03.12.1987
Sameinað þing: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

148. mál, þjóðvegir á höfuðborgarsvæðinu

Flm. (Benedikt Bogason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um gerð framkvæmdaáætlunar um þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu. Till. þessi er á þskj. 157 og er 148. mál þessa þings. Flm. ásamt mér eru: Hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir 16. þm. Reykv., Guðmundur Ágústsson, 11. þm. Reykv., Hreggviður Jónsson, 11. þm. Reykn., og Júlíus Sólnes, 7. þm. Reykn. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera fimm ára framkvæmdaáætlun um stofnbrautir og þjóðvegi í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu í samráði við sveitarfélögin þar. Jafnframt verði gerðar ákveðnar tillögur um fjármögnun framkvæmdanna. Á árinu 1988 verði varið 360 millj . kr. í þetta verkefni.“

Við gerð aðalskipulags fyrir Reykjavík 1962–1983, sem samþykkt var 1966, var lagður grunnur að því aðalæðakerfi umferðar sem við búum við á höfuðborgarsvæðinu. Verki þessu stjórnuðu viðurkenndir erlendir sérfræðingar á sviði skipulags- og umferðarmála og unnu það í náinni samvinnu við stjórnendur og embættismenn Reykjavíkurborgar og í samráði við Vegagerð ríkisins og fulltrúa nágrannasveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, allt frá Hafnarfirði og upp á Kjalarnes.

Þótt lega þessara upphaflegu stofnæða aðalskipulagsins frá 1966 sé að mestu óbreytt og nágrannasveitarfélög hafi aðlagað sig þessu hafa þessar stofnæðar umferðar ekki nándar nærri verið byggðar út eins og til var ætlast á sama tíma og hverfin, sem þær áttu að þjóna, hafa byggst að fullu og vel það eftir 1983.

Ég vil í þessu sambandi, með leyfi hæstv. forseta, vitna í forsendur þessa meginverks, sem aðalskipulagið var, um samhengi milli byggðar, umferðar og gatnakerfis. Þar stendur á bls. 87:

„Þær skipulagsákvarðanir sem borgaryfirvöld taka hafa sínar afleiðingar fyrir umferðarkerfið. Ein einasta ákvörðun getur valdið óleysanlegum hnút í umferðarkerfinu eða neytt borgina til að gera dýr umferðarmannvirki sem komast hefði mátt hjá að öðrum kosti.“

Og í sömu bók á bls. 105, um tæknilegt og starfrænt markmið aðalskipulagsins, stendur:

„Að skipuleggja og byggja borg þannig að hæfni bifreiðarinnar sé fullnýtt felur það í sér m.a. að flokka þarf umferðargötur svo að aka megi lengri vegalengdir á milli borgarhluta á götum í háum gæðaflokki að því er snertir hraða, umferðarrými og öryggi. Jafnframt því sem aðstæður batna við þetta fyrir bílaumferðina vinnst það að mikilli óviðkomandi truflandi umferð er beint frá íbúðahverfunum.“

En það er ekki nóg að eiga breiðar og greiðar umferðargötur á fallegum kortum. Það verður að leggja þær og útfæra þær fyrir þá umferðarrýmd sem til er ætlast. Það hefur því miður gengið seint og illa á höfuðborgarsvæðinu og á það sínar skýringar eins og seinna verður vikið að.

Stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu skv. vegáætlun 1987–1990 eru: Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur, Hafnarfjarðarvegur, Reykjanesbraut, Arnarnesvegur, sem oft hefur verið nefndur Ofanbyggðarvegur, Vífilsstaðavegur, Bessastaðavegur að mestum hluta, Hafravatnsvegur að hluta.

Eftirfarandi vegir á höfuðborgarsvæðinu eru skilgreindir sem þjóðvegir í þéttbýli skv. reglugerð um þjóðvegi í kaupstöðum og kauptúnum frá 12. maí 1986. Í Hafnarfirði: Reykjavíkurvegur, Fjarðargata, Strandgata, Ásabraut, Flatahraun frá Reykjavíkurvegi að Hafnarfjarðarvegi og Lækjargata. Í Bessastaðahreppi: Álftanesvegur, hluti. Garðabæ: Vífilsstaðavegur, Bæjarbraut. Í Kópavogi: Nýbýlavegur. Á Seltjarnarnesi: Norðurströnd og Suðurströnd. Í Mosfellsbæ: Þverholt. Í Reykjavík: Eiðisgrandi, Ánanaust, Hringbraut, Miklabraut, Vesturlandsvegur að Höfðabakka, Sætún, Kleppsvegur, Elliðavogur, Reykjanesbraut að Breiðholtsbraut, Kringlumýrarbraut, Breiðholtsbraut, Fossvogsbraut frá Hringbraut við Sóleyjargötu sunnan Öskjuhlíðar um Fossvogsdal að Reykjanesbraut. Þessi síðast nefnda hefur ekki komist í framkvæmd og er umdeild enn þá. Enn fremur Stekkjarbakki, Höfðabakki, Gullinbrú og Gufunesvegur, Bæjarháls, Bústaðavegur frá Reykjanesbraut um Öskjuhlíð að Miklatorgi, Sóleyjargata, Fríkirkjuvegur, Lækjargata, Kalkofnsvegur, Tryggvagata og Mýrargata.

Eins og þessi langa upptalning ber með sér er hér um að ræða allar helstu umferðaræðar höfuðborgarsvæðisins, gamla beinagrindin frá aðalskipulaginu 1966 er að mestu leyti heil, á pappírunum a.m.k.

Það dylst engum sem ekur um höfuðborgarsvæðið að stofnkerfi umferðarinnar er sprungið. Mikil aukning umferðar á síðustu árum vegna fjölgunar bifreiða og íbúa ásamt aukinni athafnasemi hefur leitt til þess að umferðaræðar stíflast á annatímum. Ferðatíminn lengist og óæskileg umferð um safngötur og húsagötur eykst, umferðaröryggi þverr og slysunum fjölgar.

Á undanförnum árum og áratugum hefur verið gert stórátak í vegagerð um allt land, byggðarlög og landshlutar smám saman tengd saman með betri vegum, uppbyggðum með bundnu slitlagi og betri og stærri brýr gerðar. Þjóðhagslegur ávinningur af þessu er auðsær, enda oftast um mjög arðbærar framkvæmdir að ræða. Þessu ber að halda áfram af fullri einurð. En á sama tíma og mestöll landsbyggðin getur fagnað betri vegum hefur sigið á ógæfuhliðina á höfuðborgarsvæðinu eins og áður er getið. Því þarf að gera stórátak. Hér er lagt til að gerð verði fimm ára framkvæmdaáætlun, 1988 til og með 1992, og hafist handa strax á næsta ári með því að verja 360 millj. kr. í framkvæmdir í stað um 150 millj. kr. sem samtals er áætlað í gildandi vegáætlun. Það skiptist þannig: stofnbrautirnar 70 millj. kr. og þjóðvegir í þéttbýli um 80 millj.

Sérstakur vinnuhópur, sem Vegagerð ríkisins kom á til að fjalla um vegakerfi á höfuðborgarsvæðinu, skilaði fyrstu drögum að framkvæmdaáætlun 1985–1990 í apríl 1985 og gaf út Áfangaskýrslu I. Von hefur verið á Áfangaskýrslu II en gera má ráð fyrir að nauðsynleg framkvæmdaþörf á fimm árum verði vart undir 2000 millj. kr. eða 400 millj. kr. að meðaltali á ári. Þessi skýrsla barst mér í hendur í gær og staðfestir hún fjárþörfina.

Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1988 er áætlað að innheimta bifreiðaskatta verði 1700 millj. kr., þar af sérstakur bifreiðaskattur 650 millj. kr. Bíleigendum þykir það vera að bera í bakkafullan lækinn að leggja þennan sérstaka skatt á bifreiðar ofan á alla aðra skatta. Ríkisstjórnin gerði því bragarbót með því að verja hluta af þessum skatti í umrætt verkefni á árinu 1988 eða þá að auknum tekjum af bensíngjaldi 1987 og 1988 yrði beint inn á þetta verkefni.

Í þáltill. er lagt til að gerð sé fimm ára framkvæmdaáætlun fyrir tímabilið 1988 fram til ársbyrjunar 1993, átak til að koma umferðinni í bærilegt horf án þess að ofbjóða gjaldgetu ríkissjóðs, þ.e. skattþegnum í landinu. Samfellt átak í skipulegri röð kemur í veg fyrir dýrar bráðabirgðalausnir, slitnar úr samhengi við heildina, en slíkt hefur því miður komið fyrir oftar en einu sinni þar sem umferðarvandi á einum stað er leystur með því að færa hann yfir á næsta horn.

Einnig styður það að því að viðhöfð séu ströng fagleg vinnubrögð við útfærslu þannig að fullt samræmi ríki um akreinar, útaf- og innáakstur og gerð gatnamóta. Núverandi slysagildrum, sem því miður eru allt of margar í gatnakerfinu, verði útrýmt. Það er nefnilega vonlaust að skapa öryggi og menningu í umferðinni ef gatnakerfið er ruglingslegt.

Borgarstjórinn í Reykjavík sendi nýlega eins konar neyðarkall til hv. þm. Reykjavíkur og fjvn. varðandi stöðu þessara mála. Í niðurlagi bréfs sem hann sendi telur hann að það kerfi sem skammti fé til þjóðvega í þéttbýli sé gengið sér til húðar. Ég held að það sé ekki nauðsynlegt að líta svo á ef á heildina er lítið. Hins vegar er hér um að ræða sérstakar forsendur sem kalla á sérstakar fjárveitingar eins og gerst hefur t.d. með O-vegina og jarðgangagerð.

Hér hefur of lengi verið sofið á verðinum og mál til komið að vakna nú, enda kemur fram í skýrslu hæstv. fyrrv. samgrh., Matthíasar Bjarnasonar, í febrúar sl., um samgöngumál, á bls. 12, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrátt fyrir framlög til þjóðvega í þéttbýli áttu hin smærri þéttbýli í erfiðleikum með að ljúka gerð þjóðvega sinna. Til að hjálpa þessum sveitarfélögum hefur í nokkur ár verið veitt fé sérstaklega í vegáætlun. Hefur þetta gefið góða raun og eru líkur til að öllum þjóðvegum í þéttbýli verði lokið á næstu þremur til fjórum árum.“

Og neðar í sömu skýrslu á bls. 12: „Annað verkefni má nefna sem kallar eftir verulegu fjármagni, en það eru úrbætur á þjóðvegum á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem umferðin er mest og stutt í öngþveiti á ýmsum helstu leiðum eru slysin tíðust.

Verður ekki komist hjá að gera nokkurt átak í þessum efnum á næstu árum.“

Vegáætlun fyrir árin 1987–1990, sem samþykkt var á Alþingi 18. mars sl., svarar þessu kalli heldur dauflega eins og áður er sagt. Þessi till. til þál. er raunverulega svar við því kalli.

Þau ánægjulegu tíðindi hafa gerst frá því þáltill. þessi var lögð fram að í ljós hafa komið snögg viðbrögð hæstv. núv. samgrh., Matthíasar Á. Mathiesens, m.a. með útgáfu áðurnefndrar Áfangaskýrslu II, með drögum að framkvæmdaáætlun og tillögu í ríkisstjórn um að auka fé í Vegasjóð um 300 millj. kr. Þá er bara að merkja, ég tek það fram, nauðsynlegan hluta þeirra í framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Það þurfa hv. alþm. að tryggja með því að samþykkja þessa þáltill.

Ég vil leyfa mér, hæstv. forseti, að leggja til að till. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvmn.