03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

152. mál, aðgerðir vegna komu fulltrúa Sea Shepherd samtakanna

Fyrirspyrjandi (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svör hans. Hér er ekki farið fram á að hann styðji þessi samtök með fjáröflun heldur að hann haldi uppi lögum í þessu landi. Þó treysti ég því að dómsmálayfirvöld muni koma í veg fyrir skemmdarverk af því tagi er hér voru framin fyrir ári. Verði opinber ákæra gefin út á hendur fulltrúum Sea Shepherd samtakanna kemur sú ákvörðun alfarið til kasta ríkissaksóknara. Það skortir þó ekki lagaákvæði sem snerta komu og veru óæskilegra útlendinga hér á landi. Í því sambandi má benda á lög nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum. Þar er í 10. gr. heimild til að meina útlendingi landgöngu m.a. í 6. tölul., en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Ef ætla má af fyrri hegðun hans eða af öðrum ástæðum að tilgangur hans með komu hingað til lands eða til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar sé að fremja skemmdarverk, stunda njósnir eða ólöglega upplýsingastarfsemi . . .“

Enn fremur getur dómsmrh. skv. 4. mgr. meinað útlendingi landgöngu, eins og segir í greininni, með leyfi forseta: "... að hann sé kominn hingað til starfa eða athafna sem eru ólöglegar, ósæmilegar eða hættulegar hagsmunum ríkis eða almennings eða högum útlendingsins er að öðru leyti svo háttað að vist hans hér á landi megi teljast hættuleg eða bagaleg hagsmunum ríkis eða almennings.“

Jafnframt má ákveða skv. 14. gr. að lagt sé bann við endurkomu til landsins annaðhvort tímabundið eða fyrir fullt og allt. Það er því ljóst að til margra aðgerða má grípa ef fulltrúar Sea Sepherd samtakanna ætla að koma hingað til lands. En ég ítreka þakkir mínar til hæstv. dómsmrh.