04.12.1987
Efri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

Fundarboð og fjarvera þingmanna

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég minnist þess að þegar ég kom fyrst inn á þing sem varaþm. mætti ég á fundi, ég hygg að það hafi verið í Sþ. frekar en í deild, og ég held að við höfum verið tveir eða þrír þm. Það var útbýtingarfundur. Það er altítt og sérstaklega þegar tímaþröng er að reyna að koma frv. til þm., að þeir hafi aðgang að þeim fullprentuðum og það sé búið að útbýta þeim. Það er auðvitað ekki síður verið að taka tillit til stjórnarandstöðu en stjórnar með þessum hætti.

Ég vildi aðeins segja frá því að mér er kunnugt um að þetta er altítt og það er ekkert í þingsköpum sem segir að ekki megi setja fund án þess að meiri hlutinn sé mættur eða aukinn meiri hluti. Hér er bara einfaldlega um misskilning að ræða og það getur ekki valdið neinum deilum okkar á milli eða þvermóðsku eins og menn kannski hefðu óttast. Ég vona að þeir sem áður hafa setið hér á þingi minnist nákvæmlega þessara atvika. Hvort þetta er svo rétt siðvenja er allt annað mál. En þetta er bæði löglegt og altítt og hefur verið gert í áratugi.