03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

147. mál, skoðanakannanir

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um setningu laga eða reglna um skoðanakannanir. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Halldór Blöndal, Karl Steinar Guðnason, Valgerður Sverrisdóttir, Óli Þ. Guðbjartsson og Þórhildur Þorleifsdóttir, með tilheyrandi númerum.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er kanni hvort rétt sé að setja lög eða koma á reglum um skoðanakannanir. Nefndin athugi sérstaklega hvort nauðsynlegt sé að sett verði löggjöf um framkvæmd, úrvinnslu og birtingu skoðanakannana er tengjast almennum kosningum, en einnig hvort taka eigi upp í lög ákvæði um skoðanakannanir sem tengjast mikilvægum eða umdeildum þjóðfélagsmálum og um skoðanakannanir almennt. Nefndin skal jafnframt kanna hvort fullnægjandi sé að koma á fót samstarfi þeirra sem fást við gerð skoðanakannana og tryggja að þeir setji sér starfs- og siðareglur sem eftir verði farið án þess að lagasetning komi til.

Í nefndina skal skipa einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu hvers þingflokks á Alþingi og tvo fulltrúa samkvæmt tilnefningum hvers aðila: Blaðamannafélags Íslands, félagsvísindadeildar Háskólans og Félags þjóðfélagsfræðinga. Formann nefndarinnar skipar ríkisstjórnin án tilnefningar.

Nefndin skal hraða störfum sínum og verði niðurstöður hennar ásamt tillögum lagðar fyrir Alþingi í formi skýrslu.“

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða málefni sem allmikla umræðu og umfjöllun hefur hlotið úti í þjóðfélaginu á undanförnum missirum. Það er reyndar svo að umræða um nauðsyn þess að setja lög eða reglur um skoðanakannanir er í heiminum næstum jafngömul þessum könnunum sjálfum en lagasetning hefur þó óvíða orðið niðurstaðan. Svo að fyrsta flm. sé kunnugt um er það eingöngu Frakkland sem hefur sett sérstaka löggjöf um gerð og birtingu skoðanakannana, sbr. fskj. I með þessari þáltill.

Það er nauðsynlegt að menn geri sér þó grein fyrir því þegar bornar eru saman aðstæður hér heima og erlendis að gerð skoðanakannana á sér miklu lengri sögu víða erlendis og áratuga hefðir hafa skapast um framkvæmd slíkra kannana. Einnig hefur það víðast hvar orðið reyndin að gerð kannananna hefur færst í hendur rótgróinna og sérhæfðra stofnana sem skapað hafa sér traust og álit. Við þessar aðstæður er ekki að búa hér á Íslandi. Saga skoðanakannana hér er fremur stutt eins og reyndar saga þeirrar miklu massafjölmiðlunar sem gjarnan er í nánum tengslum við slíkar kannanir. Hér vantar að verulegu leyti hefðir og sumir þeir aðilar sem fást við gerð og úrvinnslu kannana hafa takmarkaða reynslu að baki.

M.a. í þessu ljósi er sérstök ástæða til þess að það verði skoðað hvort ekki þarf að koma hér á reglum eða beinlínis setja sérstaka löggjöf um þessi efni. Það er óþarfi að tíunda þær miklu umræður sem orðið hafa um áhrif skoðanakannananna og þær deilur sem uppi eru, bæði meðal fræðimanna og ýmissa annarra sem telja sér málið skylt, svo sem eins og stjórnmálamanna, að hve miklu leyti skoðanakannanir hafi áhrif á afstöðu almennings, að hve miklu leyti þær geti orðið skoðanamyndandi og með hvaða hætti ætti að reyna að tryggja að þær hafi ekki óeðlileg áhrif eða truflandi áhrif á almenning og geri honum erfiðara en ella að mynda sér heilbrigða skoðun og taka afstöðu til manna og málefna.

Öll þessi umræða er hv. alþm. væntanlega nokkuð vel kunn og þarf ekki miklu við það að bæta. Þó að það hafi ekki orðið niðurstaðan í flestum þeim löndum þar sem gerð skoðanakannana er útbreidd að setja um það sérstaka löggjöf er mér ekki kunnugt um eitt einasta land í hópi vestrænna ríkja a.m.k. þar sem ekki hefur verið um það mikil umræða hvort rétt og nauðsynlegt væri að setja slík lög þó að af því hafi ekki orðið af ýmsum ástæðum, m. a. þeim sem ég rakti hér fyrr að þessi mál eiga sér þar meiri hefðir og eru í fastari skorðum en til er að dreifa hjá okkur.

Alþm. hv. til glöggvunar eru birt sem fylgiskjal með tillögunni þau lög frá Frakklandi sem vitnað var áður til og fjalla um birtingu og dreifingu skoðanakannana. Ég vek þar sérstaka athygli hv. alþm. á 4. kafla í þeim lögum á bls. 4 í tillögunni þar sem eru tíunduð sérstök ákvæði sem við eiga þegar kosningar fara í hönd. Eitt af þeim atriðum sem hvað háværust hafa verið í umræðunni um skoðanakannanir er hvort réttlætanlegt sé að verið sé að gera skoðanakannanir og birta þannig fyrir fram væntanleg úrslit kosninga fram á síðustu stundu áður en kosningar fara fram. Sú niðurstaða sem varð í Frakklandi árið 1977 þegar þar voru sett lög um þetta efni var að síðustu vikuna eða í aðfaraviku kosningalotu eða umferðar í kosningum og á meðan kosningar standa yfir skuli hvers konar birting, dreifing eða umfjöllun skoðanakannana vera bönnuð.

Nú geta menn deilt um hversu líklegt sé að slíkt ákvæði, þó sett sé, nái fram að ganga og haldi í reynd en lítill vafi er þó á því að með þessu er hægt að setja þeim aðilum skorður sem vilja vera vandir að virðingu sinni í þessum efnum. Það er e.t.v. ekki hægt að koma í veg fyrir það að einhverjir, sem ekki ætla sér á annað borð að hlíta ákvæðum laga eða reglna sem settar eru í þessu skyni, standi í því að gera málamynda- eða óvandaðar skoðanakannanir en reynslan af frönsku lögunum er þó sú, er mér tjáð, að hinir rótgrónu aðilar sem vandir eru að virðingu sinni á þessu sviði hlíta þessu ákvæði. Þó að þetta sé e.t.v. eitt af þeim atriðum sem hvað þyngst vega í umræðunni er nauðsynlegt að menn muni að einnig er rétt að skoða hvaða þörf eða hvaða möguleikar séu til þess að setja almennari reglur á þessu sviði.

Ég vil geta þess að þessu máli var hreyft hér á síðasta Alþingi með tilteknum hætti þegar flutt var þáltill. um að gera úttekt á áreiðanleika skoðanakannana. Flm. þeirrar till. voru hv. þm. Halldór Blöndal og Guðmundur H. Garðarsson og hv. þm. Halldór Blöndal er annar flm. að þessari tillögu sem hér er flutt.

Það er von mín, herra forseti, að þetta mál fái greiðan framgang. Mér er kunnugt um það og ég hef athugað það sérstaklega að það er fyrir því áhugi á meðal þeirra sem standa í því að gera skoðanakannanir að tekið verði á þessum málum. Þar hygg ég að sú skoðun sé býsna útbreidd að farsælla væri ef hjá því verði komist að reyna að forðast lagasetningu á þessu sviði því að slíkt er vissulega vandasamt verk en láta frekar á það reyna, a.m.k. fyrst um sinn, hvort unnt sé með því að koma á samstarfi þessara aðila og tryggja að þeir setji sér starfsreglur að ná betri tökum á þessum málum en eru í dag.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegur forseti, legg ég svo til að till. verði vísað til hv. félmn.