15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. sé enn þá í húsinu og hæstv. fjmrh. einnig og óska eftir því að þeir verði sóttir. Enn fremur óska ég eftir því að formaður þingflokks Alþfl. verði sóttur sérstaklega og látinn gegna þingskyldum sínum hér vegna þess að hann er einn af ábyrgðarmönnum á þeirri stefnu sem hér er til umræðu.

Enn fremur vil ég sérstaklega þakka þeim eina þm. Sjálfstfl. sem hefur síðan um fimmleytið í dag verið viðstaddur þessa umræðu. Það er ánægjulegt að það skuli þó vera einn þm. Sjálfstfl. sem lætur sig umræðu um efnahagsmál og stefnu ríkisstjórnarinnar einhverju varða. Hann er hins vegar eins og ég varaþm. þannig að senn mun koma að því að það verður enginn þm. Sjálfstfl. sem sinnir þessum málum. Ég vænti þess að hæstv. forseti, sem ég lýsti sérstöku trausti á fyrr í kvöld og tók fúslega við áminningum frá í minn garð, verði jafneftirrekstrarsamur og snjall agameistari við hæstv. forsrh. og formann þingflokks Alþfl. og takist nú að draga þá hingað í salinn. (Forseti: Það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess að vekja athygli þessara þm. á því að nærveru þeirra er óskað.) Ég þakka hæstv. forseta það og það sýnir best mátt orða hans að hæstv. forsrh. birtist nú hér í hliðarsal.

Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið í dag því að hún hefur með býsna skýrum hætti lýst inn í þá ríkisstjórn sem hér hefur setið nokkra mánuði. Hún hefur sýnt skortinn á föstum tökum í efnahagsmálum, hún hefur sýnt skortinn á samræmdri stefnu og hún hefur kannski fyrst og fremst sýnt skortinn á innri sannfæringu ráðherranna og stjórnarliðanna á því að þeirra eigin orð hafi einhverja merkingu sem raunhæf stefna í efnahagsmálum. Mér finnst þess vegna blær ríkisstjórnarinnar við þessar umræður minna einna helst á síðustu mánuðina sem ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar 1978–1979 átti hér á Alþingi og með þjóðinni. Í þeirri ríkisstjórn ríkti ákveðin sundurþykkja, ákveðinn skortur á samræmdum tökum í efnahagsmálum og ákveðin vantrú þeirra sem í ríkisstjórninni voru, m.a. okkar og annarra, á því að verið væri á réttri braut. Það er þess vegna mjög merkilegt að fá tækifæri hér í upphafi þings til þess að lýsa með þessum hætti inn í hæstv. ríkisstjórn.

Það er greinilegt varðandi þá fyrstu spurningu sem ég bar fram að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki trú á sinni eigin gengisstefnu. Hæstv. forsrh. dansaði í kringum það hér að gefa til kynna hvort hann væri reiðubúinn að leggja líf ríkisstjórnarinnar við fastgengisstefnuna. Ef maður leggur saman það sem hæstv. forsrh. sagði þá er það alveg ljóst að hann var reiðubúinn að fella gengið á næstu mánuðum og sitja áfram sem forsrh. þessarar stjórnar. Það verður þó að segja hæstv. fjmrh. til hróss að eftir því sem leið á ræðu hans herti hann sig æ meira upp í því að líklegast væri nú rétt að reyna að standa við þennan hornstein stjórnarstefnunnar. En þó, þegar hann þagði augnablik og ég spurði hann með beinu frammíkalli hvort hann væri þá tilbúinn að tengja ráðherrasetuna við gengið, þá kom hikið og neiið.

Það er því alveg ljóst eftir þessa umræðu að það eina sem hæstv. ríkisstjórn hefur haldið fram í umræðunum núna að hún hafi gert, þ.e. að bjóða mönnum að kaupa bréf í erlendum kauphöllum, er ekki sá burðarás undir þessa fastgengisstefnu sem mun duga. Ég tel því að í ljósi þessarar umræðu sé það bara tímaspurning hvenær hæstv. ríkisstjórn fellir gengið. Léttir brandarar úr Verslunarskólanum hjá hæstv. forsrh. eru ekki svör sem duga frá manni sem hefur verið falið að vera oddviti íslensku þjóðarinnar í þessum málum. Það getur verið að þeir hafi dugað í Verslunarskólanum á sínum tíma, en þeir duga ekki hér.

Í öðru lagi er það líka ljóst á þessari umræðu að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki tekið formlega afstöðu til þess hvernig eigi að svara Alþýðusambandi Íslands. Það verkefni er þess vegna eftir. Hæstv. ríkisstjórn á að taka það fyrir á næsta ríkisstjórnarfundi, hvert verður svarið sem Alþýðusamband Íslands fær frá ríkisstjórninni, nema hæstv. forsrh. ætli að taka upp þá. siðvenju að svara ekki þeim bréfum sem alþýðusamtökin í landinu, stærstu fjöldasamtök þessa lands, senda honum og ríkisstjórninni. Það dugir auðvitað ekki í þeim efnum og ég er satt að segja mjög undrandi á því að hæstv. viðskrh., sem umfram allt hefur verið með formföstustu embættismönnum þessa lands á undanförnum áratugum, og reyndar einnig hæstv. fjmrh., skuli grípa til þess eins í vörn sinni gagnvart þeim svikum sem Alþýðusambandið hefur formlega lýst í opinberu bréfi á hendur ríkisstjórnarinnar að vitna í einhverja fundi sem þeir hafi átt með forsvarsmönnum samtaka launafólks í Stjórnarráðinu. Ég hef líka heyrt um þessa fundi. (Viðskrh.: Yfirlýsingar í sjónvarpi.) Það er ánægjulegt að hæstv. viðskrh. telur nóg að eiga þau samskipti við fulltrúa alþýðusamtakanna í landinu að hlusta á þá í sjónvarpi. (Viðskrh.: Það var ekki það sem ég sagði.) Ja, það mátti skilja það þannig að það hefði dugað hæstv. ráðherra vegna þess að þegar hæstv. ráðherra sat hérna megin í salnum fyrr í dag kallaði hann fram í „Dagsbrún, Dagsbrún“ þegar verið var að upplýsa það að alþýðusamtökin hefðu borið ríkisstjórninni á brýn svik og hefðu mótmælt matarskattinum. Ég hef heyrt forsvarsmenn samtaka launafólks lýsa þessum spjallfundum með hæstv. fjmrh. í fjmrn. fyrir nokkrum dögum síðan. Og þó að ég telji það ekki við hæfi að fara að hlaupa hér inn á Alþingi með lýsingar á því sem sagt er á svona spjallfundum í Stjórnarráðinu og gera það að ígildi formlegra samskipta við samtök launafólks að menn geti átt von á því hvenær sem er ef þeir detta inn í fjmrn. rétt fyrir hádegismat eða síðdegis og fá kaffi hjá fjmrh., þá standi hann hér upp á Alþingi nokkrum dögum síðar og upphefji langar pólitískar útleggingar á þessum samtölum og telji þær útleggingar ígildi svara við formlegu erindi frá Alþýðusambandi Íslands. Það er náttúrlega ljóst að hæstv. viðskrh. hefur aldrei á undanförnum dögum rætt við forsvarsmenn launþegasamtakanna í landinu. (Viðskrh.: Það hefur hann gert.) Hefur hann rætt við Þröst Ólafsson? Nei, hann hefur nefnilega ekki rætt við Þröst Ólafsson, maðurinn sem kallaði Dagsbrún, Dagsbrún hérna fyrr í dag og ætlaði að leiða Dagsbrún til vitnis um það að menn styddu þó viðleitni ríkisstjórnarinnar hjá samtökum launafólks. Hann hefur ekki rætt við Þröst Ólafsson. Ég hef hins vegar rætt við Þröst Ólafsson og veit ósköp vel hver er hans skoðun og hvað hann sagði við hæstv. fjmrh. Og hvað sagði hann við hæstv. fjmrh. sem fjmrh. „gleymdi“ að segja hér og væri rétt að fá hann aðeins í salinn, hæstv. fjmrh., augnablik og drepa í sígarettunni. Hvað sagði Þröstur Ólafsson við hæstv. fjmrh. sem hann „gleymdi“ að segja þinginu frá? Jú, hann skoraði á hæstv. fjmrh. að draga matarskattinn til baka strax. Það var sú formlega ósk og krafa sem Þröstur Ólafsson setti fram á viðræðufundinum með fjmrh. í fjmrn. sem hann greindi ekki frá hér. Í staðinn þótti honum gott hrósið, að honum skyldi hafa tekist að leggja fram hallalaust fjárlagafrv. til sýnis eins og hv. þm. Páll Pétursson kallar það. Þröstur Ólafsson, sem stjórnaði hallalausum ríkisbúskap ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds, hælir auðvitað öllum þeim sem slíkt gera. En það var athyglisvert og ber ekki vott um mikla sannleiksást hæstv. fjmrh. að hann skyldi gleyma að segja þingheimi frá því hvað Þröstur Ólafsson sagði um það atriði sem fyrst og fremst er hér til umræðu. Það var áskorun á hæstv. fjmrh. að draga matarskattinn strax til baka. Þannig er ljóst að bæði með formlegu bréfi frá forseta Alþýðusambandsins og á fundi framkvæmdastjóra Dagsbrúnar með hæstv. fjmrh. hefur verið lögð fram krafa um að matarskatturinn verði dreginn til baka skilyrðislaust. Ekki með neinum dansi um það: Ef þið komið hérna, strákar mínir, og viljið ræða við mig um launastefnuna á árinu 1988 skal ég kannski draga matarskattinn til baka. Það þarf að draga hann til baka strax. Ef hæstv. fjmrh. ættar að leggja í vana sinn hér á Alþingi að segja frá kaffibollasamræðum sínum í fjmrn. væri óskandi að það væri réttari frásögn en sú sem kom í dag.

Ég ætla svo ekki að gera þessa svokölluðu fundi, sem þeir ráðherrar Alþfl. telja núna ígildi samráðs við samtök launafólks, að umræðuefni hér vegna þess að ég tel það ekki samrýmast réttum vinnubrögðum í stjórnmálum að menn séu yfir höfuð að gera slíka spjallfundi að opinberum málflutningsþætti á Alþingi Íslendinga, einkum og sér í lagi ekki þegar formlegt erindi liggur á borði ríkisstjórnarinnar frá forseta Alþýðusambandsins. En ég skal svo sem geta þess að fyrir tveimur dögum og aftur í dag heyrði ég þá forsvarsmenn samtaka launafólks sem sátu á þessum fundum segja að þeir hefðu verið ósköp ómerkilegir og satt að segja hefðu ráðherrarnir haft afar lítið fram að færa. Hafi álit þeirra á stefnu ríkisstjórnarinnar verið lítið áður en þeir löbbuðu inn í fjmrn. var það ekki meira þegar þeir fóru þaðan út. En ég geri það ekki að stóru máli hér vegna þess að ég tel frásagnir af slíku ekki vera almennan þátt í umræðu okkar hér, en fyrst ráðherrarnir gerðu það að uppistöðu í sinni vörn var óhjákvæmilegt að segja frá hinu rétta í þessum efnum.

Það stendur þess vegna, hæstv. fjmrh., enn þá á þér krafan um að draga matarskattinn til baka. Þegar þú ert búinn að því getur þú komið og rætt við samtök launafólks. Fyrr en þú gerir það ertu brennimerktur sem maður sem ekki er hægt að treysta.

Í þriðja lagi er svo ljóst að fjárlagafrv. sem hér hefur verið lagt fram er, eins og hv. þm. Páll Pétursson hefur sagt, eingöngu til sýnis. Það vita það allir að ríkisstjórnir leggja fram stjfrv. með tvennum hætti. Oft gerist það að stjfrv. eru lögð fram til kynningar, eins og kallað er, sem er annað orðalag yfir „til sýnis“. Það eru frv. sem fela ekki endilega í sér stefnu ríkisstjórnarinnar, sem ætlast er til að þjóðin og þingið hafi töluvert frjálsræði um hvað gert er við og eiga að leiða til almennrar umræðu meðal þjóðarinnar. Síðan eru þau stjfrv. sem eru að forminu til tillögur ríkisstjórnarinnar til Alþingis og sem hún vill gjarnan fá afgreiddar í þeirri mynd sem hún leggur þau fram sem stefnu ríkisstjórnarinnar. Það hefur aldrei gerst fyrr en nú að fjárlagafrv. sé flokkað í fyrri flokkinn, það sé bara lagt fram til kynningar. En það er hins vegar ómótmælt eftir þessa umræðu að innan ríkisstjórnarinnar og í þingflokki Framsfl. ríkir engin samstaða um þetta frv. Það er þess vegna afsakanlegt, og ég ætla ekkert að átelja hæstv. fjmrh. fyrir það, að hann skyldi verja sinni löngu ræðu til að svara fyrir forsrh. Það var skiljanlegt. Það þurfti að reyna að gera það betur en forsrh. gerði. Og eins og ég sagði áðan og hældi hæstv. fjmrh. fyrir það var hann aðeins djarfari í því að hengja líf ríkisstjórnarinnar við gengisstefnuna. En hann sagði hins vegar ekkert um fjárlagafrv. Hann sagði ekkert um hver væri hin formlega staða þeirrar nefndar sem Páll Pétursson og Egill Jónsson veita forstöðu og hefur afgreiðslu fjárlagafrv. í hendi sér. Á fjvn. t.d. að bíða eftir því að sú nefnd ljúki störfum? Á að bíða með tekjuhlið frv. þar til hv. þm. Páll Pétursson og Egill Jónsson skila áliti? Er ætlunin t.d. að 2. umr. um fjárlagafrv. fari fram án þess að niðurstaðan í þessari nefnd liggi fyrir? Hvert er verkefni ráðherranefndarinnar um efnahagsmál sem tilkynnt var með pompi og prakt í sumar ef hún á ekki að fjalla um slíkt höfuðatriði í ágreiningi milli stjórnarflokkanna eins og þetta? Hvar liggur valdið? Hver stjórnar? Egill Jónsson eða Jón Baldvin Hannibalsson? Það mun koma í ljós. En á meðan er alveg ljóst að Alþingi hefur verið boðið upp á að fjalla hér um fjárlagafrv. sem er fyrst og fremst til sýnis.

Herra forseti. Ég þakka það hrós sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson flutti í minn garð og skemmtilegheit hér í dag sem ég var kannski ekki alveg viss um að ég ætti skilið. Hann var hins vegar sjálfur að reyna að komast í flokk með okkur Ómari Ragnarssyni og Halla og Ladda og ber að taka viðleitnina sem áfanga að þeim sérstaka flokki. En mér fannst sagan í lok ræðunnar eiga frekar við hv. þm. en mig, þ.e. sagan um barnið sem stóð fyrir framan klessumálverkið og sagði við föður sinn: „Ekki ég, ekki gerði ég þetta“, því. hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson er eini þm. stjórnarflokkanna sem hefur í upphafi þings gengið sérstaklega opinberlega fram á völlinn til þess að segja: Ekki gerði ég þetta. Ekki samþykkti ég matarskattinn. Ekki styð ég fastgengisstefnuna. Ekki er ég með fjárlagafrv. Þessi „ekki ég“ stíll er því fyrst og fremst upphafið að hinni nýju þingsetu hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar og kemur okkur í Alþb. ekki á óvart vegna þess að ef það var eitthvert samhengi í stjórnmálaafskiptum hans á tímabilinu 1984–1983 var það einmitt þessi „ekki ég“ stefna, að reyna að skjóta sér frá því sem óvinsælt var á hverjum tíma, taka upp aðra stefnu en samstarfsaðilar hans í ýmsum veigamiklum málaflokkum og þannig reyna með ýmsum hætti að skapa sér sérstöðu.

Herra forseti. Það hefur verið kvartað undan því í þessari umræðu að ég hafi ekki lýst stefnu Alþb. Það er nú einu sinni þannig að hér á Alþingi verður að taka tillit til ákveðinna forma. Mér var ekki veittur réttur til að fara upp utan dagskrár til þess að kynna stefnu Alþb., en ef þess er eindregið óskað af hæstv. ráðherrum og öðrum þm. er ég alveg reiðubúinn að gera það bæði fyrir og eftir landsfund. En formið á þessari umræðu var einfaldlega að reyna að knýja á um skýr svör hér á Alþingi varðandi það sem snýr að ríkisstjórninni sjálfri. Ég var ekki að misnota mér ræðutíma til að vefja inn í þá framsögu útlistunum á stefnu Alþb.

Ég er alveg sammála því að ríkisstjórninni 1980– 1983 urðu á mikil mistök. Ég rifja upp hér að Alþb. lagði formlega til við Framsfl. og sjálfstæðismennina í þeirri ríkisstjórn í október 1982 með bréfi, sem sent var Steingrími Hermannssyni formanni Framsfl. og þáv. forsrh. Gunnari Thoroddsen, að ríkisstjórnin ryfi þing og efndi til kosninga vegna þess að hún hefði ekki lengur þingmeirihluta til að ráða við þann mikla efnahagsvanda sem fram undan var. Við töldum það óverjandi fyrir ríkisstjórnina og þjóðina að leggja inn í þann vetur mikilla efnahagserfiðleika án þess að hafa þingmeirihluta á Alþingi til að takast á við það. En þá sagði Framsfl. nei. Hann var ekki reiðubúinn að fara og sækja þingmeirihluta til að taka á efnahagsmálunum heldur vildi láta reka á reiðanum í bullandi verðbólgu fram til vors af því að það var staðreynd að hv. þm. Eggert Haukdal og Albert Guðmundsson, þáverandi velunnari ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens, studdu hana ekki lengur hvorki í orði né verki. Og Gunnar Thoroddsen og sjálfstæðismennirnir vildu ekki gera það heldur. En það voru hins vegar mistök okkar í Alþb., þegar samstarfsaðilar okkar neituðu að efna til kosninga og rjúfa þing haustið 1982, að fara þá ekki út úr ríkisstjórninni vegna þess að meðan við sátum áfram bárum við ábyrgð á þeirri óstjórn í efnahagsmálum sem kom í kjölfarið. En við höfum lært af þeim mistökum, þ.e. þegar ríkisstjórn hefur misst þingmeirihluta sinn til að ráða við efnahagsvandann og samstarfsflokkarnir eru ekki tilbúnir að fara og sækja nýjan styrk á flokkurinn auðvitað að fara út úr þeirri ríkisstjórn. Það er lærdómur sem við höfum dregið alveg skýrt og eindregið og sem almenn samstaða er um í Alþb. í dag. Það voru mistök að fara ekki út úr ríkisstjórninni þá strax.

Við höfum hins vegar lagt á það ríka áherslu að hér beri brýna nauðsyn til að vera með stöðugt gengi. Það er alveg ljóst. Spurningin er hins vegar: Hver á að bera herkostnaðinn af þeirri gengisstefnu, alþýðan í frystihúsunum eða þeir sem hafa verið að reisa verslunarhallirnar og safna auði í þessu landi og sem sérstaklega hefur verið opnað fyrir til þess að þeir geti fjárfest fyrir hann í Tokyo, New York og London?

Við erum líka á móti millifærslustefnu í fjármálakerfi landsins, hæstv. fjmrh., en við gerum okkur líka grein fyrir því að það að leggja fram fjárlagafrv. eins og hæstv. fjmrh. hefur gert, þar sem millifærslustefnan hefur ekki pólitískan stuðning ríkisstjórnarflokkanna, er líka sýndarmennska. Fjmrh. hefur enga tryggingu fyrir því í dag að fjárlagafrv., þegar upp verður staðið, beri svipmót þess að hætt verði við þessa leið. Við eru líka sammála því að það eigi að nota góðærið til að draga úr erlendum lánum. Það er meira að segja fátt sem við höfum sagt meira og oftar á undanförnum árum en einmitt það og vöruðum við í kosningabaráttunni viku eftir viku og fund eftir fund, þ.e. þeim hættum sem í því felast.

Við erum líka sammála því að það þurfi að taka skattsvikin til meðferðar, en það hvarflaði reyndar aldrei að okkur að fyrsta aðferð hæstv. fjmrh. til þess yrði að leggja matarskatt á almenning í stað þess að taka á þeim fyrirtækjum og öðrum sem raunverulega hafa stolið undan og sem almenningur á venjulega við þegar talað er um skattsvikara. Almenningur hefur aldrei skilið þessa skattsvikastefnu Alþfl.; að almenningur sem ekki hefur borgað söluskatt af matvælunum sínum, mjólkinni, fiskinum og kjötinu, sé skattsvikarar. Það er einmitt það sem hæstv. fjmrh. var að segja hér í dag, að matarskatturinn væri fyrsta aðferðin til að lækna þessi skattsvik. En það hefur ekki heyrst mikið frá honum um hin.

Sama gildir um nýja verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Við höfum verið miklir talsmenn þess að hún sé nauðsynleg í okkar landi. Það er ekki aðferð að koma henni á að henda hér inn fjárlagafrv. þar sem allir sveitarstjórnarmenn á landinu standa á gati yfir hvernig eigi að framkvæma eða hvað það feli í sér. Halda menn að það sé aðferðin til að koma á nýrri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að sýna slíkan valdshroka að tilkynna úr Stjórnarráðinu einn góðan veðurdag að svona eigi þetta að vera og veita engin svör þegar hundruð sveitarstjórnarmanna um allt land spyrja hvernig og hvað næst? Slíkar aðferðir eyðileggja alla raunhæfa möguleika til að koma á nýrri verkaskiptingu í þessum efnum vegna þess að þær skapa bara tortryggni.

Þannig væri full ástæða til að fara í gegnum þær átta spurningar sem hæstv. fjmrh. beindi til mín. Ég hef kannski orðið aðeins langorðari en ég ætlaði mér í upphafi vegna þess að ég taldi rétt að fara ekki úr ræðustólnum án þess að hafa reynt aðeins að reifa þó ekki væri nema í stuttu máli með fáeinum atriðum það sem hæstv. fjmrh. óskaði eftir að yrði sérstaklega reifað.

Herra forseti. Því miður er það þannig að þessi umræða hefur leitt í ljós að tími blekkinganna í íslenskri efnahagsstjórn á að halda áfram. Atvinnuvegirnir hafa ekki sannfæringu fyrir því að gengisstefnan verði áfram óbreytt. Forustumenn launafólks hafa heldur ekki trú á því. Hluti af stjórnarflokkunum hefur ekki heldur þá trú. Forustumenn launafólks vita ekki hvernig þeir eiga að ganga næstu skrefin til viðræðna við ríkisvald og atvinnurekendur og ráðherrarnir hafa ekki sýnt þá lágmarkskurteisi að taka formlega afstöðu til þess erindis sem forseti Alþýðusambandsins hefur sent ríkisstjórninni. Þess vegna verðum við enn að búa við ríkisstjórn, þrátt fyrir samanlagða hagfræðimenntun allra þeirra sem í henni sitja, sem að vísu finnst ekki í ráðherraliði Sjálfstfl. en hjá hinum, sem minnir mann á ógæfudagana á síðustu mánuðum ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar 1978–1979, minnir á markleysið og stjórnleysið veturinn 1982–1983 í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Það er þess vegna sem bæði þjóðin og þingið spyr þessa dagana: Hvað verða það margir mánuðir enn þangað til þjóðin fær raunverulega ríkisstjórn sem hættir þessum blekkingarleik og tekst á við efnahagsstjórnina í landinu?