03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

87. mál, orkusala erlendis

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið, þau svör sem komin eru. Hann hefur boðað að hann muni taka til máls hér síðar við þessa umræðu, þannig að e.t.v. koma enn þá fyllri svör og mun ég hlýða á þau með athygli að sjálfsögðu.

Ég vil aðeins undirstrika það að við verðum að fylgjast grannt með öllum möguleikum sem við höfum til orkusölu. Þótt að sjálfsögðu sé best að nýta sem mesta orku í landinu er þetta þó raunhæfur möguleiki þó að við verðum að fara varlega í þessum efnum og ekki rasa um ráð fram og ekki ætla okkur að gleypa sjöstjörnuna eins og við höfum stundum ætlað að gera í orkumálum.

Fari svo að við getum selt orku á neytendamarkað í öðrum löndum er það ein stoð undir okkar atvinnulíf og það er slíkt stórmál fyrir komandi kynslóðir að við getum ekki leitt hjá okkur eða skellt skollaeyrunum við þeirri þróun sem óhjákvæmilega verður í þessum efnum.

Það kom fram í svari ráðherrans að frá því að síðustu athuganir voru gerðar hefur þeirri tækni sem notuð er til þessa flutnings fleygt fram, bæði varðandi búnað í endastöðvunum og í gerð strengjanna sem notaðir eru við þennan flutning. Öryggið hefur aukist jafnframt þessu. Auðvitað geri ég mér grein fyrir hve mikið framtíðarmál þetta er og hver stærð þessa máls er í rauninni, en við megum ekki heldur gleyma því samhengi sem hér er að við erum með land á miðri leið til Skotlands, Færeyjar, sem býr ekki yfir orkulindum og þar er orka framleidd með olíu í mjög miklum mæli. Það er því nauðsynlegt að ræða grannt við þessa nágrannaþjóð okkar um þessi efni og hvort þeir hafa ekki einnig áhuga fyrir þessum málum.

Ég endurtek það að ég þakka þau svör sem komin eru, en ráðherrann hefur boðað að hann muni bæta enn inn í þessa mynd.