15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, enda er komið lágnætti. Ég verð að segja að ég er undrandi yfir því að hæstv. fjmrh. er innilokaður í fílabeinsturni ef hann heldur að hann geti sannfært fólk úti á landi um að þessi ríkisstjórn og gerðir hennar beri hagsmuni þessa fólks fyrir brjósti.

Það eru mörg öfugmæli sem hafa heyrst hér, eins og t.d. það að til þess að minnka hallann við útlönd verði nauðsynlegt að setja skatt á matvörur hér innanlands. Ég hélt að það mundi verka öfugt. Er ekki ráðherranum það ljóst að með þessari aðgerð er verið að knýja fram neyslubreytingu í þessu þjóðfélagi? Það er alveg áreiðanlegt að þeir sem eru við landbúnað úti á landi skilja nákvæmlega hvað er að gerast. Þetta er jafngáfulegt og það að til þess að minnka þensluna á suðvesturhorninu sé nauðsynlegt að skera niður fjárveitingar út á land eins og manni virðist felast í fjárlagafrv.

Auðvitað er nauðsynlegt að minnka spennuna í þjóðfélaginu, en þá á að gera það á réttan hátt. Það á að taka peningana þar sem þeir eru til en ekki að níðast á þeim sem minna mega sín. Og þegar hæstv. ráðherrar voru að flytja sínar ræður áðan datt mér í hug:

Léttvæg ykkar reynast rökin,

réttlætið er horfið sjónum.

Þeir sem hafa breiðust bökin

bera minnst hjá þessum Jónum.