voru fjölmörg önnur sem mætti taka upp, bæði tæknilegs og menningarlegs eðlis.

Ég er líka alveg undrandi á því að fram kemur að Rás 2 skili ágóða. Hún gerir meira en að standa undir sér. Hún er ekki baggi á Ríkisútvarpinu. Hvaða ástæða var til þess að losa sig við ríkisstofnun sem ekki kostar ríkissjóð grænan eyri? Ég er furðu lostinn yfir slíkum yfirlýsingum um hófleysi í rekstri Ríkisútvarpsins.

Við þurfum bara að gera okkur ljóst að þegar útvarpslagafrumvarpið var samþykkt var um leið ákveðið að efla Ríkisútvarpið. Og ég vil hvetja til þess að það sé gert. Ég vil hvetja til þess að Ríkisútvarpið verði ekki limað í sundur í einhverjum pólitískum tilgangi. Ég er mikill stuðningsmaður þeirrar útvarpsstöðvar sem komin er upp. Um Stöð 2 get ég lítið sagt, ég hef ekki haft tækifæri til að fylgjast með henni. En ég tel það af hinu góða hvernig Bylgjan hefur farið af stað. Þar hefur virkilega kveðið við nýjan og hressan tón. En ég sé enga ástæðu til þess að gefa Bylgjunni eða öðrum slíkum stöðvum einhvern einkarétt á því að safna auglýsingum. Ég tel þvert á móti rétt að Ríkisútvarpið með dreifikerfi sitt og sína stöðu í þjóðfélaginu sitji einnig að þessu, að það verði raunveruleg samkeppni. En það skyldi þó aldrei vera það sem á bak við er að koma í veg fyrir samkeppni, að koma í veg fyrir að hinar nýju stöðvar þurfi að taka á. Er það kannske orðin hin pólitíska hugsun í Sjálfstfl. að einokun komist á í þessu efni?

Ég vil minna á hvað er að gerast í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hvernig er með útvarpsstöðvarnar þar? Vitið þið hvað það eru mörg fyrirtæki sem reka stærstu útvarpsstöðvarnar þar? Þau eru 50. Og hvaða fyrirtæki eru það? Það eru stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna. Það eru þau fyrirtæki sem framleiða stál, vopn og mat. Það eru fyrirtækin sem hafa hag af því að búa til þá heimsmynd sem Bandaríkjamenn eiga að trúa á. 87% af neysluvarningi í Bandaríkjunum eru í höndum þeirra 500 fyrirtækja sem eiga megnið af minni sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Það eru framleiðsluöflin sem ráða þar yfir sjónvarpi og útvarpi. Er það sem við viljum fá? Er það slík staða sem á að koma hér upp? Ég er andvígur því. Ég vil að þessir aðilar fái að reka útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar, en það á ekki að vera á kostnað Ríkisútvarpsins. Til þess er það allt of dýrmætt fyrir okkur Íslendinga.