03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

Staða mála í þinginu

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir minn hlut þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir það að vekja máls á þessu meginatriði sem hér er rætt, þingstörfin hvernig þau ganga fram og hvernig á þessum málum er tekið.

Hér var í upphafi minnst á virðingu Alþingis. Mér hefur komið það nokkuð kynlega fyrir sjónir sem tiltölulega nýjum þm. að sjá hvernig hæstv. ríkisstjórn stundar þingfundi. Menn sjá það hér núna á þessari stundu. Fyrir fáum mínútum var að ljúka svokölluðum fyrirspurnafundi sem er einu sinni í viku og menn sjá af þessum auðu stólum sem hér eru fyrir framan mig hvernig hæstv. ríkisstjórn ber virðingu fyrir þeim störfum sem hér eru unnin. Það ætti í rauninni að vera frumatriði að handhafar framkvæmdarvaldsins, ef þeir eru þm., sitji a.m.k. þennan þingfund út og að þeir taki á þann hátt þátt í þingstörfum að viðunandi sé.

En það sem fyrst og fremst rak mig upp í þennan stól af þessu tilefni voru þau orð hæstv. forsrh. sem hann lét falla um stjórnarandstöðuna. Hann svaraði því með hálfkæringi eða lét að því liggja að stjórnarandstaðan væri sá aðili hér í þessum sal sem væri kannski ávirðingar verð.

Ég vil vekja athygli á því að þau tekjuöflunarfrv., sem eru í undirbúningi og hæstv. forsrh. gerði að umtalsefni, eru búin að vera í undirbúningi síðan í haust, en eitt af þeim fyrstu kom hér fram í gær. Meðgöngutími þess frv. var með þeim hætti að milliþinganefnd sem um það fjallaði vann að því 7.–28. sept. Allan októbermánuð, allan nóvembermánuð var ríkisstjórnin með þetta fyrsta atriði þessa lagabálks í meðgöngu. Það var fyrst í gær sem fyrir þessu máli var talað. Þetta var fyrsta frv. af nokkrum fleiri sem hér munu koma fram síðar á þinginu.

Þess vegna vil ég biðja hæstv. forsrh. um alveg skýlaus svör og fá það ákveðið: Hvenær koma næstu mál fram? Verður það á mánudag í næstu viku? Verður það á þriðjudag? Það er mikið atriði fyrir þingheim að fá að vita það út í hörgul. Hvenær er von á þessum frumvörpum? Það eru örfáir dagar eftir af þingstarfi til jóla. Eins er með stjórn fiskveiða. Hvaða dag verður það frv. lagt fram hér til meðferðar á Alþingi? Það þýðir ekki að una því, hvort sem um er að ræða stjórnarandstöðuþm. eða stjórnarþm., að hæstv. forsrh. svari með hálfkæringi fsp. sem hér var lögð fram eins og áðan var gert. Svörin þurfa að vera skýr. Það er ekki bara um stjórnarandstöðuna að ræða, þjóðina sjálfa varðar um þetta mál.