03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

151. mál, afplánunarmál

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og þá sérstaklega það að hann er með í undirbúningi að koma á deildaskiptingu fanga á Litla-Hrauni. Ég tel að þetta sé eitt það brýnasta mál sem blasir við núna. Ég þekki aðeins reynslu nágrannaþjóðanna á þessu sviði. T.d. er deildaskiptingin það eina virka í Svíþjóð í þessu efni. Þar hefur reynslan sýnt að endurkoma þeirra sem hafa verið látnir skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að mega fara í svokallaða efri deild er miklu fátíðari en hinna.

Ég saknaði hins vegar mjög verulega í svari dómsmrh. að það er ekki í undirbúningi að auka vinnuframlag fanga. Ég tel að það sé eitt brýnasta verkefnið fyrir utan deildaskiptinguna að þeir aðilar sem gista Litla-Hraun fái a.m.k. að vinna 8 tíma, ekki eins og nú er 11/2 tíma. Það er ófullnægjandi með öllu.

Niðurstaðan af þessu, sem fram kom í máli dómsmrh., er sú að dómsmrh. hyggst bæta aðstöðu kvenfanga, en gera ekki mikið annað en koma á þessari deildaskiptingu.

Ég sakna þess einnig mjög að ekki skuli vera ráðist í byggingu nýs fangelsis, fangelsis sem byggt er með þarfir fanga eða þarfir þjóðfélagsins fyrir augum að því leytinu til að bæta úr aðstöðu fanga og líta á þann tilgang, sem refsivist á að hafa, að bæta þá menn sem fara inn.

Ég vil að síðustu svara því sem hv. 6. þm. Reykn. talaði um hér áðan varðandi fangelsislögin og leyfa mér að segja að þar er ekki tekið á fangelsismálum sem slíkum. Þar er ekki tekin afstaða til þess hvort eigi að byggja fangelsi og hvernig meðferðin er sem slík. Það sem öllu varðar er það sem ég kem hér inn á, hvernig á að leysa úr þeim málum. Í frv. er aðeins talað um réttarstöðu fanga og skyldur þeirra.