25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

183. mál, aðstoð við hitaveitur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram að mér var ókunnugt um það að til stóð að bera upp þessa till. til þál. Ef mér hefði verið kunnugt um það hefði ég að sjálfsögðu bent flm. á að viðræður væru þegar hafnar milli ríkisstjórnar og a.m.k. bæjarstjórnar Akureyrar um þessi mál, og ég hygg fleiri bæjarstjórna og hitaveitna, þannig að mér sýnist að þessi till. sé í raun á misskilningi byggð og sé eins og tillgr. hljóðar eingöngu til þess fallin að tefja fyrir málinu ef höfð er í huga sú yfirlýsing sem hæstv. ráðh. hafði hér áðan. Ég heyrði að hv. 6. landsk. þm. Árni Gunnarsson var að tala um kunnugleika sína af Hitaveitu Akureyrar hér áðan, og efast ég ekki um að hann sé fróður um þau efni, en honum ætti þá líka að vera kunnugt um að þessi mál eru einmitt í umræðu nú milli hitaveitunnar og ríkisstjórnarinnar. Á hinn bóginn lýsir þessi till. náttúrlega miklum áhuga þessara hv. þm. á því að þessi mál verði leyst og menn geri sér grein fyrir þeim vanda sem hér er við að stríða.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa þessi orð miklu fleiri. Tillögugerðin lýsir áhuga þm. á málefninu. Hins vegar er till. það seint fram borin að hún breytir engu um framkvæmd málsins. Sú nefnd, sem hæstv. iðnrh. hefur skipað til þess að gera tillögur um þennan sérstaka vanda, hefur tekið til starfa og fengið ströng tímamörk og ég sé ekki að þessi till. breyti neinu þar um.