25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

183. mál, aðstoð við hitaveitur

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér hefur verið tekið upp með þinglegum hætti mál sem oftlega hefur borið á góma í þingsölum á þessu hausti og þessum vetri af ýmsum tilefnum svo sem við umræður um lánsfjárlög og fleira. Þetta mál hefur raunar borið á góma á þinginu undanfarin ár að ég má segja árlega, en því ber að fagna að það skuli nú hafa verið flutt með formlegum hætti þar sem um er að ræða þá till. sem hér er nú til umræðu.

Þeir hv. þm. sem þegar hafa kvatt sér hljóðs í þessu máli hafa rakið sögu þessa máls og aðdraganda. Þeir hafa getið þess réttilega að ríkisvaldið hvatti mjög til þess að ráðist yrði í þessa framkvæmd á sínum tíma. Það var fyrir áeggjan ríkisvaldsins ekki síst að ráðist var í þessar framkvæmdir og það var að ég hygg fyrir leiðbeiningu og leiðsögn ríkisvaldsins, eða opinberra stofnana a.m.k., að þau lán voru tekin sem á þessu hvíla nú og ég hygg að það hafi verið m.a. fyrir leiðsögn opinberra aðila að þær leiðir til erlendrar lántöku voru valdar sem reynst hafa svo illa sem raun ber vitni. Það er hins vegar slæmt að mál þessara hitaveitna, sem hér er um að ræða, rekstrarvandi þeirra, skuli hafa verið látin danka svo lengi uns nú er komið í fullkomið óefni, svo sem hér hefur þegar verið rakið og ég þarf ekki að hafa svo mörg orð um.

Stjórnvöld hafa verið vöruð við hvert stefndi í þessum efnum og í umræðum hér á Alþingi hefur verið vitnað til þess fræga fundar sem hæstv. núv. menntmrh., þáv. iðnrh., hélt með sínum flokksmönnum á Akranesi. Ýmsir skildu orð hans þá á þann veg að hann hygðist beita sér fyrir því að af Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar yrði létt lánum er næmi um 5 millj. dollara. Nú hefur síðan komið í ljós að hæstv. ráðherra segist ekki hafa meint alveg nákvæmlega það sem flestir fundarmanna töldu að hann óhjákvæmilega meinti, því að hans orð voru talin þá skýr. Það er því ljóst að stjórnvöld hafa vitað býsna lengi að þetta mál yrði að leysa með einhverjum hætti, en það hefur hins vegar ekki verið gert. Hæstv. núv. iðnrh. hefur skipað nefnd fyrir allnokkru til þess að fjalla um sameiningu orkufyrirtækja á Vesturlandi. Síðar er svo nýbúið að skipa aðra nefnd sem á að fjalla um þetta mál og hafa skemmri tíma til sinna starfa.

Að því er fyrrnefndu nefndina varðar, sem á að fjalla um sameiningu orkufyrirtækja á Vesturlandi, þá held ég að það sé borin von og barnaskapur raunar að ætla sér að leysa fjárhagsvanda Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar með sameiningu við Andakílsárvirkjun t.d., með því að eyðileggja lítið og mjög gott fyrirtæki, sem ég held að yrði óhjákvæmileg afleiðing slíkrar samvinnu. Ég held að allar þær hugleiðingar séu meira og minna út í hött og sé eins gott að gefa þær upp á bátinn - og því fyrr, því betra. Hins vegar skal ósagt látið hvað kemur út úr störfum þeirrar embættismannanefndar sem nú hefur verið vikið að.

Það hefur mikið verið rætt hér um skattheimtu hins opinbera til þess að jafna orkukostnað. Mér er það minnisstætt frá því 1981-1982 þegar sjálfstæðismenn gengu mjög hart fram og skömmuðu réttilega þáv. ríkisstjórn og iðnrh. fyrir að stela meiri hlutanum af þessu verðjöfnunargjaldi í ríkissjóð, eins og það var þá orðað. Nákvæmlega sama er gert núna og hefur alla tíð verið gert. Þeir eru þar undir sömu sök seldir hæstv. fyrrv. iðnrh. og hæstv. núv. iðnrh., þ.e. þetta orkugjald sem lagt er á landslýðinn hverfur að langmestum hluta til almennra rekstrarútgjalda ríkisins og er gagnrýni vert hvernig að því hefur verið staðið og hvernig á áfram að standa að því, mikillar gagnrýni vert.

Ég minnist þess að fyrsta árið sem hitaveitan starfaði var mjög algengt að menn kæmu að máli við þm. og hefðu orð á því að þessar tímakaupshækkanir á þriggja mánaða fresti sem verðbólgan át jafnóðum væru nú lítils virði, en hin raunverulega kjarabót hefði verið að fá hitaveituna. Þetta var sagt í Borgarnesi og þetta var sagt á Akranesi. Nú hefur þróunin orðið sú að þetta hefur gjörsamlega snúist við. Ég held því fram að verðmunurinn á hitun hér í Reykjavík og t.d. í Borgarnesi sé meiri en kemur fram í þessu frv. Ég get nefnt um það alveg ákveðið dæmi. Einbýlishús sem er 540m3 kostar 5100 kr. að hita í 30 daga með þremur mínútulítrum. Nákvæmlega jafnstórt hús hér í Reykjavík kostar rétt um 1000 kr. að kynda með heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur. Það dæmi þekki ég sjálfur persónulega og hinn reikninginn hef ég séð, þannig að þarna er fimmfaldur munur, og það eru jú 117 km hérna upp í Borgarnes. Þetta gengur auðvitað ekki. Þetta leiðir til byggðaröskunar sem er þjóðinni dýr og hættuleg. Fólk stendur ekki undir því að borga slíkan kostnað. Af hverju á að vera sama verð á bensíni og olíu um allt land? Af hverju á ekki að vera sama eða svipað verð á heitu vatni? Þetta er pólitísk og þetta er félagsleg spurning. Þetta er spurning um grundvallarstefnu. Það er alveg ljóst að hér verður hið opinbera að koma til skjalanna með einhverjum hætti og leiðrétta þetta misræmi, skapa þarna aukinn jöfnuð. Þessu verður einfaldlega að breyta.

Hitt er svo annað mál, sem sjálfsagt er að viðurkenna, að áreiðanlega hefði ýmislegt mátt betur fara í rekstri ýmissa þessara fyrirtækja. Það er ég alveg handviss um að á t.d. við um Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Í sambandi við fjárhagslega endurskipulagningu slíks fyrirtækis væri ekkert óeðlilegt að þá yrði skipt alveg um stjórn. Ég held að það væri fyllilega athugunar vert og kannske tímabært.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, herra forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli hafa verið tekið upp hér á hinu háa Alþingi með þessum hætti. Ég hefði gjarnan viljað eiga aðild að því en vegna fjarveru gat ekki af því orðið. Ég held að þetta sé mikilvægt skref til að knýja hæstv. ríkisstjórn til þeirra aðgerða í þessu efni sem löngu eru óhjákvæmilegar, löngu eru nauðsynlegar til að leiðrétta þetta mikla himinhrópandi ranglæti sem nú er við lýði.