26.11.1986
Efri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

181. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Frú forseti. Ég er sannfærður um að lögin um Kennaraháskóla Íslands þarfnast rækilegrar endurskoðunar án þess að ég ætli að orðfæra neitt um einstök atriði í því sambandi. Fyrirrennari minn, hæstv. núv. heilbrrh., hafði fengið til þess félagsvísindadeild Háskólans og forseta hennar, Þórólf Þórlindsson, að gera úttekt á málefnum Kennaraháskólans. Ég hef átt tvívegis viðræður við Þórólf um þetta mál og hann tjáir mér að í burðarlið sé að hann skili ítarlegri skýrslu um málefni Kennaraháskólans.

Í framhaldi af því mun ég þegar láta taka til við endurskoðun laganna. Ég þori ekki að fullyrða um hvenær möguleiki verður á að leggja slíka endurskoðun fram. Mér er stórlega til efs að það verði mögulegt á þessu uppboðsþingi fyrir kosningar. En ég held að við þurfum að gaumgæfa alveg sérstaklega málefni Kennaraháskólans. Ég er ekki þar með að hefja gagnrýni á störf hans, en ég hygg þó að með tilliti til þess að hér var um nýja stofnun að tefla, sem menn í upphafi voru sammála um að þyrfti að endurskoða lög um mjög fljótlega eftir að hann var settur á laggirnar, skólinn, held ég að þessa gerist fullkomin þörf. Líka vegna þess að hratt flýgur stund í kennslumálunum. Fjarkennslan og hvað eina sem nú kemur til sérstakrar meðferðar þarfnast þess sérstaklega að hið háa Alþingi skipuleggi þessi mál upp á nýtt.