03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

154. mál, deilur um forræði barna

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir):

Herra forseti. Eftir áratuga þögn hefur á undanförnum missirum orðið mikil og nauðsynleg umræða um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hér á landi og það er vel að sú umræða hefur nú náð inn í sali hins háa Alþingis. En eins brýnt og það er að sporna við ofbeldi af því tagi, m.a. með réttarbótum og með opinni umræðu, er ekki síður mikilvægt að huga að andlegu ofbeldi sem börn eru beitt. Eitt hið grimmilegasta þeirrar tegundar er þegar foreldrar deila um forræði barns við hjónaskilnað eða slit á sambúð. Ofan á gerbreytta heimilishagi og það óöryggi sem röskun á öllu daglegu lífi hefur í för með sér beita foreldrar barninu oft sem eins konar vopni hvort gegn öðru eða þeir krefjast þess, ýmist með blíðuhótum eða heitingum, að það taki afstöðu sér í vil og þá gegn hinu foreldrinu. Þetta er sorgleg staðreynd og sorgarsaga sem allt of margir hafa kynnst og bitnar fyrst og síðast á barninu.

Deilur um forræði barna fara um dómsmrn. til umfjöllunar í barnaverndarnefnd, þaðan aftur í ráðuneytið og hluti þeirra síðan áfram til barnaverndarráðs ef um erfið eða flókin mál er að ræða. Þá koma oft lögfræðingar og sálfræðingar til skjalanna.

Sá langi tími sem umfjöllun opinberra aðila tekur í þessum málum er sársaukafyllstur fyrir alla aðila máls. Litlar upplýsingar liggja fyrir um fjölda og meðferð slíkra mála hér á landi. Ég hef því leyft mér, herra forseti, að flytja ásamt 4. þm. Suðurl. svofellda fyrirspurn til dómsmrh.:

„1. Hversu margar deilur um forræði barna komu til kasta dómsmrn. á árunum 1983, 1984, 1985 og 1986?

2. Hversu mörg börn áttu hlut að máli á hverju ári um sig?

3. Hversu mörgum þessara mála vísaði ráðuneytið til úrskurðar barnaverndarráðs?

4. Hversu langur tími leið að meðaltali frá því deila um forræði barns kom til kasta ráðuneytisins þar til deilumálið hlaut afgreiðslu? Hver var lengsti tíminn og hver sá stysti?

5. Eru uppi í dómsmrn. áform um að stytta þann tíma sem hér um ræðir og þá hvernig?

6. Hversu algengt er að börn gangist undir sálfræðirannsókn vegna deilu foreldra um forræði? Eru dæmi þess að sama barn þurfi að gangast undir tvær slíkar rannsóknir, fyrst á vegum barnaverndarnefndar og síðan á vegum barnaverndarráðs?

7. Hversu algengt er að foreldrar ráði lögfræðinga sér til aðstoðar við málareksturinn?"