03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

99. mál, Mývatnsrannsóknir

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil einnig leggja þunga áherslu á mikilvægi þess máls sem hér er til umfjöllunar. Erfitt deilumál í héraði er í uppsiglingu ef ekki verður staðið við þessar rannsóknir og þær nái að ganga fram með eðlilegum hætti. Það sýnir reynslan okkur.

Ég vil einnig undirstrika að Alþingi og ríkisstjórn bera hér þunga og mikla ábyrgð. Sett hafa verið sérstök lög um verndun þessa svæðis. Þetta svæði er einstakt á Íslandi og þó víðar væri leitað. Væri hér um óbyggt hérað að ræða er næsta víst að Mývatn og Laxá væru þegar orðin þjóðgarður með algjörri friðlýsingu, en hér er um byggt svæði að ræða og þess vegna krefjast aðstæður þess, sambúð manns og náttúru í Mývatnssveit og við Laxá mun krefjast þess að bestu fáanlegar upplýsingar liggi til grundvallar aðstæðum þar til að meta þær forsendur sem þar er við að búa til þess að unnt verði að tryggja að sambúð manns og náttúru eigi sér þar stað með farsælum hætti. Ég vil því leggja sérstaka áherslu á það að bæði Alþingi og ríkisstjórn bera hér þunga ábyrgð. Þeim ber að standa við lög um verndun Laxár og Mývatns og í ljósi þess ber að skoða skylduna til að leggja til nægilegt fjármagn þannig að þessar rannsóknir nái fram að ganga.