03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

79. mál, heimsóknir herskipa og kjarnavopn

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 82 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. utanrrh. um heimsóknir herskipa og kjarnavopn. Fsp. er svohljóðandi:

„Hvernig hyggst utanríkisráðherra tryggja að sú stefna sé undantekningarlaust virt að ekki séu kjarnavopn í skipum sem koma inn í íslenska lögsögu og íslenskar hafnir?"

Þessi fsp. er borin fram eftir fyrri fsp. mínar til hæstv. ráðherra varðandi Ísland og kjarnorkuvopn. Það ánægjulega hefur gerst að hæstv. ráðherra hefur tekið af öll tvímæli um það að á Íslandi skuli hvorki á friðar- né ófriðartímum vera staðsett kjarnavopn og hér er um það atriði að ræða sem æskilegt er að fá ótvíræð svör um til viðbótar hvernig ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra hyggist tryggja að það gerist ekki að íslensk skip komi inn fyrir íslenska lögsögu og inn í íslenskar hafnir búin kjarnorkuvopnum eða hugsanlega með kjarnavopn.