26.11.1986
Efri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

181. mál, Kennaraháskóli Íslands

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hér er ekki um viðurhlutamikið mál að ræða og svo sem ástæðulaust að setja á langar ræður um það þótt menn séu sammála þessu litla frv., en til þess gefst tækifæri í nefnd að fjalla nánar um það. Þetta er raunar að ég hygg ágreiningslaust mál.

En tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs við þessa umræðu var að inna hæstv. menntmrh. eftir því hvað líði þeirri endurskoðun laga um Kennaraháskóla Íslands sem ákvæði var sett um í þau lög á sínum tíma að fram skyldi fara innan tiltekins tíma frá setningu laganna sem mun hafa verið 1971 eða 1972, og nú vitna ég til eftir minni. Það átti að endurskoða þessi lög innan þriggja ára eða svo eða fimm ára. Að því ég best veit hefur þessi endurskoðun aldrei fram farið. Vil ég nú beina því til hæstv. menntmrh. hvort þessi endurskoðun sé hafin. Sé svo ekki, hvort hann hyggist beita sér fyrir því að hún fari fram og hvenær þess megi þá vænta að endurskoðað frv. til laga um Kennaraháskóla Íslands verði lagt fyrir Alþingi, svo sem mælt var fyrir í lögum á sínum tíma.