03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

151. mál, afplánunarmál

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég tek undir þakkir til fyrirspyrjenda um þessi mál. Það hafa um árabil margir þm. orðið til þess að víkja að þessum málum á hinu háa Alþingi, en það er eins og minna verði um framkvæmdir þrátt fyrir loforð ýmissa hæstv. ráðherra.

Þessi mál eru í stuttu máli öll í ólestri. Í fangelsum landsins ægir saman geðsjúku fólki, atferlisbiluðu fólki og öðrum sem enga samleið eiga í raun og veru undir sama þaki eða undir sömu meðferð. Í næsta fyrirspurnatíma mun ég þess vegna beina fsp. til hæstv. heilbrmrh. um meðferð á geðsjúku fólki sem brotið hefur af sér.

Ég freistaði þess hvað eftir annað við gerð lögræðislaga á sínum tíma, sem samþykkt voru fyrir um það bil þremur árum, hygg ég, að koma inn ákvæðum þar sem nefnd fylgdist með lögræðissviptingu, hvenær hún hæfist og hvenær henni lyki, og mun á þessu þingi enn reyna að freista þess að fá þau ákvæði inn í lögræðislög. Ég vildi þess vegna minna á það hér. Við vitum að alvarlega geðsjúkt fólk er geymt í fangelsum án nokkurrar meðferðar og ágreiningur hefur verið uppi milli heilbrigðisyfirvalda og dómsvalda um hvað gera skuli við þetta fólk og vægast sagt sorgleg og ósmekkleg umræða hefur farið fram um það á þessum vetri í kunnu tímariti hér í bæ þar sem heilbrigðisyfirvöld hafa lýst óskiljanlegri afstöðu sinni til þessara mála. Ég fagna því í hvert skipti sem umræða hefst um þessi mál því að hér er smánarblettur á okkar þjóðfélagi.