03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

Staða mála í þinginu

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegur forseti. Ég tel alveg ljóst að það er þörf á því að ræða þessi mál hér og ég fagna auðvitað áformum sem virðast uppi um fund til að ræða skipulag þingstarfanna hér það sem eftir er fram að jólaleyfi. Það er fyrsta tilraun hæstv. ríkisstjórnar til þess að leita samstarfs við þm. um framgang mála og ber að fagna slíku þó seint sé.

Mér var ekki ljóst, virðulegur forseti, hvernig átti að skilja tvíræð orð hæstv. forsrh hér áðan. Hafi hæstv. ráðherra ætlað sér að verða gamansamur þá fannst mér það takast heldur illa. Hafi hæstv. forsrh. ætlað að hæða stjórnarandstöðuna þá tókst það sömuleiðis mjög illa. Mér er þá ekki ljóst hvort hæstv. ráðherra er að kalla eitthvað annað yfir sig en stjórnarandstaðan hefur sýnt af sér fram að þessu. Ef svo er þá væri langbest að fá það bara hreint fram hér. Ég tel, og ég tek undir það sem aðrir ræðumenn hafa sagt, að stjórnarandstaðan hafi unnið málefnalega, lagt fram mál, dreift þeim eðlilega á þingtímanum og þar hafi um marga merka hluti verið að ræða þannig að ég vona að hæstv. ráðherra hafi verið að tala í alvöru, en tekist svona álappalega til að velja afstöðu sinni eða skoðunum sínum orð. Það hefði mátt misskilja hann og hefði mátt ímynda sér að hann væri að tala niðrandi um framlag stjórnarandstöðunnar, vit hennar og afl hér á Alþingi. En auðvitað getur það ekki verið af jafnsómakærum manni og hæstv. forsrh.

Virðulegur forseti. Staðan er alvarleg. Ég held að það sé alveg ljóst að fyrir dyrum standi, ef ekki tekst þá mjög vel að ráða fram úr málunum, eitthvert mesta öngþveiti sem menn hafa séð framan í í þingstörfum fyrir jólahlé. Hér eru ekki á ferðinni smámál. Hér eru jafnvel á ferðinni meiri háttar kerfisbreytingar í skattamálum og til viðbótar því er fjárlagaafgreiðslan í uppnámi vegna ágreinings stjórnarliðsins. Það er ekki ein heldur tvær nefndir að störfum úti í bæ, utan veggja Alþingis, sem út af fyrir sig er ástæða til að gagnrýna, til að ráða fram úr ágreiningsefnum um fjárlög. Þau mál eru ekki til meðferðar á sínum eðlilega vettvangi inni í fjvn. heldur heyra hv. þm. af því að nefndir þingmanna eða ráðherra séu að störfum til að leysa úr ágreiningi stjórnarliðsins um framlög til landbúnaðarmála eða annarra hluta. Þessi staða kemur sem sagt ofan í það að það er ætlunin að keyra í gegnum Alþingi frumvörp sem fela í sér meiri háttar kerfisbreytingar á sviði skattamála, tollamála, vörugjaldsmála og fleiri slíkra hluta á tveimur vikum. Ég held að það sé mikil goðgá að gera sér ekki grein fyrir því að hér er teflt á tæpasta vað.

Ég verð að segja að dreifing mála hjá hæstv. ríkisstjórn vekur nokkra furðu. Menn eiga því væntanlega að venjast að nýjar ríkisstjórnir hafi ákveðna stefnu, séu tilbúnar með sína stjórnarstefnu og viti hvernig þær ætla að reyna að koma henni í framkvæmd. Hér virðist akkúrat hið gagnstæða eiga sér stað, virðulegur forseti. Hæstv. ríkisstjórn virðist fyrst hafa sest í stólana, síðan farið að velta því fyrir sér hvað hún eigi að gera og undirbúa mál til að koma stefnu sinni eða stefnuleysi sínu fram. Þetta er mjög bagalegt og ég endurtek það sem ég hef reyndar sagt hér fyrr á þinginu, að það virðist þörf á því fyrir hæstv. ríkisstjórn ekki aðeins að ráða til sín fullfæran sáttasemjara til að koma málunum í skikkanlegt horf, heldur einnig verkstjóra.

Ég vil svo að lokum leggja á það áherslu, virðulegur forseti, að hér er ekki við forseta þingsins að sakast, hér er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast ef Alþingi fær á sig miður gott orð vegna þeirra vinnubragða sem nú blasa við þjóðinni. Hér er fyrst og fremst við verkstjórnarleysi ríkisstjórnarinnar að sakast.