03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

151. mál, afplánunarmál

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Ég mæli fyrir fsp. sem ég hef sett fram ásamt Inga Birni Albertssyni á þskj. 163.

Fsp. þessari hefur dómsmrh. að hluta til svarað. Engu að síður ætla ég að lesa þessa fsp. og óska ég eftir greinargóðum svörum við þessum spurningum. Fyrirspurnin er í fjórum liðum.

Fyrst er spurt hvort einhver áform séu uppi í þá átt að koma á deildaskiptingu fanga á Litla-Hrauni er taki mið af góðri hegðun, eðli brots, tímalengd refsivistar eða öðrum atriðum, eins og t.d. ungum aldri eða síafbrotamennsku.

Í öðru lagi er spurt hvað hafi verið gert í því á undanförnum árum að auka vinnuframlag fanga á vinnuhælum.

Í framhaldi af því er spurt hvort í undirbúningi sé að koma á átta stunda vinnudegi fanga. Í tengslum við þessa spurningu skal það upplýst að engin vinnuskylda er á föngum sem gista í Hegningarhúsinu að Skólavörðustíg 9 þótt þeir þurfi að vera þar í lengri tíma, aðallega vegna þess að engin aðstaða er fyrir hendi. Á vinnuhælinu á Litla-Hrauni er vinnuskyldan þrír tímar, einn og hálfur tími fyrir hádegi og einn og hálfur eftir hádegi.

Þriðja spurningin, sem við berum fram við dómsmrh., er hvort fyrirhugað er að ráða bót á afplánunarmálum kvenfanga. Eins og kom fram í ræðu minni varðandi fsp., sem sett er fram á þskj. 162, eru nú þrír kvenfangar og tveir þeirra gista núna Skólavörðustíg 9 og einn er á Bitru, bóndabýli fyrir austan fjall.

Í fjórða og síðasta lagi er spurt: Eru gerðar á því reglubundnar athuganir hvort fíkniefni eru notuð í fangelsum hér á landi? Ef svo er, hvað hafa þær athuganir leitt í ljós og hvað hyggst ráðherra fyrir í þeim málum? Þessari síðustu spurningu er bætt við vegna þess orðróms sem alltaf er í gangi að fangar séu meira og minna „uppdópaðir“ á meðan á afplánun stendur. Ekki vil ég leggja mat á það hér en vænti þess að fá greinargott svar frá dómsmrh. um þetta efni.

Að mati okkar fyrirspyrjenda er mörgu ábótavant í fangelsismálum og þá sérstaklega því er lýtur að þeirri meðferð sem fangar fá í íslenskum fangelsum og á vinnuhælum. Við teljum að fyrir löngu sé búið að varpa fyrir róða þeim tilgangi sem refsivist á að þjóna, að byggja upp þá menn sem þangað hafa lent og að gera a.m.k. tilraun til að gera þá að betri mönnum en þeir voru áður til að koma í veg fyrir að þeir haldi áfram uppteknum hætti er þeir losna.

Í dag eru fangelsi eða vinnuhæli bara geymslustaðir í þann tíma sem dómar hljóða upp á í hvert og eitt skipti og lítið er gert í því að koma þeim mönnum til aðstoðar sem í upphafi afplánunartímans eða síðar vilja taka sig á og breyta um lifnaðarhætti. Á Litla-Hrauni, t.d., hafa fangar, sem hafa viljað bæta sig, farið fram á að vera settir í einangrunarklefa til að koma sér út úr því samfélagi sem þar ríkir.

Þær tölur sem liggja fyrir um endurkomu fanga benda til þess að eitthvað sé að í fangelsiskerfinu. Samkvæmt þessum tölum lenda 60% af þeim mönnum sem einu sinni hafa gist fangelsin inn í þau aftur. Þetta segir manni að ef stemma á stigu við afbrotum er vísasta leiðin að reyna að búa svo um hnútana að þessir menn komi ekki þar inn aftur.