03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

143. mál, skyldusparnaður ungs fólks

Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svarið. Með það er ég fullkomlega ánægður. Ég geri mér grein fyrir því að það er erfitt að breyta vaxtaprósentunni einni og sér. Það er margt fleira sem þarf að koma til. En ég hvet samt til þess að menn hraði störfum í þessum efnum af þeirri ástæðu að í dag eru 1900 millj. kr. sem er innstæða á skyldusparnaði hjá Byggingarsjóði ríkisins. Ungt fólk, sem þarf að sæta því að fá greidda 3,5% vexti í stað þess að geta ávaxtað þetta með ríkisskuldabréfum, tapar 95 millj. kr. á ári í vaxtamun með því að geta ekki nýtt sér aðra vaxtamöguleika úti á markaðnum. Því hvet ég hæstv. félmrh. til að hraða störfum en þakka svarið.