25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

183. mál, aðstoð við hitaveitur

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Ég get tekið undir öll efnisatriði þeirrar þáltill. sem hér er til umræðu um að ríkisstjórnin leiti allra leiða til að bæta stöðu þeirra hitaveitna sem verst eru staddar fjárhagslega og tillögur þar að lútandi verði lagðar fyrir Alþingi til afgreiðslu fyrir þinglok. Raunar sé ég í blöðunum í dag að hæstv. iðnrh. hefur þegar skipað embættismannanefnd úr forsrn., iðnrn. og fjmrn. til að fara ofan í stöðu verst settu hitaveitnanna. Þessari nefnd er gert að ljúka störfum fljótt og allt gott um það.

Í grg. með till. og ræðu málshefjanda kom glögglega fram hvað gerst hefur í málefnum þessara veitna, hvers vegna þessi vandi er uppi. Hann á sér ákveðnar skýringar sem óþarfi er að rekja nánar eða endurtaka. Afleiðingarnar eru síðan gífurlega hár og nánast óbærilegur orkukostnaður á sumum hitaveitusvæðum ásamt því að skuldir veitnanna hlaðast upp í lánastofnunum.

Ríkisvaldið hvatti til þessara framkvæmda á sínum tíma og gekkst fyrir útvegun lánsfjár. Það er því eðlilegt að það grípi inn í og aðstoði veiturnar með skuldbreytingum og ábyrgðum þegar erfiðleikar steðja að. Í fljótu bragði líst mér hins vegar ekki vel á hugmynd flm. og málshefjanda um nýjan skatt, nýtt jöfnunargjald. Ég endurtek að í fljótu bragði líst mér ekki á þessa hugmynd. (ÁG: Það er ekkert talað um það.) En mér heyrðist það koma fram í ræðu málshefjanda að hann ýjaði að því að þessi leið yrði hugsanlega farin. (Gripið fram í: Nei.) Það er þá afleitur misskilningur. En ég held að ef sú leið væri farin gæti farið eins og raunar oft áður að slík tekjuöflun mundi að síðustu enda hjá ríkissjóði.

Ég held að það sé rétt að líka komi fram í þessum umræðum að allmargar hitaveitur hafa einnig verið byggðar upp á undanförnum árum og ganga vel. Þær hafa verið byggðar upp og reknar af hagsýni sem ég tel sanngjarnt að íbúar viðkomandi svæða fái að njóta.

En hér er einnig hreyft málum með þessari till. er snerta fleiri en einungis þá er búa á orkuveitusvæðum þeirra hitaveitna er getur í grg. með till. Söluskattsgreiðslur af raforku til dælingar á heitu vatni eru einnig verulegur og óréttlátur kostnaður annarra hitaveitna þó þær standi betur fjárhagslega. Þær stæðu því enn þá betur ef þessi óréttláta skattheimta ríkisins kæmi ekki til. Raunar má segja að staða þessara verst settu hitaveitna og gjaldskrármál þeirra séu eins konar krabbamein í upphitunarkostnaðarkerfi landsins, ef svo má að orði komast, og einnig að þeir er búa við háan upphitunarkostnað með raforku séu þolendur þessa ástands og gjaldi þess í hærra raforkuverði og hærri upphitunarkostnaði. Ýmislegt bendir einmitt til þess að vegna hinna háu gjaldskráa og þunga kostnaðar við upphitun á orkuveitusvæðum umræddra hitaveitna hafi verið vikist undan því að leiðrétta og lækka upphitunarkostnað með raforku sem þó var full þörf á. Margt bendir þó til að í þessum efnum gangi hlutirnir í þveröfuga átt og með niðurfellingu verðjöfnunargjalds af raforku og taxtahækkana Rafmagnsveitna ríkisins um 27-36%, ef ég man rétt, vaxi enn það óréttlæti og sá ofurþungi upphitunarkostnaðar er raforkunotendur og húseigendur á orkuveitusvæði Rafmagnsveitnanna búa við. Það er einnig stórmál sem verður að skoða og taka á. Því hefur reyndar margoft verið lofað, en lítið orðið um efndir.

Í frétt um nefndaskipun iðnrh. vegna fjárhagsstöðu verst settu veitnanna er einungis getið um þrjár hitaveitur, Hitaveitu Akureyrar, Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Hitaveitu Vestmannaeyja sem taka á til skoðunar. Í till. sem hér hefur verið talað fyrir eru hins vegar taldar upp einar sex veitur er eigi í verulegum erfiðleikum. Til viðbótar er þar getið um Hitaveitu Rangár, Egilsstaða og Fella og Hitaveitu Eyra. Vegna tengsla minna við Lánasjóð sveitarfélaga er mér hins vegar kunnugt um fleiri veitur er nauðsynlega þyrftu að vera með í þeirri skoðun sem hér er gerð tillaga um. Ég legg þunga áherslu á að sú nefnd ráðuneytisfulltrúa, er nú hefur verið skipuð, skoði einnig mál þeirra hitaveitna og ræði við sveitarstjórnarmenn á þeim svæðum. Í því sambandi má nefna t.d. staði eins og Blönduós, Suðureyri, Siglufjörð og jafnvel Hveragerði. Þó vandi þessara veitna sé í heild sinni verulega mikið minni en hinna verst settu veitna standa þessar veitur illa og vandi þeirra er stór miðað við stærð þeirra sveitarfélaga er að þeim standa og það orkusölusvæði er þær þjóna. Í þessu sambandi vil ég minna á skýrslu er Hitaveitusamband sveitarfélaga hefur unnið að og gefið út um stöðu og fjárhagsvanda hitaveitna, en þar er til staðar ágæt samantekt um stöðu þessara mála er gæti verið góður grunnur að því starfi er hér er lagt til að unnið verði.

Þegar hitaveiturnar voru byggðar upp á sínum tíma studdi ríkisvaldið að því með margvíslegum hætti, m.a. með lánsfjárútvegun eins og hér hefur komið fram. Nokkrum hluta þess var stýrt í gegnum Lánasjóð sveitarfélaga er tók erlend lán sem honum var síðan gert að endurlána til hitaveitnanna. Vegna erfiðrar fjárhagsstöðu og vanskila margra þessara veitna hefur sjóðurinn síðan lent í verulegum erfiðleikum. Hann hefur orðið að standa í skilum við sína lánardrottna, en veiturnar hafa safnað skuldum við sjóðinn og síðan óskað eftir skuldbreytingum, bæði vegna vanskila og áhvílandi lána. Lánasjóður sveitarfélaga er tiltölulega lítill sjóður og uppákomur af þessu tagi vegna fárra en tiltölulega stórra lántakenda geta valdið því að hann reynist ekki fær um að sinna því hlutverki sínu að greiða fyrir sem flestum sveitarfélögum í landinu með lánsfjárútvegun til framkvæmda.

Hér er líka um að ræða lántakendur sem sjóðnum hefur verið gert að taka í viðskipti af ríkisvaldinu. Fjármagni og úthlutun var stýrt í gegnum sjóðinn.

Óskir veitnanna um skuldbreytingar eru hins vegar mjög eðlilegar. Miðað við tekjumöguleika þeirra og endingartíma mannvirkjanna voru lánin upphaflega til allt of skamms tíma.

Auðvitað mun stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga taka allar beiðnir um skuldbreytingu til velviljaðrar athugunar, en með tilliti til smæðar sjóðsins og hvernig lánafyrirgreiðslan er til komin á sínum tíma og stöðu margra þessara veitna er eðlilegt að sjóðurinn óski eftir ríkisábyrgð á nýjum lánum er veitt yrðu með skuldbreytingum. Því vildi ég endilega koma að við þessa umræðu. Fyrir slíkri heimild til ríkisábyrgðar þarf að greiða.

Að lokum ítreka ég að ekki verði lokað á viðræður um vanda annarra veitna og sveitarfélaga en þeirra sem talin eru upp í grg. með þessari annars ágætu till.