26.11.1986
Efri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

181. mál, Kennaraháskóli Íslands

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég lýsi stuðningi mínum við þetta litla lagafrv. Það tekur til tveggja atriða. Í einn stað kemur félagsvísindadeild í stað „heimspekideildar“, en eins og hæstv. menntmrh. tók fram er það í samræmi við breytta deildaskipun Háskóla Íslands. Í annan stað er hér tekið upp það verklag að nokkur sveigjanleiki er skv. efnisgrein þessa frv. um það hver gegnir starfi forstöðumanns Rannsóknarstofnunar uppeldismála.

Ég er fylgjandi þessu verklagi almennt því að ég tel að sveigjanleiki sé æskilegur í lögum þannig að stofnanir geti á hverjum tíma hagað starfi sínu eins og best verður á kosið hverju sinni innan ákveðins lagaramma. Hér er því farin réttlát og mjög eðlileg leið.

Það kemur einnig fram í grg. með frv. að þessi tilhögun nýtur stuðnings þeirra sem málið er skyldast og þessi störf hafa með höndum. Þarna virðist vera um að ræða ágætt samkomulag á milli félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Rannsóknarstofnunar uppeldismála. Ég tel frv. því að öllu leyti réttmætt og lýsi stuðningi mínum við það.