03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

79. mál, heimsóknir herskipa og kjarnavopn

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka yfirlýsingu hæstv. ráðherra um þetta efni og þá áréttingu sem hann gaf varðandi stefnu fyrirrennara síns í starfi, Geirs Hallgrímssonar, sem gefin var hér á Alþingi 16. apríl 1985. Vissulega er það svo að ég ætlast ekki til þess að hæstv. ráðherra komi í veg fyrir það að þessi stefna sé brotin af aðilum sem það vildu viðhafa, þó að íslensk stjórnvöld hljóti að hafa viðleitni uppi til þess að leitast við að koma í veg fyrir að svo sé.

Hæstv. ráðherra gat þess að bandalagsríki okkar viti vel um þessa stefnu og hafi virt þessa ákvörðun okkar í sambandi við flotaæfingar. Það er vissulega mikils virði og ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort farið hafi skjöl og yfirlýsingar á milli stjórnvalda Íslands og annarra Atlantshafsbandalagsríkja, þá ekki síst Bandaríkjanna, varðandi þetta efni og hvort fyrir liggi ótvíræð yfirlýsing af hálfu þeirra um að þau muni virða þessa stefnu Íslendinga. Það er í rauninni það sem skiptir máli í sambandi við þetta að því er snýr að þeim ríkjum sem við erum í hernaðarbandalagi við.