15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á síðustu orðum hæstv. fjmrh. Það hefur engum þm., nema e.t.v. einhverjum af hæstv. ráðherrum, ég efast um nokkrum landsmanni, dottið það í hug að ríkisstjórnin hefði ákveðið að gera alls ekki neitt. Hún þarf ekki að hæla sér af því að hún skeri ekki niður í öllum málaflokkum. Hann talar um auknar fjárhæðir í framkvæmdir á ýmsum sviðum, vegagerð, flugvallagerð o.fl. Er ekki verið að hækka bensínið? Er ekki verið að taka meira af umferðinni? Það bjóst enginn við því, jafnvel ekki stjórnarandstaðan, hin bölvaða, sem svo hefur verið lýst hér, að ríkisstjórnin væri að gefa kost á sér til að stjórna upp á það að hætta að leggja fé í opinberar framkvæmdir yfirleitt á einu bretti, með einu pennastriki eins og ég kallaði það einu sinni. Ég óska ríkisstjórninni og fjmrh. sérstaklega til hamingju með að vera ekki búnir að ná þeim áfanga enn þá. Og það eru gleðitíðindin frá hæstv. fjmrh. til þjóðarinnar að eitthvað skuli þó eiga að gera við þá peninga sem koma úr þeirri síauknu skattheimtu sem við lesum um á hverjum degi. Til hamingju, hæstv. fjmrh.

Ég ætla að reyna að halda ekki mjög langa ræðu. En ég verð að segja það alveg eins og er að mig furðar ekki þótt flest mótmælabréf til hæstv. fjmrh. komi frá fyrirtækjum. Það er einfaldlega vegna þess að almenningur stendur ekki í slíkum bréfaskriftum. Hann kemur frekar og talar við viðkomandi opinbera aðila ef hann hefur aðgang að þeim. En hurðin á fjmrn. var opin allan daginn þegar ég var þar. Hún er lokuð síðan ég fór þaðan. Almenningur hefur engan aðgang að að koma sínum kvörtunum á hefðbundinn hátt á framfæri. Hann stendur ekki í bréfaskriftum. Ég trúi hæstv. fjmrh. þegar hann segir að flest mótmælabréfin komi frá fyrirtækjum. En það er heldur ekki nema eðlilegt.

Hæstv. fjmrh., eftir að hafa gefið þessar upplýsingar, gat þess að skattlagning á almenning í landinu væri tiltölulega lítil og létt, en aðalupphæðin væri á atvinnulífið sem væri um 1 milljarður 650 þús. eða 1650 millj. Heldur virkilega nokkur maður að þessi skattlagning sé ekki á almenning? Haldið þið, hæstv. ráðherrar, að skattlagning á fyrirtæki þýði bara að atvinnurekandinn, hinn vondi, greiði sjálfur 1600 millj.? Auðvitað fer allur þessi kostnaður yfir á fólkið þannig að það eykur óbeina skattlagningu á sama fólk sem nú er að fá, til viðbótar við það sem það áður greiddi í háu verði, söluskatt upp á 10%. Ég hef ekki gert þá ráðstöfun ríkisstjórnarinnar að neinu umræðuefni hér að söluskatturinn er settur á matvæli umfram það að mótmæla því. Það er verið að tala um herta skattheimtu. Það er verið að búa til þrjú skattheimtustig, þrjú innheimtustig á söluskatti, sem sagt að opna enn þá fleiri leiðir til skattsvika en fyrir voru. Það er 0%, það er 10% og það er hinn hefðbundni skattur sem er yfir 25%. Og hver ætlar að hafa eftirlit með þessu? Ég hefði gaman af að sjá hvernig ríkisstjórnin ætlar að hafa eftirlit með innheimtunni á þessum skatti.

Þetta er fráleitt. Svo kemur hér upp hv. stjórnarþm. og segir að það sé stefnt að einu og sama söluskattsprósentustiginu. Hvenær á það að koma og hvað verður þá söluskattsstigið hátt á matvörunni? Það var í minni tíð talað um að leggja söluskatt á allt og reyna þá að jafna söluskattinn, hafa hann eins á allar vörur. Það var ekki gert vegna þess að það var ekki samstaða þá í ríkisstjórninni um að gera það af því að söluskattsstigið á matvörunni þurfti að vera svo hátt og það vannst heldur ekki tími til þess að móta nýtt flókið kerfi um það hverjir áttu að fá uppbót frá því opinbera vegna hækkana á matvælum, vegna hækkana á söluskatti. Átti hálaunamaðurinn barnlausi eða barnlaus hátekjuhjón að fá sömu prósentu í endurgreiðslu eða styrk og maðurinn sem var með 10–12 manna fjölskylduna eins og kom fram hjá einum ræðumanna áðan? Það er einfaldlega vegna þess að kerfið fannst ekki til að gera þetta réttláta ráðstöfun. En Alþfl. veigrar sér ekki við því að ráðast á þá sem hann telur sig vera málsvara fyrir. Það verður ævarandi blettur og skömm fyrir Alþfl. sem er að ske núna hér og ég verð að segja alveg eins og er að ég harma það ekkert.

Það var talað um það hér af hv. 3. þm. Norðurl. e. að við ættum ekki að koma og deila á ríkisstjórnina, við ættum að koma með tillögur. Þessar umræður eru ekki til að koma með tillögur og ég veit ekki til þess að það sé leyft á þessu stigi að gera neinar tillögur. Maður, sem er vanur þingsköpum og hefur átt tiltölulega langa setu á Alþingi, á að vita betur, ekki að nota svona málflutning til að gera andstæðinginn tortryggilegan. Það er ljótur leikur og á ekki heima hér.

Að sjálfsögðu komum við með tillögur á réttum tíma og réttum stað. Það verður hér þegar þar að kemur svo að hv. þm. þarf ekki að láta þær fara fram hjá sér. Og ef hann vill forvitnast fyrir fram um í hverja átt þær tillögur verða getur hann lesið stefnuskrá Borgarafl. betur en hann hefur gert. Ég veit að hann hefur þó gert það.

Út af fyrir sig er fróm ósk að biðja um tillögur til að betrumbæta þetta fjárlagafrv. og búa til einhverja efnahagsstefnu sem fólkið fær trú á frá stjórnarandstöðunni. Ég skil það vel. Þetta er fróm ósk og ég met það. Þetta er traustsyfirlýsing á stjórnarandstöðuna. En eitt sló mig, ég get ekki annað en hugsað út frá því, þegar kemur fram hjá hv. þm. að einkageirinn hafi svikið fengið frelsi. Þetta fengna frelsi einkageirans er aðalbaráttumál Sjálfstfl. og ein af þeim frumhugsjónum sem hafa skapað það afl sem hefur sameinast undir nafni Sjálfstfl. allan þann tíma sem hann hefur verið til. Og því vil ég segja að allt sem kom fram hjá hv. þm. um nýfrjálshyggjuna er eins og talað út úr mínu brjósti. Við erum sammála um þetta allt saman. Eiginlega ætti ég að vera að bjóða honum til samstarfs í Borgarafl. því að það er líka rétt að með nýfrjálshyggjunni skapast tvær þjóðir. Það er ekkert spursmál að það er orðið svo. Ég er líka sammála honum um það.

En eitt vil ég segja, bæði við hæstv. fjmrh. og hv. 3. þm. Norðurl. e., að þó að tilkoma lottós sé mikilvæg fyrir íþróttahreyfinguna og í upphafi stóð til að íþróttahreyfingin ein, og þá á ég náttúrlega við alla þá sem tilheyra íþróttahreyfingunni eða Íþróttasambandinu sem eru ungmennafélögin o.fl., hefði einkaleyfi til reksturs frá einkaleyfishöfum og eigendum lottós erlendis. Þá var Öryrkjabandalagið sett þar inn í. Öðruvísi komst það ekki í gegnum Alþingi. Íþróttasambandið fær nú þá upphæð sem fjmrh. gat um og verður í ár ef ég man rétt hans orð um 105 millj. eða eitthvað í kringum það.

En um hvað erum við að tala, hæstv. fjmrh.? Ég veit ekki hvort hann er á sama fundi, en ég er að tala til hæstv. fjmrh. Um hvað erum við að tala þegar við erum að tala um íþróttahreyfinguna? Við erum að tala um skipulagða sjálfboðaliðsstarfsemi sem gerir æskulýð þessa lands það gagn, sem hv. 5. þm. Vesturl. gat um áðan, að það sparar á heilbrigðis sviðinu stórar fjárupphæðir, heldur unglingum frá óreglu og þroskar og byggir upp andlega og líkamlega. Þessi sjálfboðaliðsvinna var á síðasta ári yfir hálfur milljarður í rekstri, yfir hálfur milljarður, sem samtakamáttur þeirra sem leggja á sig endurgjaldslaust að starfa fyrir íþróttahreyfinguna færir henni til þess að starfsemin detti ekki niður. Upp í þennan hálfa milljarð fékk íþróttahreyfingin, ég bið menn að hafa í huga að þá á ég við ungmennahreyfinguna líka því að hún telur sig í Íþróttasambandinu, 24 millj. frá ríkissjóði sem var helmingi meira en hún fékk áður en ég varð fjmrh. Og þó svo að hún skapi sér tekjulind sem gefur henni sem svarar 1/5 af rekstrarkostnaði hennar á sl. ári er það engin ölmusa frá ríkissjóði eða Alþingi sem hún er að þiggja. Og það er furðulegt að það skuli koma frá opinberum aðilum seint á 20. öld, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl., slíkt vanmat á starfsemi íþróttahreyfingarinnar í landinu.

Nei, ég hef tekið dæmi um það sem komið hefur fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. og ummæli hans. Ég hef tekið dæmi um hugsunarhátt og þankagang forustumanns Alþfl., hæstv. fjmrh. Og ég hlustaði á gamansemi hv. 10. þm. Reykv. líka með athygli. Við eigum langan samstarfstíma bæði í borgarstjórn og hér á Alþingi áður. Það samstarf hefur verið gott. Ég held að það hafi verið gagnkvæmt traust á milli og við höfum starfað vel saman. Ég hef aldrei vitað hv. 10. þm. Reykv. tala af eins lítilli alvöru um þó stóralvarlegt mál eins og efnahagsmál þjóðarinnar eru og hann gerði hér í kvöld. Ræðan fór eins og kannski hjá fleirum meira út í að skoða og stúdera aftur og aftur karakter frummælanda sem kemur oft fyrir.

En það sem ég ætla að koma að og furðar mig er sú staðreynd sem ég ætla að mótmæla hjá hv. 10. þm. Reykv. En hann sagði: Það er undravert - takið eftir - að þessir þrír flokkar stjórnarinnar skuli hafa náð saman um efnahagsstefnu. Ég er alveg sammála þessu. En tilfellið er að þeir hafa ekkert náð saman. Og hann er fyrsti maðurinn með ummælum sínum í dagblöðum og fréttamiðlum til að undirstrika að það er engin samstaða milli þessara þriggja flokka. Það er undravert að þessum flokkum hafi nokkurn tíma dottið í hug að þeir gætu náð saman ef þeir fara nokkuð eftir hugsjónum eða stefnum sínum. Þær fara ekki saman, lífsskoðanir þessara flokka. Þess vegna ná þeir ekki saman og þess vegna er efnahagsstefnan í þeim molum sem raun ber vitni.

Hæstv. fjmrh. talar um flutning á verkefnum til sveitarfélaga. Hann talar um það eins og þetta sé afrek sem margir hafa talað um, margir hafa viljað gera, allir hafa verið skotnir í en engum tekist fyrr en nú. En hvernig er þetta gert? Þetta er gert án samráðs við sveitarfélögin án þess að vita hvort þau treysta sér til eða geta yfirleitt tekið að sér hlutverkið, ekki bara fjárhagslega. En hvað fjárhagshliðina snertir þá á að koma aukið framlag til sveitarfélaganna úr Jöfnunarsjóði. Það hefði ég orðað öðruvísi, þ.e. minna skert framlag úr Jöfnunarsjóði. Það á ekki að auka það. Það er búið að skerða jöfnunarsjóðsframlag til sveitarfélaganna og það er búið að gera það oftar en einu sinni, en nú á að skerða það minna. En á sama tíma er skerðing á lögbundnum framlögum til þessara sömu málaflokka. Hvaða sjónarspil er þetta og hvað á þetta að þýða? Þessi blekking má ekki eiga sér stað. Við skulum kalla hvítt hvítt og svart svart og taka afleiðingunum af því að segja satt.

Söluskattsundanþágur er ekki frjálst í höndum fjmrh. að veita eða veita ekki. Þegar ég var fjmrh. fékk ég alls konar beiðnir um undanþágur frá söluskatti. Það var í flestum tilfellum sem fjmrh. hafði ekki heimild til að veita þær samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk hjá mjög trúverðugu starfsfólki fjmrn. En að sjálfsögðu veit fjmrh. ekki neitt um hvað hann má eða má ekki fyrr en hann er búinn að vera lengi í embætti. Ég var ekki nógu lengi í embætti til að vita allt sem fjmrh. þarf að vita án þess að leita til fagmanna ráðuneytisins.

Það er mikið talað um skattsvik. Við höfum báðir fengið áminningu frá sama opinbera starfsmanninum um skattframtöl. En skattsvik eru allt annað og þegar ég var fjmrh. þá var það fullyrt úr þessum ræðustól af alþýðuflokksþm. að skattsvikin væru hvorki meira né minna en 10 milljarðar minnst. En ég hef lesið það í einhverju blaði, ég man ekki í hvaða blaði það var, haft eftir að mig minnir hæstv. fjmrh., þó þori ég nú ekki alveg að stóla á mitt minni, að söluskattssvikin væru nú 5 milljarðar. Þau hafa þá dottið niður um helming þrátt fyrir verðbólguna frá því að ég var fjmrh. og þangað til núv. hæstv. fjmrh. tekur við.

Hæstv. forseti. Ég vil segja fyrir mína hönd og ég veit það af umræðum sem hafa verið í Borgarafl. að við munum taka vel undir góð mál, við munum styðja öll þau góðu mál sem fram koma. En við munum berjast með kjafti og klóm gegn öllum árásum á almenning í landinu frá stjórnvöldum sem og öðrum. En við erum reiðubúnir til samstarfs um að gera breytingar á efnahagsstefnunni ef þess er óskað. Þess hefur ekki verið óskað. Við höfum haft fulltrúa á seinni stigum í einhverri fjárlagagerðarnefnd á vegum fjvn., sem hefur fylgst með gersamlega áhrifalaus, og í þeirri nefnd hefur verið meiri ágreiningur milli stuðningsmanna stjórnarinnar en við stjórnarandstöðuna.

Við erum reiðubúnir til samstarfs ef óskað er eftir. En ef aumkunarverð hæstv. ríkisstjórn heldur að hún geti haldið áfram að leika þann leik og náð árangri í að þegja Borgarafl. út úr málum eða stjórna málamyndinni hér á landi eiga hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn eftir að verða fyrir mjög miklum vonbrigðum vegna þess að rödd Borgarafl. í efnahagsmálum sem öðrum málum mun óma um land allt og hún mun ekki skilja eftir skúmaskot ef menn ætla að fela sig fyrir henni.