03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

147. mál, skoðanakannanir

Níels Árni Lund:

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að lýsa yfir stuðningi við þá þáltill. sem hér er til umræðu. Hér hafa verið sett fram í máli manna ýmis þau rök sem mér finnst vert að taka undir. Hv. þm. Árni Gunnarsson flutti greinargóða ræðu, svo og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem er 1. flm. þessarar þáltill. En að gefnu tilefni fannst mér rétt að hér kæmu fram fleiri og lýstu skoðunum sínu á þessu máli og vil ég gera það hér með.

Ég sé ekki ástæðu til að tíunda öllu frekar fleiri rök með þessu, en bendi þó á það, sem hér hefur komið fram, að nauðsynlegt er að settar séu reglur um hvað á að leyfa skoðanakannanir með skömmum tíma fyrir kjördag eða birta niðurstöður þeirra þar sem er vitað mál að margir snúast hreinlega eftir þessum niðurstöðum, hversu áreiðanlegar sem þær svo eru. Hér hefur einnig komið fram að jafnvel gætu stjórnmálamenn látið stýrast af niðurstöðum slíkra kannana sem við höfum enga vissu fyrir oft og tíðum hve vel eru unnar.

Ég ítreka stuðning minn við þáltill.