03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

Skrifleg svör við fyrirspurnum

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að vekja athygli þingheims og lýsa yfir furðu minni á þeirri málsmeðferð sem hefur verið í sambandi við svar hæstv. fjmrh. við fsp. frá Kjartani Jóhannssyni á þskj. 177 um greiðslu opinberra gjalda með skuldabréfum. Löngu áður en þessu þskj. var dreift til alþm. þannig að þeir gætu kynnt sér efnislega niðurstöðu svars hæstv. fjmrh. var flutt frétt í fréttatíma á Stöð 2 sem var einn óhróður og ófrægingar; herferð í garð Borgaraflokksins og formanns hans. Í svari hæstv. fjmrh. til hv. 4. þm. Reykn., Kjartans Jóhannssonar, segir, með leyfi forseta:

„Í yfirlitinu eru ekki birt nöfn einstakra gjaldenda, en þeir einungis sundurliðaðir í einstaklinga og lögaðila. Engar beinar lagareglur eru til um upplýsingaskyldu ráðuneytisins í þessum efnum, en með hliðsjón af ákvæðum 150. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, treystir ráðuneytið sér ekki til þess að verða við beiðni um nafnbirtingu.“

Í fréttatíma Stöðvar 2 umrætt kvöld, áður en þessum upplýsingum hafði verið dreift til alþm. á Alþingi, birti stöðin í fréttatíma sínum nöfn ýmissa aðila sem hefðu fengið heimild til þess að gera upp skattskuldir sínar með skuldabréfum. Og nú spyr ég: Hvar var trúnaður brotinn? Er fréttastofa Stöðvar 2 orðin einhvers konar upplýsingaskrifstofa fyrir fjmrn.?

Hæstv. forseti. Á að túlka það svo að ef mig vanhagar um upplýsingar um það hvaða lögaðili í júní 1987, í tíð þáv. fjmrh., hæstv. núv. forsrh., fékk heimild til þess að breyta 44 millj. kr. skattskuld í skuldabréf, á ég þá að hringja upp á fréttastofu Stöðvar 2 og fá upplýsingar um það þaðan? Er hún orðin einhvers konar upplýsinga- og miðlunarskrifstofa fyrir hæstv. fjmrh.? Ég bara spyr.

Þetta mál er allt með ólíkindum og minnir einna helst á ófrægingarherferð Alþfl. í garð framsóknarmanna hér áður fyrr þegar svokallað Geirfinnsmál var mjög til umræðu. Virðist flokkurinn ekkert hafa lært af þeim málum og er með ólíkindum ef það á að fara að hefja upp svipuð vinnubrögð nærfellt tíu árum síðar.