03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

152. mál, aðgerðir vegna komu fulltrúa Sea Shepherd samtakanna

Fyrirspyrjandi (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég flyt fsp. til hæstv. dómsmrh. um fyrirhugaðar aðgerðir vegna komu fulltrúa Sea Shepherd samtakanna til Íslands. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp fsp. Hún er svohljóðandi:

„Til hvaða aðgerða hyggjast dómsmálayfirvöld grípa ef fulltrúar Sea Shepherd samtakanna, þar á meðal yfirlýstir skemmdarverkamenn, koma til landsins innan skamms, sbr. ummæli þeirra í fjölmiðlum 25. nóv. sl. þess efnis m.a. að verði þeir ekki ákærðir líti þeir á það sem viðurkenningu á réttmæti aðgerða þeirra í hvalstöðinni og Reykjavíkurhöfn?"

Ég vil gera hér nokkra grein fyrir því hvers vegna fsp. er fram komin.

Eins og hv. þm. er kunnugt um gerðist það í byrjun nóvember í fyrra að skemmdarverkamenn réðust inn í íslenska lögsögu, sökktu tveimur skipum í Reykjavíkurhöfn og frömdu skemmdarverk á eignum Hvals hf. í stöð félagsins í Hvalfirði með þeim afleiðingum að af varð milljónatjón sem ekki hefur enn fengist bætt. Forustumenn Sea Shepherd samtakanna lýstu því yfir að þeir hefðu staðið að þessum ofbeldisverkum og höfðu jafnframt uppi hótanir þess efnis að þeir mundu halda áfram að fremja hryðjuverk hér á landi í þeim tilgangi að stöðva hvalveiðar Íslendinga.

Segja má að landsmenn hafi vaknað upp við illan draum. Bæði var það að hingað til höfðu Íslendingar verið lausir við heimsókn hryðjuverkamanna og eins hitt að fólk var furðu lostið yfir því hvernig þessir menn gátu komist inn í landið, dvalið hér þó nokkurn tíma og síðan látið til skarar skríða án þess að eftir því væri tekið af viðkomandi löggæsluyfirvöldum. Þetta sést m.a. af umræðum utan dagskrár á hinu háa Alþingi skömmu eftir að atburðir þessir áttu sér stað, nánar tiltekið þann 11. nóv. í fyrra.

Í þessum umræðum lýsti þáv. hæstv. forsrh. því yfir, en hann gegndi þá störfum utanrrh., að mál þetta yrði tekið til mjög alvarlegrar athugunar og að hann hefði falið dómsmrh. að undirbúa nauðsynlega málshöfðun eða málskot til þeirra þjóða sem kynni að þurfa að leita til. Jafnframt lýsti hann því yfir að ríkisstjórnin hefði skipað nefnd sem væri að kanna öryggismál. M.a. væri henni ætlað að skoða hvernig fylgst yrði með erlendum mönnum hér á landi. Síðan hefur verið fremur hljótt um þetta mál og engan veginn ljóst hvað íslensk dómsmálayfirvöld hafa aðhafst.

Í Morgunblaðinu þann 25. nóv. sl. er skýrt frá viðtali er blaðið átti við Paul Watson, forsprakka Sea Shepherd samtakanna. Í þessari frétt segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:

"„Ég kem til Íslands skömmu eftir áramót.“ Hann sagði að ferðina til Íslands ætlaði hann öðrum þræði að nota til að bregðast við háhyrningaráninu, eins og hann tók til orða. Watson vildi ekki tjá sig um í hverju viðbrögð hans yrðu fólgin. Hann sagði að samtök sín fylgdust vel með málum vestra og mundu beita sér af afli gegn því að veitt yrðu leyfi til að flytja skepnurnar inn til Bandaríkjanna eða Kanada.

En Watson kvaðst einnig eiga annað erindi hingað til lands: „Ég vil gefa íslenskum stjórnvöldum færi á að standa við stóru orðin sem voru viðhöfð um okkur í samtökunum fyrir ári. Þá vorum við kölluð hryðjuverkamenn og glæpamenn og hótað kærum og jafnvel framsali til Íslands. Kærurnar hafa aldrei borist og ekki hefur verið reynt að fá okkur framseld. Íslendingar virðist ekki hafa áhuga á að fylgja þessum ásökunum eftir með aðgerðum, en nú fá stjórnvöld færi á að ákæra mig fyrir að eiga þátt í að sökkva hvalbátunum og geta rekið málið fyrir dómstólum.“"

Enn fremur segir Paul Watson í lokin á þessu viðtali: „Ef ég verð ekki ákærður, þá lítum við á það sem viðurkenningu á réttmæti aðgerðanna.“

Einnig kemur fram í frétt Morgunblaðsins þann 1. des. sl. að Paul Watson hafi sent forseta Íslands bréf þar sem hann heimtar ákæru eða afsökunarbeiðni. Aðspurður um þessa kröfu svaraði hæstv. dómsmrh. því til í Dagblaðinu í gær að Paul Watson gæti ekki sett íslenskum stjórnvöldum skilyrði. Það er að sjálfsögðu rétt, en það getur þó ekki verið að sama skapi rétt að það sé látið aðgerðarlaust að brotið sé gegn fullveldisrétti íslenska ríkisins og framin hér gróf hegningarlagabrot eins og búast má við í samræmi við yfirlýsingar fulltrúa Sea Shepherd. Afstaða manna til hvalveiða á ekki að breyta neinu hér um. Því spyr ég, hæstv. forseti: Til hvaða aðgerða hyggjast dómsmálayfirvöld grípa?