03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

Staða mála í þinginu

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. 4. þm. Norðurl. e. að það er með ólíkindum hvernig þingstörfin hafa verið á haustþinginu. Fyrir mig sem nýjan þm. hefur eitt sérstaklega vakið athygli mína. Það er að ég geri mér nú ljóst að það eru stjórnarandstöðu þm. sem hafa haldið þingstörfunum gangandi fram til þessa. Ef þeir í upphafi þings hefðu tekið sig saman um að leggja engin mál fram til að tefja nú ekki afgreiðslu mála af hálfu stjórnarinnar og stjórnarþingmannanna hefði væntanlega orðið að fresta fundum Alþingis fram undir lok nóvember. Það hefði ekkert verið að gera. Og hvað hefði þá orðið um virðingu Alþingis? Mér er spurn. Ég fæ ekki séð betur en stjórnarandstaðan, þó að það sé ýjað að því af hæstv. forsrh. að hún hafi takmarkað vit, hafi þó tryggt að hér hafi verið haldið uppi þingstörfum með eðlilegum hætti og fjallað um ýmis mál. Það eru langflest mál stjórnarandstöðunnar sem hér hafa verið til umræðu. Hin fáu þingmál stjórnarliðsins, sem hafa komið fram, drukkna í þeim málafjölda sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram. Kannski ætti stjórnarandstaðan að reyna einu sinni að gefa ríkisstjórninni og stjórnarþm. frið til að sinna sínum málum alfarið og leggja engin mál fram og sjá hvað þá gerist.

Ég tek undir með hv. 6. þm. Norðurl. e. að það væri sjálfsögð og eðlileg regla að öll meiri háttar stjfrv. væru lögð fram í upphafi þings. Þetta er svo sjálfsagt að það þarf varla að spyrja að því af hverju þetta er ekki gert.

Við skulum aftur taka fyrir þessi þingmál stjórnarandstöðu þm. sem eins og ég gat um áðan er ýjað að að kannski sé takmarkað vit í. Þau eru yfirleitt unnin af þeim sjálfum án þess að hafa þá hjörð sérfræðinga og embættismanna á bak við sig sem stjórnarliðarnir hafa. Það hafa verið lagðir fram miklir frumvarpabálkar af hálfu stjórnarandstöðuþm. sem þeir hafa einir séð um að vinna. Stjórnarliðsþm. og fyrst og fremst ráðherrarnir hafa hins vegar mikið lið embættismanna og starfsmanna til þess að vinna þessi mál fyrir sig, en það gengur ekkert eftir. Kannski eru þeir of margir sem vinna að þessum störfum fyrir hæstv. ráðherrana.