26.11.1986
Efri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

182. mál, Leiklistarskóli Íslands

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Annað lítið mál á þskj. 192 um þá breytingu á lögum um Leiklistarskóla Íslands að fjölga úr 9 upp í 13 í skólanefnd.

Ég ætla að vænta þess að nefndin styrkist við það að fleiri ráð koma saman, enda þótt Ólafur þá kenndi okkur annað á sínum tíma. En hér vona ég að eigi í hlut vitrir menn.

En það þykir ástæða til að gefa hinni nýju listiðn okkar, kvikmyndagerðinni, aðild að skólanefnd Leiklistarskólans og þar er um að tefla sjónvarpsdeild Ríkisútvarpsins, Samband ísl. kvikmyndagerðarmanna og Félag kvikmyndagerðarmanna ásamt með Félagi leikstjóra sem af sjálfu leiðir að eiga þar brýnast erindi.

Um skólann er annars það að segja að menn hafa varpað öndinni. Honum hefur verið fundið nýtt húsnæði sem fyrirsvarsmenn skólans eru afskaplega ánægðir með og er þar vissulega stunduð hin merkilegasta starfsemi sem við þurfum að hlúa að. Ég vil fyrir mitt leyti verða við óskum þessara aðila, kvikmyndagerðarinnar alveg sérstaklega, að þeim verði gefinn kostur á aðild að skólanefndinni því að hér er eins og ég segi á ferðinni ný listiðn sem nemendur þurfa svo sannarlega að kynnast rækilega og það verður, held ég, best gert með því að þarna eigi þeir einnig hlut að máli sem í fylkingarbrjósti standa í kvikmyndagerðinni.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þegar þessari umræðu lýkur verði máli þessu vísað til menntmn.