03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

143. mál, skyldusparnaður ungs fólks

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Nú í haust skipaði ég starfshóp til þess að skoða ákveðin atriði varðandi skyldusparnað og koma með tillögur þar að lútandi. Í hópnum voru Einar Jónsson, lögfræðingur hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, Jens Sörensen, forstöðumaður veðdeildar Landsbanka Íslands, Katrín Atladóttir, viðskiptafræðingur hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, og forstöðumaður Byggingarsjóðs ríkisins, Þorgerður Benediktsdóttir, deildarstjóri í félmrn., og Lára V. Júlíusdóttir, aðstoðarmaður félmrh.

Þau atriði sem starfshópnum var falið að athuga voru í fyrsta lagi fækkun á undanþágum frá skyldusparnaði, í öðru lagi ávöxtun skyldusparnaðar í ljósi nýrra skattalaga og í þriðja lagi skilvísari leiðir til innheimtu skyldusparnaðar.

Starfshópurinn hefur skilað skýrslu til mín um tillögur sínar í ofangreindum atriðum og vil ég í stuttu máli rekja niðurstöðurnar.

Þau vandamál sem tengjast framkvæmd skyldusparnaðar í dag eru einkum þau að þar sem skyldusparnaðarprósentan er há eða 15% hefur þróast nokkuð umfangsmikið undanþágukerfi sem tekur tillit til fjárhags og félagslegrar stöðu þeirra sem greiða skyldusparnað.

Á undanförnum árum hefur innstreymi og útstreymi á skyldusparnaði verið mjög svipað þannig að fjárhagsgrundvöllur Byggingarsjóðs ríkisins hefur ekkert styrkst með skyldusparnaði. Ávöxtunarmöguleikar sparifjár hafa einnig aukist gífurlega en á sama tíma fellur niður skattahagræði af skyldusparnaði með fyrirhugaðri breytingu á skattalögunum um nk. áramót, sem hefur haft mikið gildi fyrir skyldusparendur. Eftir stendur því aðeins ávöxtun, sem eru þeir vextir sem á hverjum tíma gilda um lán úr Byggingarsjóði ríkisins að viðbættum verðbótum skv. lánskjaravísitölu, þ.e. 3,5% vextir í dag auk verðtryggingar. Við 26 ára aldur fellur síðan verðtryggingin niður og verður ávöxtunin þá almennir sparisjóðsvextir. Einnig má benda á að eftirlit með innheimtu á skyldusparnaði hefur ekki tryggt þá skilvirkni í kerfinu sem þarf og hefur skort á lagaheimildir svo að hægt hafi verið að koma hlutunum þannig fyrir að viðunandi sé. Í niðurstöðum starfshópsins kemur fram að nauðsynlegt sé að fækka þeim undanþágum sem nú eru heimilar þar sem núverandi kerfi sé svo opið að nánast geti hver sem er náð út því fé sem hann á inni. Þetta gerir alla innheimtu og eftirlit mjög erfitt ásamt því að viðhorf fólks til skyldusparnaðar verður mjög neikvætt.

Ef litið er til undanþáganna og möguleika á fækkun þeirra þar og einungis gert ráð fyrir að skyldusparnaður sé greiddur út:

1. vegna aldurs,

2. vegna (búðakaupa eða byggingar,

3. til einstæðra foreldra sem njóta mæðra- eða feðralauna hjá Tryggingastofnun,

4. vegna andláts

og kannað við þau skilyrði hvað skyldusparnaðarprósentan þyrfti að vera há til að Byggingarsjóðurinn fengi svipað fjármagn og nú er vegna skyldusparnaðar, þá má gera ráð fyrir að skyldusparnaðarprósentan gæti lækkað í 8% í stað 15% nú. Þessi prósenta er í samræmi við tillögur húsnæðismálastjórnar frá 1984. Með þessu yrðu undanþágur tiltölulega fáar auk þess sem slíkt einfaldaði alla framkvæmd verulega.

Til að halda sjóðnum í jafnvægi miðað við ofangreindar forsendur var tillaga hópsins sú að einungis verði gerð undanþága til greiðslu skyldusparnaðar:

1. vegna íbúðakaupa,

2. ef um er að ræða einstæða foreldra sem njóta mæðra- eða feðralauna hjá Tryggingastofnun,

3. vegna andláts.

Jafnframt yrði skyldusparnaðarprósentan ákveðin 8%.

Að því er varðar þá fsp. sem hér er til umræðu um hækkun vaxta á skyldusparnað, þá tel ég að það þurfi að breyta þeirri ávöxtun á skyldusparnaði sem nú er boðið upp á því að sú ávöxtun er óviðunandi miðað við aðra ávöxtun á sparifé,sérstaklega þegar skattahagræði fellur niður nú um áramótin. Nokkrir valkostir hafa verið kannaðir varðandi ávöxtun skyldusparnaðar, en ekki liggur enn fyrir ákvörðun í málinu. Nefna má að á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs hefur skyldusparnaðarreikningur með 3,5% vöxtum gefið 23,5% ávöxtun. Verðtryggður bundinn reikningur í sex mánuði með 7% vöxtum hefði gefið 27,2% heildarávöxtun á þessu tímabili.

Samkvæmt upplýsingum vararíkisskattstjóra nam frádráttur vegna skyldusparnaðar árið 1986 samtals 465 millj. kr. Engin leið er að áætla hversu mikið tekjutap ríkissjóðs var af þeim sökum eða skattahagræði þeirra 11 499 aðila sem áttu í hlut þar sem tekjur manna eru svo mismunandi og þar með það skattahagræði sem af þessu hlýst. Sé litið til þess hve hækkun vaxta á skyldusparnaði kostar Byggingarsjóð ríkisins nú má líta til þess að á árinu 1986 kostuðu 3,5% vextir á skyldusparnað um 56 millj. kr. Hefðu vextir þá verið ákveðnir 5% hefði það kostar rúmar 80 millj. kr. og ef vextir hefðu verið 7% umfram verðbætur hefði það kostað tæpar 113 millj. kr. eða nálægt helmingi hærri upphæð en miðað við núverandi vaxtakjör. Þar sem bundið er í lög um Húsnæðisstofnun að vextir af innlánum á skyldusparnaðarreikningi skuli vera þeir sömu og gilda á hverjum tíma um lán úr Byggingarsjóði ríkisins þarf lagabreytingu ef breyta á vöxtum um nk. áramót.

Þar sem stefnt er að því að gera breytingar á fleiri atriðum skyldusparnaðar en einungis vaxtaprósentunni, eins og fram hefur komið í mínu máli, og enn hefur ekki unnist tími til þess að taka afstöðu til ýmissa tillagna í því sambandi, m.a. að leita samráðs við stjórnarflokkana í því efni, þá tel ég ekki rétt að taka vaxtaprósentuna eina og sér út úr og leggja nú frv. fram til breytinga á henni. Þess í stað stefni ég að því að leggja fram frv. til breytinga á skyldusparnaðarkafla húsnæðislaganna fljótlega eftir áramótin. Þeirri fsp., sem hér liggur fyrir um hækkun vaxta og skyldusparnaðar, svara ég því játandi. Ég mun beita mér fyrir hækkun vaxta á skyldusparnaðinum. Jafnframt því tel ég rétt að stefna að því að fækka undanþágum í skyldusparnaði og lækka skyldusparnaðarprósentuna sem og að tryggja skilvísari innheimtu skyldusparnaðar, en með tilkomu staðgreiðslukerfis skatta opnast nýir möguleikar til virkara eftirlits í samvinnu við skattyfirvöld.

Ég vænti þess að ég hafi svarað þeirri fsp. sem til mín var beint á þskj. 151 um skyldusparnað ungs fólks.