25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

183. mál, aðstoð við hitaveitur

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að þetta mál fæst tekið fyrir á þessum fundi í Sþ. Hér er um að ræða till. til þál. um aðstoð við hitaveitur og tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að bæta stöðu þeirra hitaveitna sem verst eru staddar fjárhagslega.

Tillögur þar að lútandi verði lagðar fyrir Alþingi það er nú situr svo tímanlega að unnt sé að afgreiða þær fyrir þinglok.“

Flm. þessarar tillögu eru úr öllum þingflokkum og met ég það mjög mikils vegna þess að þetta er mikið réttlætismál sem þarf að fá skjóta afgreiðslu.

Meginreglan í landsstjórn hefur verið sú að reyna að búa svo um hnútana að íbúar landsins hvar sem þeir annars búa geti búið við svipuð kjör. Á þessu hefur orðið talsverður misbrestur sem óvíða sker eins í augu og í hitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis.

Okkur flm. er ljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur fullan hug á því að leysa vanda þeirra byggðarlaga sem við lökust kjör búa í þessum efnum. En eins og ég sagði áðan er hér á ferðinni eitt mesta réttlætismál sem þingið hefur tekist á við um langt skeið. Ég hirði ekki um að lesa grg. frá orði til orðs en vil geta þeirra hugmynda sem flm. koma fram með í þessari till. um það hvernig megi taka á þessu máli. Þar segir í grg.:

„Það er skoðun flm. þessarar þáltill. að ríkisvaldið verði að koma inn í þetta mál með beinum og óbeinum hætti til aðstoðar verst settu hitaveitunum, t.d. með því:

1. Að skuldbreyta lánum þeirra til að jafna greiðslum á lengri tíma og skipta strax út óhagkvæmustu lánunum. - Ég kem að því síðar hvernig t.d. lánastaða Akureyrarbæjar er vegna hitaveitunnar.

2. Að tryggja að vaxtakjör skuldbreytingarlána verði þau hagstæðustu sem völ er á á hverjum tíma.

3. Að lækka raforkuverð til þeirra í algert lágmark.

4. Að fella niður söluskatt af raforku til dælingar og endurgreiða söluskatt af fjárfestingarvörum þeirra.

5. Að nota hluta af þeim skatti sem sérstaklega var lagður á með lögum nr. 12/1980 til jöfnunar á hitakostnaði fólks (1,5% hækkun söluskatts) til aðstoðar verst settu hitaveitunum með beinum eða óbeinum hætti, t.d. með yfirtöku hluta af lánum þeirra.“ Þetta eru þær hugmyndir sem flm. hafa helstar fram að færa.

Nú er það að segja um þetta mál að mesti munur á öllum tegundum upphitunarkostnaðar af hvaða tegund sem er er nú milli dýrustu og ódýrustu hitaveitnanna. Munurinn er meiri en 3:1 og er þar um að ræða annars vegar Hitaveitu Reykjavíkur og hins vegar Hitaveitu Akureyrar. Þess ber að geta strax í upphafi að skuldir þeirra hitaveitna sem koma inn í þessa till. hjá okkur, sem eru sex, eru um það bil 4 milljarðar króna. Ég vil geta þess að íbúar á svæði Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar skulda um 210 þús. kr. hver, á Akureyrarsvæðinu 164 þús., í Vestmannaeyjum 120 þús. og Rangá 180 þús. kr. Þetta eru gífurlegar skuldir og það er alveg gjörsamlega útilokað, eins og sakir standa núna, að þessar hitaveitur geti staðið undir afborgunum og vöxtum af þeim lánum sem tekin hafa verið til hitaveituframkvæmda. Það þarf ekki að rekja þessa sögu aftur í tímann að neinu ráði vegna þess að flestir hv. þm. þekkja hana, hvernig hvatt var til þess á árum hás olíuverðs að byggðarlög færu í hitaveituframkvæmdir eftir því sem þau gætu og þeim var veitt veruleg aðstoð, m.a. með lánum sem þá þóttu hagkvæm en hafa tekið verulegum breytingum í þá átt að vera einhver óhagkvæmustu lán sem íslensk fyrirtæki skulda um þessar mundir.

Það verður að segjast alveg eins og er að áhrif hinna háu hitaveitugjalda í þeim byggðarlögum sem verst eru sett eru mjög mikil á framfærslukostnað íbúanna og valda gífurlegu misrétti á milli byggðarlaga, svo miklu að ekki verður lengur við unað. Ég vil m.a. benda á það að þar sem ég þekki gerst til, hjá Hitaveitu Akureyrar, má ætla að upp undir helmingur af ellistyrk íbúa þar fari til greiðslu á hitaveitukostnaði. Þetta kemur alveg sérlega illa við gamla fólkið í þessum byggðarlögum sem margt hvert býr í heldur lélegu húsnæði og það hikar við að hita þetta húsnæði eins og þörf krefur í raun og veru og leggur þar með undir eignir sínar. Þær liggja undir skemmdum og hættan er sú, ef framhald verður á þessari verðlagningu heita vatnsins á þessum stöðum, að þetta muni halda áfram.

Við þetta bætist svo, ekki bara hjá gamla fólkinu heldur öllum íbúum þessara svæða, að yfirleitt búa íbúar utan Reykjavíkur við nokkuð hærra verðlag en Reykvíkingar gera. Þeir hafa verulegan kostnað af ferðalögum sem Reykvíkingar þurfa ekki að leggja á sig, m.a. vegna læknisaðstoðar, og yfirleitt, skv. athugun sem kjararannsóknarnefnd hefur gert, eru laun lægri í sveitarfélögum utan Reykjavíkur en er í Reykjavík. Og þannig vill til í þessu tilviki með þær hitaveitur sem hér um ræðir að í þeim landsfjórðungum þar sem þessar hitaveitur eru eru launin með því lægsta sem gerist hér á landi þannig að, allt saman komið, getur þetta valdið umtalsverðri byggðaröskun og það eru dæmi til þess, m.a. norður á Akureyri, að fólk hafi flutt á brott vegna hins háa hitaveitukostnaðar.

Ég vil nefna nokkur dæmi, herra forseti, um hversu alvarlegt ástand þetta er og taka sérstaklega fyrir Hitaveitu Akureyrar. Ég vænti þess að meðflm. muni gera nokkra grein fyrir málum þeirra hitaveitna sem þeir gerst þekkja. 1. ágúst s.l. voru heildarskuldir Hitaveitu Akureyrar 2 milljarðar 67 millj. kr. Af þessari fjárhæð var Hitaveita Akureyrar með lán upp á 725 millj. kr. sem voru með ákaflega óhagstæðum vöxtum. Þar af voru 530 millj. í japönskum yenum með 9% föstum vöxtum. Þetta lán er bundið til margra ára og erfitt að hreyfa við því. Þess má geta að á sama tíma og Hitaveita Akureyrar greiðir 9% fasta vexti, þá eru millibankavextir erlendis núna um 4,38% miðað við þriggja mánaða lán. Ef unnt yrði að fá lán sem bæri 4,5- 4,6% vexti mundi staða hitaveitunnar breytast mjög verulega.

Þá vil ég benda á að 195 millj. af lánum Hitaveitu Akureyrar eru í vestur-þýskum mörkum og bera 9,75% vexti, en millibankavextir á vestur-þýskum mörkum um þessar mundir eru 4,75%. Það má því ætla að af þessum 725 millj., sem ég hef rætt um hér, séu ónauðsynlegir vextir 33-34 millj. kr. sem Hitaveita Akureyrar greiðir á hverju einasta ári vegna vaxta sem eru hærri en millibankavextir sem ganga og gerast á erlendum markaði. Þetta jafngildir því að Hitaveita Akureyrar og þar með Akureyringar greiði um það bil 100 þús. kr. á dag í vexti sem segja má að séu ónauðsynlegir, en það jafngildir húshitunarkostnaði 600 einbýlishúsa.

Nú er það svo að þegar þessi lán voru tekin voru þau tiltölulega hagstæð en kannske hafa samningarnir verið til fulllangs tíma þegar lánin voru tekin og menn ekki gætt að sér í þeirri lánakreppu sem var við lýði þegar lánin voru tekin.

Þegar við flm. þessarar till. leitum eftir því að hæstv. ríkisstjórn komi til aðstoðar, þá erum við ekki að biðja hæstv. ríkisstjórn að sjá til þess að lán þessara hitaveitna verði greidd upp. Við erum að óska eftir því að það verði reynt að haga því svo til að lánunum verði hagrætt og jafnvel að ríkisstjórnin tæki á sig einhvern hluta af vöxtunum. Það þarf ekki að lækka þessi lán mjög mikið til þess að ástandið verði bærilegt. Þar á móti verður auðvitað að koma að viðkomandi byggðarlög þurfa að gera ýmislegt sjálf til þess að hagræða sínum eigin málum og bæta úr.

Það væri kannske markmið í sjálfu sér í þeim breytingum sem þarna þyrftu til að koma að þeir íbúar, t.d. Akureyrar, sem nú greiða um 60 kr. fyrir tonnið af heitu vatni, þyrftu ekki að greiða nema sem næmi helmingi hærri upphæð en við þurfum að greiða hér í Reykjavík sem eru 18,60 kr. pr. tonn. Það yrði þegar jöfnuður sem verulega munaði um og gæti haft umtalsverð áhrif til þess að bæta stöðu Hitaveitu Akureyrar svo að hún gæti í fyrirsjáanlegri framtíð greitt niður skuldir sínar í einhverjum verulegum mæli. Ég vil líka geta þess að hér á landi hefur iðulega verið gripið til þess að setja á hvers konar jöfnunargjöld til þess að auðvelda íbúum ýmissa byggðarlaga að fá þá þjónustu sem ríkið veitir á hverjum tíma. Er skemmst að minnast verðjöfnunargjalds á raforku sem Íslendingar allir hafa greitt. Ég lét taka það saman fyrir mig að Akureyringar hafa greitt í þennan sameiginlega verðjöfnunarsjóð um 250 millj. kr., raunverulega til svæða sem nutu lægra orkuverðs en þeir gerðu.

Það er líka ljóst, herra forseti, að frá árinu 1980 hafa verið í gildi hér á landi lög um sérstakan skatt til jöfnunar á hitakostnaði fólks sem var 1,5% söluskatts. Ég ætla ekki að lengja þessa ræðu mína með því að rekja hvernig þessi skattur hefur verið notaður eða hve stór hluti af honum hefur farið til jöfnunar á húshitunarkostnaði, en þó þykir mér tilhlýðilegt að geta þess að árið 1983 var þessi skattur 337 millj. kr. í heild, en 67 millj. eða um 20% fóru til olíustyrkja og til niðurgreiðslu á rafhitun og í fleiri smærri liði. Ég get hlaupið yfir þessar tölur og komið til ársins 1986. Þá var þessi skattur 908 millj. kr. 270 millj. fóru í þessi fyrrnefndu verkefni eða 30%. Árið 1987 er fyrirsjáanlegt að þessi skattur nemur 975 millj. og 153 fari í niðurgreiðslur á rafhitun og fleiri smærri liði eða 15,7%.

Ég ætla ekkert að fjölyrða um til hvers ríkið hefur notað þessa skattpeninga, en það hefur nú oft farið svo hér á landi þegar settir hafa verið á afmarkaðir skattar og skattar sem hafa átt að renna til tiltekinna verkefna að þeir hafa farið í annað en þeim var ætlað. Ég vænti þess fastlega, herra forseti, að þessi þáltill. geti orðið til þess að ýta á eftir því réttlætismáli að reyna að jafna þennan húshitunarkostnað sem nú er alveg með endemum og ekki fyrirsjáanlegt að lækki hjá fólki í þessum byggðarlögum nema ríkisvaldið taki til höndunum og breyti þar um.